Erlent

Öryggisráð SÞ samþykkir ályktun um vopnahlé

ísraelskir Skriðdrekar Þrátt fyrir ályktun um vopnahlé heldur herafli Ísraela áfram að aukast í suðurhluta Líbanons. Yfirmaður hersins segir ísraelskan her verða í landinu þangað til friðargæsluliðar komi.Fréttablaðið/AP
ísraelskir Skriðdrekar Þrátt fyrir ályktun um vopnahlé heldur herafli Ísraela áfram að aukast í suðurhluta Líbanons. Yfirmaður hersins segir ísraelskan her verða í landinu þangað til friðargæsluliðar komi.Fréttablaðið/AP
líbanon Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt ályktun þar sem krafist er að vopnahléi verði komið á í Líbanon. Ætlast er til þess að ríkisstjórnir Ísraels og Líbanon staðfesti ályktunina, sem kveður á um „algjöra stöðvun á hernaðarátökum“. Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkissjónvarpsins, BBC.

Í ályktunininni segir að liðsmenn Hizbollah-samtakanna skuli hætta öllum árásum og að Ísrael hætti sókn sinni inn í Líbanon strax. Allt að fimmtán þúsund friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna verði sendir til landamæra Líbanons og Ísraels til aðstoðar líbanska hernum við að fylgja eftir vopnahléinu. Ísraelsmenn dragi her sinn til baka í áföngum. Einnig eru Ísraelar hvattir til að semja um lausn líbanskra fanga í Ísrael og þess krafist að ísraelskum hermönnum í haldi Hizbollah verði sleppt.

Ríkisstjórn Ísraels mun ræða ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag og kjósa um hvort hernaðarátökum verði hætt. Forsætisráðherra Ísraels, Ehud Olmert, hefur beðið ríkisstjórn sína um að staðfesta ályktunina, hún sé jákvæð og viðunandi.

Forsætisráðherra Líbanons, Fouad Siniora, gaf einnig í skyn að vopnahléð yrði staðfest af Líbanon. Hann sagði ályktunina sýna að allur heimurinn hafi staðið með Líbanon. Samkvæmt leiðtoga Hizbollah, Hassan Nasrallah, ætla samtökin að virða vopnahléið. Þó sagði hann í sjónvarpsávarpi í gær að liðsmenn Hizbollah myndu halda áfram að berjast svo lengi sem ísraelskur her sé í Líbanon.

Herafli Ísraela í suðurhluta Líbanon heldur áfram að aukast. Yfirmaður ísraelska hersins, Dan Halutz, segir að ísraelskur her verði í Líbanon þar til friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna komi til landsins.

Yfir eitt þúsund Líbanar og yfir hundrað og tuttugu Ísraelar hafa látist í átökunum sem hófust með ráni skæruliða Hizbollah á tveimur ísraelskum hermönnum hinn 12. júlí[email protected]



Fleiri fréttir

Sjá meira


×