Tónlist

Sjarmi við sænskan framburð

arrival Abba-hljómsveitin Arrival heldur tónleika í Vodafone-höllinni 8. nóvember.
arrival Abba-hljómsveitin Arrival heldur tónleika í Vodafone-höllinni 8. nóvember.

Yfir eitt hundrað hljómsveitir víðs vegar að úr heiminum hafa lifibrauð sitt af því að spila lög til heiðurs Abba, þar á meðal hin heimsþekkta Björn Again og svo Arrival, sem spilar í Vodafone-höllinni 8. nóvember.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Arrival kemur hingað til lands og hlakkar söngkonan Vicky mikið til. „Ég hef heyrt marga góða hluti um Ísland og mér hefur verið sagt að ég yrði að koma þangað og núna er loksins komið að því,“ segir Vicky.

Arrival, sem hefur haldið Abba-sýningar víða um heim í tæp fjórtán ár, fór í tónleikaferð um Bandaríkin í sumar og spilaði fyrir framan tuttugu til þrjátíu þúsund manns á hverju kvöldi. „Þeim finnst mjög merkilegt að við séum frá Svíþjóð og spyrja okkur alls konar spurninga, hvort það sé ekki mikill snjór í Svíþjóð og hvort Kaupmannahöfn sé höfuðborgin. Þeir vita ekki mikið um Skandinavíu en þeir eru frábært fólk og enn betri áhorfendur,“ segir hún.

Arrival hefur að undanförnu verið í hljóðveri að ljúka við upptökur á óútgefnu Abba-lagi sem nefnist Just a Notion. Fékk sveitin lánað gamalt Abba-hljómborð við upptökurnar. „Ég sendi Björn og Benny lög sem við höfðum tekið upp og spurði hann um þetta lag og hann sagði já. Ég veit að þeir eru mjög strangir varðandi svona lagað og þess vegna varð ég undrandi þegar þeir sögðu já.“

Vicky segist aldrei verða þreytt á því að spila sömu lögin kvöld eftir kvöld. „Tónlistin er frábær og síðan er alltaf jafngaman að sjá fólkið í salnum brosa og gleðjast yfir lögunum. Við skemmtun okkur alltaf vel á sviðinu.“

Til að vera góð Abba-hljómsveit segir Vicky nauðsynlegt að hafa góða tónlistarmenn innanborðs auk þess sem sænskur uppruni sé mikilvægur. „Það er sjarminn við þetta. Við berum orðin ekki rétt fram og útlendingarnir elska það,“ segir hún. [email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.