Stóra systir Einar Már Jónsson skrifar 1. október 2008 06:00 Vofa gengur nú ljósum logum um París og reyndar um allt Frakkland og gegnir nafninu „Edvige". Kannske gæti maður ætlað að þetta sé lítil og nett Skotta, því Edvige er að vísu fallegt stúlkunafn, og er því eins vel hægt að ímynda sér hana á gangi um borgarstrætin klædda eftir hausttískunni með eyrnalokka og dökkmáluð hvarmahár, dragandi að sér augnagotur táldráttarmanna meðan laufblöðin falla fölnuð af trjánum. En sumir telja þó að augnaráðið sé ekki blíðlegt, í öðru munnvikinu móti fyrir kuldalegu glotti, og þeir táldráttarmenn sem gefi henni gætur séu af nokkuð sérstöku tagi. Þessu samþykkja þeir sem hafa virt Edvige fyrir sér á þeim eina stað sem hún hefur hingað til opinberast jarðneskum augum í allri sinni dýrð, en það er á síðum lögbirtingablaðs. Þess vegna hitti blaðið „Libération" vafalaust naglann á höfuðið, þegar það kallaði Edvige „stóru systur", því rétt eins og „stóri bróðir" þá hefur „stóra systir" gætur á ÞÉR. „Edvige" er nefnilega ekki aðeins stúlkunafn heldur einnig skammstöfun, og þá jafnframt sakleysislegt dulnefni, fyrir gífurlega tölvu-spjaldskrá sem nú stendur til að setja á stofn með afskaplega fjölbreyttum upplýsingum um þá sem þar eru skráðir. Þessi spjaldskrá á að ná til allra þeirra sem gegna eða hafa gegnt eða boðið sig fram til pólitískrar stöðu, þeirra sem eru eða hafa verið framámenn í stjórnmálafélagi, stéttarfélagi, trúfélagi, baráttusamtökum alls konar, eða í efnahagslífi og þeirra sem „leika eitthvert hlutverk" á slíkum sviðum, hvað sem það nú er, þeirra sem eru áberandi í menningarlífinu, svo og þeirra sem gætu á einhvern hátt „ógnað röð og reglu", án þess að það sé skilgreint nákvæmar. Þetta er þó ekki allt og sumt, heldur á spjaldskráin einnig að ná til allra þeirra sem þessir menn kunna að umgangast. Á henni getur því hver og einn lent, eina skilyrðið er að hafa náð aldurstakmarkinu, og það er sett við þrettán ára aldur. Þær upplýsingar sem á að skrásetja á spjaldskránni eru einnig fjölbreyttar, fyrir utan allt það sem stendur á manntalsskýrslum og blöðum skattstofunnar á að tíunda þar líkamleg séreinkenni manna, kannske stór nef eða löng eyru, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, „heimspekiskoðanir" (væntanlega ef menn eru umhverfisverndarsinnar, friðarsinnar og slíkt), en einnig sitthvað sem varðar heilsufar manna (sýking af eyðni hefur einkum verið nefnd), svo og smekkur manna í ástamálum. Þetta síðasta atriði er ekki alveg ljóst, en alla vega á að skrásetja það ef menn skyldu vera argir. Af sjálfu sér leiðir að þessar upplýsingar á ekki aðeins að skrá um þá menn sem lenda á spjaldskránni fyrir eigin atbeina, ef svo má segja, heldur einnig um þá sem lenda þar einungis af því að þeir eru í návígi við slíka menn. Það fylgir með að almenningur hefur engan aðgang að þessari spjaldskrá, enginn getur t.d. fengið að sjá það sem þar er skrásett um hann sjálfan og leiðrétt það sem þar kunni að vera rangt með farið. Engum upplýsingum verður eytt, þannig að einhver óknytti sem maður hefur óvart framið þrettán ára og verið skrásett þá geta verið dregin fram áratugum síðar, þegar hann er orðinn sómamaður og sækir um háar stöður. Fljótlega eftir að fæðingarvottorð Edvige var birt í byrjun júlí (það er gömul hefð í Frakklandi að gera kunnugt um slík mál yfir hásumarið, þegar menn eru í sumarleyfi), hófust mótmæli, og þótt þau hafi farið hægt í byrjun rísa þau stöðugt hærra. Frakkar telja sig nefnilega hafa ærnar ástæður til að vara sig á spjaldskrám af þessu tagi. Fyrir utan allt annað er gömul reynsla fyrir því að upplýsingar úr þeim leki gjarna til þeirra sem ættu ekki að fá þær, atvinnurekenda og tryggingarfélaga svo eitthvað sé nefnt. Reyndar heyrðist ekki mikið í stjórnarandstöðunni, því ábyrgir vinstri menn eru nú jafnan hræddir við að fá á sig það orð að þeir séu linir í baráttunni gegn glæpum og hryðjuverkum - en sú barátta er að sjálfsögðu réttlætingin fyrir Edvige. En ein sjö hundruð félagssamtök mótmæltu og það fóru af stað undirskriftalistar, sem um hundrað og þrjátíu þúsund manns höfðu skrifað undir nú fyrir skömmu - þótt skopteiknarar blaða teldu lítinn vafa á að þeir sem letruðu nöfn sín á slíkum stað færu beint á spjaldskrána með athugasemd sem boðaði ekkert gott: „Er á móti Edvige." En hætt er við að róðurinn verði þungur því mótmælin eru jafnan veik en tölvurnar reiðubúnar og ekki annars að vænta en þær verði teknar í gagnið, hvað sem hver tautar og raular. Og svo á Edvige nú þegar enn stærri systur, hún heitir „Cristina" og er spjaldskrá varðandi „hryðjuverkastarfsemi". En um hana er ekki talað, hún er hernaðarleyndarmál. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Borgum rétta vexti - Landsbankinn verði banki allra landsmanna Baldur Borgþórsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Skuggaspil valdsins Anna Kristín Jensdóttir Skoðun Streituvaldar heimilanna Anna Karen Sch. Ellertsdóttir Skoðun Stórsigur fyrir lífeyrisþega Guðmundur Ingi Kristinsson Skoðun Afreksverk Lilju Daggar Alfreðsdóttur Atli Valur Jóhannsson Skoðun Fyrirtæki sem stundar stórfelld mannréttindabrot í Palestínu haslar sér völl á Íslandi Hjálmar Heiðdal Skoðun Skólaforðun: Rangnefni sem þarfnast nýrrar nálgunar Rakel Norðfjörð Vilhjálmsdóttir Skoðun Fullorðins greining á loftslags stefnumálum Páll Gunnarsson,Matthías Ólafsson Skoðun Hvernig gerðist þetta? Tryggvi Hjaltason Skoðun
Vofa gengur nú ljósum logum um París og reyndar um allt Frakkland og gegnir nafninu „Edvige". Kannske gæti maður ætlað að þetta sé lítil og nett Skotta, því Edvige er að vísu fallegt stúlkunafn, og er því eins vel hægt að ímynda sér hana á gangi um borgarstrætin klædda eftir hausttískunni með eyrnalokka og dökkmáluð hvarmahár, dragandi að sér augnagotur táldráttarmanna meðan laufblöðin falla fölnuð af trjánum. En sumir telja þó að augnaráðið sé ekki blíðlegt, í öðru munnvikinu móti fyrir kuldalegu glotti, og þeir táldráttarmenn sem gefi henni gætur séu af nokkuð sérstöku tagi. Þessu samþykkja þeir sem hafa virt Edvige fyrir sér á þeim eina stað sem hún hefur hingað til opinberast jarðneskum augum í allri sinni dýrð, en það er á síðum lögbirtingablaðs. Þess vegna hitti blaðið „Libération" vafalaust naglann á höfuðið, þegar það kallaði Edvige „stóru systur", því rétt eins og „stóri bróðir" þá hefur „stóra systir" gætur á ÞÉR. „Edvige" er nefnilega ekki aðeins stúlkunafn heldur einnig skammstöfun, og þá jafnframt sakleysislegt dulnefni, fyrir gífurlega tölvu-spjaldskrá sem nú stendur til að setja á stofn með afskaplega fjölbreyttum upplýsingum um þá sem þar eru skráðir. Þessi spjaldskrá á að ná til allra þeirra sem gegna eða hafa gegnt eða boðið sig fram til pólitískrar stöðu, þeirra sem eru eða hafa verið framámenn í stjórnmálafélagi, stéttarfélagi, trúfélagi, baráttusamtökum alls konar, eða í efnahagslífi og þeirra sem „leika eitthvert hlutverk" á slíkum sviðum, hvað sem það nú er, þeirra sem eru áberandi í menningarlífinu, svo og þeirra sem gætu á einhvern hátt „ógnað röð og reglu", án þess að það sé skilgreint nákvæmar. Þetta er þó ekki allt og sumt, heldur á spjaldskráin einnig að ná til allra þeirra sem þessir menn kunna að umgangast. Á henni getur því hver og einn lent, eina skilyrðið er að hafa náð aldurstakmarkinu, og það er sett við þrettán ára aldur. Þær upplýsingar sem á að skrásetja á spjaldskránni eru einnig fjölbreyttar, fyrir utan allt það sem stendur á manntalsskýrslum og blöðum skattstofunnar á að tíunda þar líkamleg séreinkenni manna, kannske stór nef eða löng eyru, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, „heimspekiskoðanir" (væntanlega ef menn eru umhverfisverndarsinnar, friðarsinnar og slíkt), en einnig sitthvað sem varðar heilsufar manna (sýking af eyðni hefur einkum verið nefnd), svo og smekkur manna í ástamálum. Þetta síðasta atriði er ekki alveg ljóst, en alla vega á að skrásetja það ef menn skyldu vera argir. Af sjálfu sér leiðir að þessar upplýsingar á ekki aðeins að skrá um þá menn sem lenda á spjaldskránni fyrir eigin atbeina, ef svo má segja, heldur einnig um þá sem lenda þar einungis af því að þeir eru í návígi við slíka menn. Það fylgir með að almenningur hefur engan aðgang að þessari spjaldskrá, enginn getur t.d. fengið að sjá það sem þar er skrásett um hann sjálfan og leiðrétt það sem þar kunni að vera rangt með farið. Engum upplýsingum verður eytt, þannig að einhver óknytti sem maður hefur óvart framið þrettán ára og verið skrásett þá geta verið dregin fram áratugum síðar, þegar hann er orðinn sómamaður og sækir um háar stöður. Fljótlega eftir að fæðingarvottorð Edvige var birt í byrjun júlí (það er gömul hefð í Frakklandi að gera kunnugt um slík mál yfir hásumarið, þegar menn eru í sumarleyfi), hófust mótmæli, og þótt þau hafi farið hægt í byrjun rísa þau stöðugt hærra. Frakkar telja sig nefnilega hafa ærnar ástæður til að vara sig á spjaldskrám af þessu tagi. Fyrir utan allt annað er gömul reynsla fyrir því að upplýsingar úr þeim leki gjarna til þeirra sem ættu ekki að fá þær, atvinnurekenda og tryggingarfélaga svo eitthvað sé nefnt. Reyndar heyrðist ekki mikið í stjórnarandstöðunni, því ábyrgir vinstri menn eru nú jafnan hræddir við að fá á sig það orð að þeir séu linir í baráttunni gegn glæpum og hryðjuverkum - en sú barátta er að sjálfsögðu réttlætingin fyrir Edvige. En ein sjö hundruð félagssamtök mótmæltu og það fóru af stað undirskriftalistar, sem um hundrað og þrjátíu þúsund manns höfðu skrifað undir nú fyrir skömmu - þótt skopteiknarar blaða teldu lítinn vafa á að þeir sem letruðu nöfn sín á slíkum stað færu beint á spjaldskrána með athugasemd sem boðaði ekkert gott: „Er á móti Edvige." En hætt er við að róðurinn verði þungur því mótmælin eru jafnan veik en tölvurnar reiðubúnar og ekki annars að vænta en þær verði teknar í gagnið, hvað sem hver tautar og raular. Og svo á Edvige nú þegar enn stærri systur, hún heitir „Cristina" og er spjaldskrá varðandi „hryðjuverkastarfsemi". En um hana er ekki talað, hún er hernaðarleyndarmál.
Fyrirtæki sem stundar stórfelld mannréttindabrot í Palestínu haslar sér völl á Íslandi Hjálmar Heiðdal Skoðun
Fyrirtæki sem stundar stórfelld mannréttindabrot í Palestínu haslar sér völl á Íslandi Hjálmar Heiðdal Skoðun