Úr fjötrum fátæktar 7. janúar 2006 00:01 Á meðan við Íslendingar eyddum fimm hundruð milljónum í flugelda; í þann mund sem kauphækkanir æðstu embættismanna og starfslokasamningar virðulegra forstjóra náðu nýjum hæðum; þessa sömu vikudaga dundaði ég mér við að lesa Hugsjónaeld, minningar um Einar Olgeirsson og raunar þar á undan var ég nýbúinn að leggja frá mér bókina hans Gylfa Gröndal, Fólk í fjötrum. Hvort tveggja bækur sem lýsa því hyldýpi lífskjara sem Íslendingar bjuggu við og því hyldýpi, sem er á milli þeirrar veraldar sem var og þeirra tíma við lifum nú. Þetta var þörf lesning. Hvað var það sem heillaði mig við þessar bækur? Af hverju höfða þær svona sterkt til mín? Um fátækt og basl síðustu aldar, um kommúnista, sem sat uppi með steinbarn í maganum, eins og Laxness hefði orðað það. Um liðna tíð, um veröld sem var, tíma, sem vonandi koma aldrei aftur og koma okkur ekki við, þegar til framtiðar er horft. Eða hvað? Saga íslensku þjóðarinnar langt fram eftir síðustu öld, var saga misskiptingar, misréttis og mannvonsku. Stærsti hluti þjóðarinnar bjó við skort, hvort heldur til sjávar eða sveita. Vistarbandið var ekkert annað en þrælahald og íslenskur "aðall", íslenskur verkalýður, var réttlaus og allslaus. Um það vitna þessar bækur. Og allt var þetta svona, til skamms tíma, rétt handan hornsins. Afar okkar og ömmur upplifðu þetta ástand. Við eigum öll, hin íslenska þjóð, uppruna okkar í þessari vesöld og vosbúð. Við eigum öll þessar rætur. Jú, jú, einstaka fjölskylda, velstæðir sjálfseignabændur eða dugmiklir útvegsmenn komu ár sinni fyrir borð, en allur þorri fólks getur rakið ættir sínar til þeirra tíma, þegar forfeður þeirra stunduðu vinnumennsku í blautum hosum, í lekum vistarverum, með ómegð barna, í kaldri vist og á vergangi og áttu sér enga framtíð aðra en þá að hokra sem leiguliðar í kotum og kofum. Flúðu seinna á mölina þar sem kjallaraholurnar tóku við, atvinnuleysið, réttleysið, heilsuleysið. Það er ekki svo ýkja langur vegur, frá kösinni á Laugaveginum á Þorláksmessu, sem fyllti búðirnar, til þeirra forfeðra okkar, sem ólu aldur sinn við þá sömu götu, í kreppu og kaldri vist. Auðvitað er ástæða til að fagna þeirri lífskjarabyltingu sem orðið hefur Íslandi á undanförnum árum. En það er svo ótrúlega stutt síðan annað var upp á teningnum. Barátta upp á líf og dauða. Barátta gegn fátæktinni. Baráttan fyrir frelsinu. Og þarf þá nokkurn að undra, þótt ungir fullhugar, hugsjónamenn fyrri tíma, hafi fyllst eldmóði til að bæta kjörin, gefið valdsmönnum langt nef og barist fyrir lifibrauði og sjálfsögðum mannréttindum. Maður eins og Einar Olgeirsson var löngum atyrtur og hrakyrtur í orrahríð stjórnmálanna á sinni tíð. Heiftin var slík á þeim tímum að menn af hans sauðahúsi voru ofsóttir og útilokaðir frá vinnu. Fullfrískir verkamenn, jafnvel konur, þurftu að búa við þá niðurlægingu að standa í biðröð á hverjum morgni, í þeirri von að allsráðandi verkstjórinn aumkaði sig yfir þau og úthlutaði þeim starf við uppskipun einn dag í einu eða jafnvel ekki lengur en til hádegis. Engir kaffitímar, ekkert yfirvinnukaup, engar tryggingar, engin réttindi, ekkert lífsviðurværi. Þetta var auðvitað ekkert annað en þrældómur af verstu gerð og við þetta mátti alþýða landsins una, fram á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Ég þekki enn fólk sem bjó við þetta hlutskipti. Skyldi nokkurn undra þótt stórhuga eldhugar þessarar kynslóðar hafi gerst byltingarmenn og kommunistar? Hvað sagði ekki Ólafur Thors við Einar: "Ef ég væri af fátæku fólki kominn, þá mundi ég líka vera kommúnisti". Þegar við lítum yfir farinn veg í sögu þessarar þjóðar og miklumst af framförum og frelsi og þeim forréttindum að búa við hagsæld, velferð og góðan efnahag, þá er það þessu fólki að þakka, grasrót þjóðarinnar, alþýðunni, sem barðist til mannréttinda, rétti úr sér frammi fyrir auðvaldinu og yfirvaldinu, skóp þann jarðveg, það réttlæti, að hver maður, hversu lágt hann er settur í mannvirðingarstiganum og manngreinarálitinu, á sér tilverurétt og tilkall til sömu tækifæra og lífsgæða og aðrir. Við erum öll sprottin úr þeim jarðvegi. Úr þeirri veröld sem var. Þangað sækjum við velsældina. Og manndóminn. Þessum manndómi eigum við ekki að glutra niður í ofgnótt og ofurlaunum, ekki misbjóða sigrum velsældarinnar og frelsisbaráttu forfeðranna, með því að fara úr öskunni í eldinn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ellert B. Schram Skoðanir Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Andrésdóttir Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Vondar hugmyndir í verðbólgu Hildur Sverrisdóttir Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Misskilin mannúð í hælisleitendamálum Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir Skoðun
Á meðan við Íslendingar eyddum fimm hundruð milljónum í flugelda; í þann mund sem kauphækkanir æðstu embættismanna og starfslokasamningar virðulegra forstjóra náðu nýjum hæðum; þessa sömu vikudaga dundaði ég mér við að lesa Hugsjónaeld, minningar um Einar Olgeirsson og raunar þar á undan var ég nýbúinn að leggja frá mér bókina hans Gylfa Gröndal, Fólk í fjötrum. Hvort tveggja bækur sem lýsa því hyldýpi lífskjara sem Íslendingar bjuggu við og því hyldýpi, sem er á milli þeirrar veraldar sem var og þeirra tíma við lifum nú. Þetta var þörf lesning. Hvað var það sem heillaði mig við þessar bækur? Af hverju höfða þær svona sterkt til mín? Um fátækt og basl síðustu aldar, um kommúnista, sem sat uppi með steinbarn í maganum, eins og Laxness hefði orðað það. Um liðna tíð, um veröld sem var, tíma, sem vonandi koma aldrei aftur og koma okkur ekki við, þegar til framtiðar er horft. Eða hvað? Saga íslensku þjóðarinnar langt fram eftir síðustu öld, var saga misskiptingar, misréttis og mannvonsku. Stærsti hluti þjóðarinnar bjó við skort, hvort heldur til sjávar eða sveita. Vistarbandið var ekkert annað en þrælahald og íslenskur "aðall", íslenskur verkalýður, var réttlaus og allslaus. Um það vitna þessar bækur. Og allt var þetta svona, til skamms tíma, rétt handan hornsins. Afar okkar og ömmur upplifðu þetta ástand. Við eigum öll, hin íslenska þjóð, uppruna okkar í þessari vesöld og vosbúð. Við eigum öll þessar rætur. Jú, jú, einstaka fjölskylda, velstæðir sjálfseignabændur eða dugmiklir útvegsmenn komu ár sinni fyrir borð, en allur þorri fólks getur rakið ættir sínar til þeirra tíma, þegar forfeður þeirra stunduðu vinnumennsku í blautum hosum, í lekum vistarverum, með ómegð barna, í kaldri vist og á vergangi og áttu sér enga framtíð aðra en þá að hokra sem leiguliðar í kotum og kofum. Flúðu seinna á mölina þar sem kjallaraholurnar tóku við, atvinnuleysið, réttleysið, heilsuleysið. Það er ekki svo ýkja langur vegur, frá kösinni á Laugaveginum á Þorláksmessu, sem fyllti búðirnar, til þeirra forfeðra okkar, sem ólu aldur sinn við þá sömu götu, í kreppu og kaldri vist. Auðvitað er ástæða til að fagna þeirri lífskjarabyltingu sem orðið hefur Íslandi á undanförnum árum. En það er svo ótrúlega stutt síðan annað var upp á teningnum. Barátta upp á líf og dauða. Barátta gegn fátæktinni. Baráttan fyrir frelsinu. Og þarf þá nokkurn að undra, þótt ungir fullhugar, hugsjónamenn fyrri tíma, hafi fyllst eldmóði til að bæta kjörin, gefið valdsmönnum langt nef og barist fyrir lifibrauði og sjálfsögðum mannréttindum. Maður eins og Einar Olgeirsson var löngum atyrtur og hrakyrtur í orrahríð stjórnmálanna á sinni tíð. Heiftin var slík á þeim tímum að menn af hans sauðahúsi voru ofsóttir og útilokaðir frá vinnu. Fullfrískir verkamenn, jafnvel konur, þurftu að búa við þá niðurlægingu að standa í biðröð á hverjum morgni, í þeirri von að allsráðandi verkstjórinn aumkaði sig yfir þau og úthlutaði þeim starf við uppskipun einn dag í einu eða jafnvel ekki lengur en til hádegis. Engir kaffitímar, ekkert yfirvinnukaup, engar tryggingar, engin réttindi, ekkert lífsviðurværi. Þetta var auðvitað ekkert annað en þrældómur af verstu gerð og við þetta mátti alþýða landsins una, fram á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Ég þekki enn fólk sem bjó við þetta hlutskipti. Skyldi nokkurn undra þótt stórhuga eldhugar þessarar kynslóðar hafi gerst byltingarmenn og kommunistar? Hvað sagði ekki Ólafur Thors við Einar: "Ef ég væri af fátæku fólki kominn, þá mundi ég líka vera kommúnisti". Þegar við lítum yfir farinn veg í sögu þessarar þjóðar og miklumst af framförum og frelsi og þeim forréttindum að búa við hagsæld, velferð og góðan efnahag, þá er það þessu fólki að þakka, grasrót þjóðarinnar, alþýðunni, sem barðist til mannréttinda, rétti úr sér frammi fyrir auðvaldinu og yfirvaldinu, skóp þann jarðveg, það réttlæti, að hver maður, hversu lágt hann er settur í mannvirðingarstiganum og manngreinarálitinu, á sér tilverurétt og tilkall til sömu tækifæra og lífsgæða og aðrir. Við erum öll sprottin úr þeim jarðvegi. Úr þeirri veröld sem var. Þangað sækjum við velsældina. Og manndóminn. Þessum manndómi eigum við ekki að glutra niður í ofgnótt og ofurlaunum, ekki misbjóða sigrum velsældarinnar og frelsisbaráttu forfeðranna, með því að fara úr öskunni í eldinn.