Þeir klárustu klikkuðu Jón Kaldal skrifar 2. júní 2009 06:00 Víðar en á Íslandi þykir snerpa stjórnmálamanna hafa mátt vera meiri í aðdraganda og kjölfar hruns fjármálamarkaða. Þetta sjónarmið kemur til dæmis fram í merkilegri forsíðugrein júníheftis timaritsins The New York Review of Books. Greinin er endurrit af pallboðsumræðum nokkurra helstu þungavigtarmanna heims á sviði hagsögu, hagfræði og viðskipta, þar á meðal Nialls Ferguson, Pauls Krugman, George Soros og Nouriels Roubini. Þessir miklu kappar eru í stórum dráttum sammála um að hæg viðbrögð bandarísku stjórnmálastéttarinnar hafi orðið til að auka vandann. „Áföllin voru svo umfangsmikil og pólitíska ferlið svo silalegt að erfiðleikarnir hafa verið mun meiri en reiknað var með," var dómur Pauls Krugman, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, í umræðunum sem fóru fram í New York. Þessi gagnrýni á stjórnmálamenn bergmálar víða um heim. Hún er á vissan hátt ósanngjörn. Fjármálageirinn var víðar en hér á Íslandi búinn að soga til sín lungann af gáfaðasta og hæfasta fólkinu. Bankarnir og fjárfestingarfélögin létu sér ekki nægja dúxana úr viðskiptafræðideildunum, heldur kræktu líka í þá úr lögfræði, verkfræði, stærðfræði og víðar. Það var þessi hópur sem varðaði veginn. Lengi vel virtist hann liggja til dýrðar en endaði svo fram af bjargbrúninni. Þeir klárustu klikkuðu. Ráðaleysi stjórnmálamannanna, þegar jörðinni var kippt undan þeim, var rökrétt afleiðing af því umhverfi sem þeir voru búnir að skapa. Þeir voru á vissan hátt búnir að afsala sér stjórnartaumunum til manna, sem reyndust þegar upp var staðið ekki eins klárir og talið var. Kjósendur þurfa að líta í eigin barm eftir skýringum á því af hverju svo var komið. Hver þjóð fær þá stjórnmálamenn og í framhaldinu þá samfélagsgerð, sem hún á skilið. George Soros, einn frægasti spákaupmaður allra tíma, sagðist í pallborðsumræðunum í New York vonast til að nú þegar hið frjálsa fall væri að baki og hrunið gengið yfir, væri hægt að vonast til að hin pólitíska stefnumörkun gæti náð atburðarásinni, í stað þess að vera alltaf að baki henni. Völdin eru sem sagt komin kirfilega til stjórnmálamannanna og af meiri þyngd en hefur þekkst í áratugi. Viðfangsefnin eru mörg og flest af sama meiði í þeim hagkerfum þar sem vöxtur undanfarinna ára byggði á offramboði á lánsfé og skuldsetningu. Sá vöxtur gekk allur til baka. Í New York veltu menn fyrir sér hvernig væri hægt að halda fram veginn og vaxa á sjálfbærari hátt. Hér á Íslandi stöndum við frammi fyrir sömu spurningu. Við þurfum líka að velta fyrir okkur hvernig þeim fyrirtækjum sem eru komin í eigu ríkisins verður komið aftur í einkaeigu. Ein leið er að skrá þau sem fyrst á markað, með allri þeirri upplýsingakvöð og gegnsæi sem fylgir slíkri skráningu. Það er stjórnmálamannanna að greiða úr þessum flækjum og reisa nýja vegvísa. Ríkisstjórn landsins boðar skynsama stefnu um breitt samráð við þá vinnu. Nú er meira en mánuður liðinn frá kosningum og fjórir frá því að stjórnin tók við völdunum. Forystan verður að vera sköruglegri. Kjósendur hafa aðrar væntingar til stjórnmálamanna heldur en fyrir hrun. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Borgum rétta vexti - Landsbankinn verði banki allra landsmanna Baldur Borgþórsson Skoðun Skuggaspil valdsins Anna Kristín Jensdóttir Skoðun Skólaforðun: Rangnefni sem þarfnast nýrrar nálgunar Rakel Norðfjörð Vilhjálmsdóttir Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Hvernig gerðist þetta? Tryggvi Hjaltason Skoðun Stórsigur fyrir lífeyrisþega Guðmundur Ingi Kristinsson Skoðun Gleymdu leikskólabörnin Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir Skoðun Niðurgreiðum raforku til grænmetisræktar Eyjólfur Ármannsson Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun
Víðar en á Íslandi þykir snerpa stjórnmálamanna hafa mátt vera meiri í aðdraganda og kjölfar hruns fjármálamarkaða. Þetta sjónarmið kemur til dæmis fram í merkilegri forsíðugrein júníheftis timaritsins The New York Review of Books. Greinin er endurrit af pallboðsumræðum nokkurra helstu þungavigtarmanna heims á sviði hagsögu, hagfræði og viðskipta, þar á meðal Nialls Ferguson, Pauls Krugman, George Soros og Nouriels Roubini. Þessir miklu kappar eru í stórum dráttum sammála um að hæg viðbrögð bandarísku stjórnmálastéttarinnar hafi orðið til að auka vandann. „Áföllin voru svo umfangsmikil og pólitíska ferlið svo silalegt að erfiðleikarnir hafa verið mun meiri en reiknað var með," var dómur Pauls Krugman, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, í umræðunum sem fóru fram í New York. Þessi gagnrýni á stjórnmálamenn bergmálar víða um heim. Hún er á vissan hátt ósanngjörn. Fjármálageirinn var víðar en hér á Íslandi búinn að soga til sín lungann af gáfaðasta og hæfasta fólkinu. Bankarnir og fjárfestingarfélögin létu sér ekki nægja dúxana úr viðskiptafræðideildunum, heldur kræktu líka í þá úr lögfræði, verkfræði, stærðfræði og víðar. Það var þessi hópur sem varðaði veginn. Lengi vel virtist hann liggja til dýrðar en endaði svo fram af bjargbrúninni. Þeir klárustu klikkuðu. Ráðaleysi stjórnmálamannanna, þegar jörðinni var kippt undan þeim, var rökrétt afleiðing af því umhverfi sem þeir voru búnir að skapa. Þeir voru á vissan hátt búnir að afsala sér stjórnartaumunum til manna, sem reyndust þegar upp var staðið ekki eins klárir og talið var. Kjósendur þurfa að líta í eigin barm eftir skýringum á því af hverju svo var komið. Hver þjóð fær þá stjórnmálamenn og í framhaldinu þá samfélagsgerð, sem hún á skilið. George Soros, einn frægasti spákaupmaður allra tíma, sagðist í pallborðsumræðunum í New York vonast til að nú þegar hið frjálsa fall væri að baki og hrunið gengið yfir, væri hægt að vonast til að hin pólitíska stefnumörkun gæti náð atburðarásinni, í stað þess að vera alltaf að baki henni. Völdin eru sem sagt komin kirfilega til stjórnmálamannanna og af meiri þyngd en hefur þekkst í áratugi. Viðfangsefnin eru mörg og flest af sama meiði í þeim hagkerfum þar sem vöxtur undanfarinna ára byggði á offramboði á lánsfé og skuldsetningu. Sá vöxtur gekk allur til baka. Í New York veltu menn fyrir sér hvernig væri hægt að halda fram veginn og vaxa á sjálfbærari hátt. Hér á Íslandi stöndum við frammi fyrir sömu spurningu. Við þurfum líka að velta fyrir okkur hvernig þeim fyrirtækjum sem eru komin í eigu ríkisins verður komið aftur í einkaeigu. Ein leið er að skrá þau sem fyrst á markað, með allri þeirri upplýsingakvöð og gegnsæi sem fylgir slíkri skráningu. Það er stjórnmálamannanna að greiða úr þessum flækjum og reisa nýja vegvísa. Ríkisstjórn landsins boðar skynsama stefnu um breitt samráð við þá vinnu. Nú er meira en mánuður liðinn frá kosningum og fjórir frá því að stjórnin tók við völdunum. Forystan verður að vera sköruglegri. Kjósendur hafa aðrar væntingar til stjórnmálamanna heldur en fyrir hrun.