Ey getur kvikur kú Einar Már Jónsson skrifar 16. júlí 2008 06:00 Nýlega var í fréttum nokkuð óvenjuleg sveit lögreglumanna, sem valdir voru með sérstökum hætti, ekki eftir rassstærð eins og Þórbergur sagði einu sinni að tíðkaðist á Íslandi heldur eftir öðru sem flestir myndu þó telja vöntun eða skerðingu: það var sem sé sveit blindu lögregluþjónanna í Brussel. Þeir eru sex talsins og í miklum ábyrgðarstöðum. Einhverjir myndu nú kannske segja, að það sé ekkert merkilegt við slíka laganna verði, menn hafi löngum haft blinda lögregluþjóna við störf og hafi þeir verið látnir rannsaka fjármálamisferli háttsettra manna, afglöp stjórnmálamanna og annað af því tagi. En við slíkar rannsóknir er með öllu óþarfi að lögreglumennirnir séu blindir, það nægir að þeir loki augunum. Blindu lögregluþjónarnir í Brussel eru hins vegar sjónlausir í raun og veru og þurfa að hafa verið það frá fæðingu eða a.m.k. frá unga aldri. Hjá þeim sem svo er komið fyrir gerist það nefnilega að heyrnin fer að þróast meir en hjá nokkrum öðrum dauðlegum mönnum, því gegnum hana fara nú öll tengsl þeirra við umheiminn; ef þeir þurfa t.d. að fara yfir umferðargötu hafa þeir ekki annað en eyrun til að vísa sér leið og þá ríður á að þau séu sem næmust, annars vofir dauðinn yfir. Um þessa blindu lögregluþjóna eru því sagðar ótrúlegar sögur. Einn þeirra kann t.d. sjö tungumál, sem er kannske ekki einsdæmi, en hann getur auk þess gert greinarmun á hundrað mismunandi tegundum af hreim á þessum ólíku tungum. Ef hann kynni t.d. norsku, sem fylgir að vísu ekki sögunni, gæti hann ekki aðeins þekkt frá hvaða firði einhver mælandi kæmi heldur líka hvorum megin hann byggi við fjörðinn. Á þennan hátt gat hann heyrt að grunaður maður var Marokkóbúi með því að hlusta á hreiminn þegar sá hinn sami talaði evrópskt tungumál. Með því að hlusta á hljóðin í hinum ýmsu tökkum á síma sem maður var að ýta á gat þessi lögreglumaður fundið út númerið sem verið var að hringja í. Fyrir þessa menn er það leikur einn að þekkja hvaða bílategund sem er út frá vélarhljóðinu einu. Nú er augljóst að menn sem hafa svo þróaða heyrnargáfu geta orðið að gagni á mörgum þáttum lögreglustarfsins, svo sem við yfirheyrslur og slíkt. En eitt er þó það svið þar sem þeir njóta sín sérstaklega og er í rauninni þeirra sérgrein, enda mun þeim aðallega falið að starfa við það, og eins og málum er nú háttað hafa þeir þá nóg að gera, en það svið er einmitt símhleranir. Við það bætast að sjálfsögðu upptökur sem gerðar eru með földum hljóðnemum hingað og þangað þar sem menn búast síst við þeim og fara kannske að leysa frá skjóðunni án þess að hafa hugmynd um heyrandann í holtinu. Á þessu sviði gera blindu lögreglumennirnir nú kraftaverk í raun og sann. Vitanlega geta þeir heyrt samtöl manna og orðræður gegnum alls kyns hávaða og aukahljóð og skrifað þau upp, þótt aðrir heyri kannske lítið annað en skarkala, og þeir geta greint á milli þótt margir séu að tala í einu. Með því að hlusta á aukahljóð af ýmsu tagi geta þeir einnig heyrt, ef svo ber undir, hvar samtalið fer fram, á kaffihúsi sem er fullt af fólki, á arabískum veitingastað þar sem menn snæða couscous, í flugvallarbyggingu og eða einhverjum enn öðrum stað. En þetta er ekki allt og sumt. Í venjulegum mannlegum samskiptum skilja menn viðmælendur sína ekki aðeins með því að hlýða á orð þeirra, heldur líka með því að horfa um leið á það látbragð og svipbrigði ýmiss konar sem orðunum fylgja. Öll þessi sérstaka vídd samskiptanna er blindum mönnum að sjálfsögðu lokuð, og því verða þeir að þjálfa með sér sérstakt næmi á raddir annarra og hin smæstu blæbrigði þeirra til að geta numið á þann hátt allt það sem sjáandi maður skynjar með augunum. Þetta kemur nú að hinu mesta gagni þegar verið er að hlusta á upptökur úr símhlerunum og slíku. Með því að beina athyglinni að raddblæ þeirra sem tala getur blindur lögreglumaður kannske fundið út hvort þeir eru einlægir, hvort þeir meina í raun og veru það sem þeir segja, hvort þeir trúa því sjálfir, hvort eitthvað annað býr undir, kannske eitthvað mjög gruggugt, eða hvort þeir eru að fela eitthvað. Kannske getur hann líka heyrt hvort mælendurnir tala í fyllsta sakleysi eða hvort þeir búast við því hálft í hvoru að verið sé að hlera þá, og haga orðum samkvæmt því. Þetta eru allt hinir mikilvægustu hæfileikar á vorum dögum, þegar allt bendir til að mikill uppgangur sé í vændum í símhlerunum. Og þá geta Íslendingar kveðið: Haltur ríður hrossi, hjörð rekur handarvanur, blindur hlerar svo hlítir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Borgum rétta vexti - Landsbankinn verði banki allra landsmanna Baldur Borgþórsson Skoðun Skuggaspil valdsins Anna Kristín Jensdóttir Skoðun Skólaforðun: Rangnefni sem þarfnast nýrrar nálgunar Rakel Norðfjörð Vilhjálmsdóttir Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Hvernig gerðist þetta? Tryggvi Hjaltason Skoðun Stórsigur fyrir lífeyrisþega Guðmundur Ingi Kristinsson Skoðun Gleymdu leikskólabörnin Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir Skoðun Niðurgreiðum raforku til grænmetisræktar Eyjólfur Ármannsson Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun
Nýlega var í fréttum nokkuð óvenjuleg sveit lögreglumanna, sem valdir voru með sérstökum hætti, ekki eftir rassstærð eins og Þórbergur sagði einu sinni að tíðkaðist á Íslandi heldur eftir öðru sem flestir myndu þó telja vöntun eða skerðingu: það var sem sé sveit blindu lögregluþjónanna í Brussel. Þeir eru sex talsins og í miklum ábyrgðarstöðum. Einhverjir myndu nú kannske segja, að það sé ekkert merkilegt við slíka laganna verði, menn hafi löngum haft blinda lögregluþjóna við störf og hafi þeir verið látnir rannsaka fjármálamisferli háttsettra manna, afglöp stjórnmálamanna og annað af því tagi. En við slíkar rannsóknir er með öllu óþarfi að lögreglumennirnir séu blindir, það nægir að þeir loki augunum. Blindu lögregluþjónarnir í Brussel eru hins vegar sjónlausir í raun og veru og þurfa að hafa verið það frá fæðingu eða a.m.k. frá unga aldri. Hjá þeim sem svo er komið fyrir gerist það nefnilega að heyrnin fer að þróast meir en hjá nokkrum öðrum dauðlegum mönnum, því gegnum hana fara nú öll tengsl þeirra við umheiminn; ef þeir þurfa t.d. að fara yfir umferðargötu hafa þeir ekki annað en eyrun til að vísa sér leið og þá ríður á að þau séu sem næmust, annars vofir dauðinn yfir. Um þessa blindu lögregluþjóna eru því sagðar ótrúlegar sögur. Einn þeirra kann t.d. sjö tungumál, sem er kannske ekki einsdæmi, en hann getur auk þess gert greinarmun á hundrað mismunandi tegundum af hreim á þessum ólíku tungum. Ef hann kynni t.d. norsku, sem fylgir að vísu ekki sögunni, gæti hann ekki aðeins þekkt frá hvaða firði einhver mælandi kæmi heldur líka hvorum megin hann byggi við fjörðinn. Á þennan hátt gat hann heyrt að grunaður maður var Marokkóbúi með því að hlusta á hreiminn þegar sá hinn sami talaði evrópskt tungumál. Með því að hlusta á hljóðin í hinum ýmsu tökkum á síma sem maður var að ýta á gat þessi lögreglumaður fundið út númerið sem verið var að hringja í. Fyrir þessa menn er það leikur einn að þekkja hvaða bílategund sem er út frá vélarhljóðinu einu. Nú er augljóst að menn sem hafa svo þróaða heyrnargáfu geta orðið að gagni á mörgum þáttum lögreglustarfsins, svo sem við yfirheyrslur og slíkt. En eitt er þó það svið þar sem þeir njóta sín sérstaklega og er í rauninni þeirra sérgrein, enda mun þeim aðallega falið að starfa við það, og eins og málum er nú háttað hafa þeir þá nóg að gera, en það svið er einmitt símhleranir. Við það bætast að sjálfsögðu upptökur sem gerðar eru með földum hljóðnemum hingað og þangað þar sem menn búast síst við þeim og fara kannske að leysa frá skjóðunni án þess að hafa hugmynd um heyrandann í holtinu. Á þessu sviði gera blindu lögreglumennirnir nú kraftaverk í raun og sann. Vitanlega geta þeir heyrt samtöl manna og orðræður gegnum alls kyns hávaða og aukahljóð og skrifað þau upp, þótt aðrir heyri kannske lítið annað en skarkala, og þeir geta greint á milli þótt margir séu að tala í einu. Með því að hlusta á aukahljóð af ýmsu tagi geta þeir einnig heyrt, ef svo ber undir, hvar samtalið fer fram, á kaffihúsi sem er fullt af fólki, á arabískum veitingastað þar sem menn snæða couscous, í flugvallarbyggingu og eða einhverjum enn öðrum stað. En þetta er ekki allt og sumt. Í venjulegum mannlegum samskiptum skilja menn viðmælendur sína ekki aðeins með því að hlýða á orð þeirra, heldur líka með því að horfa um leið á það látbragð og svipbrigði ýmiss konar sem orðunum fylgja. Öll þessi sérstaka vídd samskiptanna er blindum mönnum að sjálfsögðu lokuð, og því verða þeir að þjálfa með sér sérstakt næmi á raddir annarra og hin smæstu blæbrigði þeirra til að geta numið á þann hátt allt það sem sjáandi maður skynjar með augunum. Þetta kemur nú að hinu mesta gagni þegar verið er að hlusta á upptökur úr símhlerunum og slíku. Með því að beina athyglinni að raddblæ þeirra sem tala getur blindur lögreglumaður kannske fundið út hvort þeir eru einlægir, hvort þeir meina í raun og veru það sem þeir segja, hvort þeir trúa því sjálfir, hvort eitthvað annað býr undir, kannske eitthvað mjög gruggugt, eða hvort þeir eru að fela eitthvað. Kannske getur hann líka heyrt hvort mælendurnir tala í fyllsta sakleysi eða hvort þeir búast við því hálft í hvoru að verið sé að hlera þá, og haga orðum samkvæmt því. Þetta eru allt hinir mikilvægustu hæfileikar á vorum dögum, þegar allt bendir til að mikill uppgangur sé í vændum í símhlerunum. Og þá geta Íslendingar kveðið: Haltur ríður hrossi, hjörð rekur handarvanur, blindur hlerar svo hlítir.