Lífið

Bylgjan með rauða nefið...

Föstudagurinn 1. desember er Dagur rauða nefsins. Þá mun UNICEF efna til landssöfnunar til handa börnum sem eiga um sárt að binda í Afríku. Markmiðið er að safna heimsforeldrum og verður sérstök þriggja klukkustunda löng söfnunardagskrá í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 á föstudagskvöldið.

Útvarpsstöðin Bylgjan mun einnig leggja sitt af mörkum. Föstudagurinn á Bylgjunni verður helgaður Degi rauða nefsins í einu og öllu og munu þáttastjórnendur þá leggjast á eitt allan liðlangan daginn um að minna hlustendur á þetta göfuga söfnunarátak og hvetja þá til að leggja því lið með því að gerast heimsforeldrar.

 

Einstök brandarakeppni á Bylgjunni

Bylgjan mun standa fyrir sérstakri söfnun fyrir UNICEF með því að efna til léttrar og skemmtilegrar brandarakeppni milli fyrirtækja og hlustenda. Söfunin á Bylgjunni gengur þannig fyrir sig að einstaklingar og fyrirtæki geta keypt brandara á Bylgjunni föstudaginn 1.desember og mun allt andvirði renna til barnahjálpar UNICEF.

Um er að ræða brandara- og fjáröflunarátak þar sem hlustendur, fyrirtæki eða vinnustaðir senda inn einn brandara sem yrði spilaður þangað til annað fyrirtæki yfirbýður hann til að fá sinn brandara í loftið. Það er annað hvort hægt að kaupa leikinn brandara eða hringja inn og segja eigin brandara.

Allir tiltækir þáttastjórnendur Bylgjunnar munu leggja hönd á plóg og standa vaktina frá morgni til síðdegis eða allt þar til söfnunarátakið hefst á Stöð 2.

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem efnt er til slíkrar brandarakeppni í íslensku útvarpi og má með sanni segja að grínið og góðmennskan haldist hönd í hönd og verði vil völd allan föstudaginn á Bylgjunni.

Einnig skal bent á að fyrirtæki geta styrkt UNICEF með því að kaupa rauð trúðanef á allt starfsfólkið sitt. Starfsfólk getur einnig tekið sig saman og skráð sig sem heimsforeldra og styrkt þannig verkefni UNICEF með mánaðarlegum fjárframlögum. Skráningarsíminn er 5 62 62 62.

Bylgjan hvetur alla til að taka þátt og lyfta vinnuandanum í mesta skammdeginu um leið og góðu málefni er lagt lið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.