Lífið

Spennt fyrir stóra deginum

Gyða Björk segist ekki líta svo á að hún komist í tölu fullorðinna við ferminguna.
Gyða Björk segist ekki líta svo á að hún komist í tölu fullorðinna við ferminguna. mynd/heiða.is
Gyða Björk Ólafsdóttir fermist í Svalbarðskirkju á Svalbarðsströnd ásamt níu stelpum og einum strák.

„Ég er spennt fyrir fermingardeginum,“ segir Gyða Björk Ólafsdóttir sem mun fermast í Svalbarðskirkju 19. apríl. Gyða Björk er í áttunda bekk í Valsárskóla á Svalbarðsströnd í Eyjafirði. Krakkarnir í bekknum eru tíu talsins sem munu fermast saman, níu stelpur og einn strákur. Gyða Björk segir samræður stelpnanna í bekknum aðallega snúast um fermingakjólana þegar ferminguna ber á góma.

„Ég er búin að kaupa mér fermingarkjólinn en hann er hvítur,“ segir hún og bætir við að kjóllinn sé keyptur í tískuvöruverslun á Akureyri. Gyða ætlar í hárgreiðslu og myndatöku á fermingardeginum en ekki í förðun.

Aðspurð hvað henni langi í fermingargjöf segist hún helst vilja skartgripi og peninga. „Annars hef ég ekki hugmynd um hvað mig langar í og ég veit ekkert hvað ég fæ. Það verður bara að koma í ljós. Ætli maður fái ekki græjur, peninga og skartgripi,“ segir hún. Þegar Gyða Björk er spurð hvort hún telji sig komast í fullorðinna tölu á fermingardaginn segir hún svo ekki vera. „Ég held ég verði alveg jafn gömul þótt ég hafi fermst. Fermingin snýst frekar um að staðfesta skírnina.“

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.