Skoðun

Að segja satt og rétt frá

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir skrifar
Borgarfulltrúarnir Sigrún Elsa Smáradóttir og Svandís Svavarsdóttir fjalla um REI-málið í Fréttablaðinu á mánudaginn undir fyrirsögninni „Sannleikurinn er góður grunnur". Grein þeirra gengur út á að rengja ummæli Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um að hinir svokölluðu sexmenningar hafi komið í veg fyrir kaup FL Group og Geysis Green Energy á REI. Í staðinn bjóða þær upp á söguskýringar sem ganga út á að eigna sjálfum sér það þarfaverk að hafa stöðvað málið.

Lykilatriði í málinu er að stjórn OR samþykkti söluna á REI til FL Group og Geysis Green á stjórnarfundi fyrir ári. Sigrún Elsa sat þennan örlagaríka stjórnarfund fyrir hönd Samfylkingarinnar og samþykkti söluna. Svandís sat einnig fundinn fyrir hönd Vinstri grænna og ákvað hún að sitja hjá við afgreiðslu málsins. Að sitja hjá er því miður fyrir Svandísi hreint ekki það sama og vera á móti málinu og segja nei.

Með þessar staðreyndir í huga er því frekar skondið að sjá borgarfulltrúana tvo segjast segja sannleikann í grein sinni þar sem þær reyna að eigna sér stöðvun málsins. Augljóst er af ofansögðu að sú túlkun er röng.

Enginn af okkur „sexmenningum" sat í stjórn OR sem samþykkti söluna. Þar sem við vorum hins vegar algerlega á móti málinu frá fyrstu mínútu upphófst atburðarás sem borgarbúar þekkja ágætlega. Sú atburðarás leiddi til þess að salan á REI og miklum verðmætum úr OR gekk ekki eftir. Þvert á það sem stjórn OR ákvað, með Sigrúnu Elsu og Svandísi innanborðs.

Við sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem vorum allan tímann á móti málinu upplifðum verulegt mótlæti í fyrra fyrir það að standa föst á sannfæringu okkar. Það er því fróðlegt í dag, þegar öllum er það ljóst að það hefði verið algert glapræði að selja REI og stóran hluta Orkuveitunnar til áhættufjárfesta eins og lagt var upp með, að sjá borgarfulltrúa sem kusu með málinu eða sátu hjá vilja eigna sér málið.

Höfundur er borgarfulltrúi.








Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×