Ábyrgð Einar Már Jónsson skrifar 19. ágúst 2009 06:00 Svo virðist sem ýmsir velti því nú fyrir sér, svona í og með, hvort einhver raunhæf rannsókn fari fram á því hverjir kunni að vera sökudólgar í „bankahruninu svokallaða" á Íslandi (svo notað sé orðalag lögfræðinga), eða hvort einungis sé verið að syngja þjóðinni hugljúfar vögguvísur um rannsókn, meðan beðið sé eftir tækifæri til að lýsa því yfir að hvergi hafi fundist nein gögn um að nokkurt saknæmt athæfi hafi verið framið, enginn hafi í rauninni gert nokkurn skapaðan hlut af sér nema Jón Jónsson verkamaður sem tók sér lán til að kaupa flatskjá og gat ekki borgað það. Þetta kemur væntanlega í ljós á sínum tíma, en meðan beðið er eftir því er kannske ekki úr vegi að velta fyrir sér annars konar ábyrgð í þessu máli, þeirri siðferðilegu ábyrgð sem menn bera gagnvart almenningi nú og gagnvart dómstól sögunnar síðar meir og er mun víðtækari en sú ábyrgð ein sem getur útvegað mönnum örugga vist bak við lás og slá. Ef gengið er út frá því, sem menn virðast yfirleitt hafa verið sammála um frá því að bankar fóru fyrst að velta fyrir einu ári, að rætur kreppunnar liggi í þeirri frjálshyggju sem hafði verið nánast einráð á Vesturlöndum um langt skeið, má segja að ábyrgðin skiptist í þrennt, á henni séu þrjú stig sem varða þrjá mismunandi hópa manna. Þessi stig eru frábrugðin, en þau eiga öll sinn þátt í kreppunni, ef eitthvert þeirra hefði vantað hefði aldrei orðið nein kreppa, neitt hrun. Fyrsta stig ábyrgðarinnar liggur hjá hugmyndasmiðum frjálshyggjunnar, þeim sem settu fram kenningarnar um „væðingarnar", einkavæðingu alls sem nöfnum tjáir að nefna, frelsisvæðingu sem stefndi að því að afnema reglur og eftirlit og þar fram eftir götunum, og boðuðu jafnframt krossferð gegn því sem þeir kölluðu „forræðishyggju", sem sé gegn velferðarkerfinu sem þá var við lýði. Þessir menn létu ekki við það sitja að smíða kenningarnar heldur tóku þeir sér fyrir hendur að reka áróður fyrir þeim með aðstoð alls kyns stofnana og þankatanka, en ef engir aðrir hefðu komið til sögunnar hefðu þeir verið skaðlausir með öllu, líkt og veirur sem eru óvirkar. Þeir hefðu verið eins og hverjir aðrir þeir rugludallar sem stundum er hægt að rekast á í hinum akademísku undirheimum, ef vel er leitað. Þá kom nefnilega til sögunnar annað stig ábyrgðarinnar, en það liggur hjá þeim stjórnmálamönnum sem beittu sér fyrir því að hrinda kenningum hugmyndasmiðanna í framkvæmd. Einir sér hefðu þeir ekki fengið neinu áorkað, hvað svo sem þeir hefðu viljað gera; menn geta reynt að ímynda sér hvað gerst hefði ef þeir hefðu ætlað að einkavinavæða banka og annað upp úr þurru í því andrúmslofti sem ríkti fyrir fáum áratugum og afnema um leið það aðhald sem alls kyns lög og reglur veittu. Til að geta fari út á þá braut þurftu þeir kenningar frjálshyggjunnar og linnulausan áróður kenningasmiðanna. Sú spurning sem stundum hefur verið á dagskrá við slíkar aðstæður, sem sé hvort þeir hafi ekki rangfært og afskræmt kenningarnar um leið, hvort framkvæmdin hafi ekki verið með allt öðrum hætti en kenningasmiðirnir vildu, er hér út í hött: ekki verður annað séð en stjórnmálamennirnir hafi farið í einu og öllu eftir kenningunum. En þeir bera sjálfir ábyrgð á að hafa farið inn á þá braut, enginn þvingaði þá til þess, síst af öllu kenningasmiðirnir sem höfðu ekkert bolmagn til slíks. Þriðja stig ábyrgðarinnar liggur svo hjá þeim bröskurum, hvort sem menn vilja kalla þá ólígarka eða mógúla, sem gengu á lagið í „væðingunum", þegar ekki voru lengur nein „höft", neitt aðhald, létu greipar sópa um allt það sem nú var ofurselt þeirra eigin græðgi, og sólunduðu því að því er virðist í fjármálafyllirí og flottræfilshátt, ef þeir komu því þá ekki undan í einhverja skattaparadísina. Þetta þriðja stig lá í hlutarins eðli: ef menn afnema lög sem banna þjófnað er naumast tiltökumál þótt einhverjir fari að stela. En við það bættist annað: kenningarnar hvöttu þá beinlínis til þess, þær héldu því fram, þvert ofan í alla skynsemi, að með því að skirrast einskis við að mata sinn krók væru þessir menn í rauninni að vinna að almenningsheill. Því er alrangt að halda því fram að „stefnan hafi verið góð en mennirnir hafi brugðist". Og þá vaknar sú spurning hvort ekki hafi verið eitthvert fjórða stig, stig þeirra manna sem trúðu fagurgala frjálshyggjunnar og fóru að taka lán á lán ofan, kannske til þess eins að fjármagna kaup á tryllitækjum með mannhæðarháum hjólum. En hún er af öðru tagi. Reynsla Íslendinga sýnir að frjálshyggjan gat verið nokkurs konar vímugjafi eða ofskynjunarlyf, og ábyrgð manna sem eru á valdi slíks er heimspekilegt vandamál sem ég ætla ekki að ræða hér. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Borgum rétta vexti - Landsbankinn verði banki allra landsmanna Baldur Borgþórsson Skoðun Skuggaspil valdsins Anna Kristín Jensdóttir Skoðun Skólaforðun: Rangnefni sem þarfnast nýrrar nálgunar Rakel Norðfjörð Vilhjálmsdóttir Skoðun Stórsigur fyrir lífeyrisþega Guðmundur Ingi Kristinsson Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Hvernig gerðist þetta? Tryggvi Hjaltason Skoðun Niðurgreiðum raforku til grænmetisræktar Eyjólfur Ármannsson Skoðun Gleymdu leikskólabörnin Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun
Svo virðist sem ýmsir velti því nú fyrir sér, svona í og með, hvort einhver raunhæf rannsókn fari fram á því hverjir kunni að vera sökudólgar í „bankahruninu svokallaða" á Íslandi (svo notað sé orðalag lögfræðinga), eða hvort einungis sé verið að syngja þjóðinni hugljúfar vögguvísur um rannsókn, meðan beðið sé eftir tækifæri til að lýsa því yfir að hvergi hafi fundist nein gögn um að nokkurt saknæmt athæfi hafi verið framið, enginn hafi í rauninni gert nokkurn skapaðan hlut af sér nema Jón Jónsson verkamaður sem tók sér lán til að kaupa flatskjá og gat ekki borgað það. Þetta kemur væntanlega í ljós á sínum tíma, en meðan beðið er eftir því er kannske ekki úr vegi að velta fyrir sér annars konar ábyrgð í þessu máli, þeirri siðferðilegu ábyrgð sem menn bera gagnvart almenningi nú og gagnvart dómstól sögunnar síðar meir og er mun víðtækari en sú ábyrgð ein sem getur útvegað mönnum örugga vist bak við lás og slá. Ef gengið er út frá því, sem menn virðast yfirleitt hafa verið sammála um frá því að bankar fóru fyrst að velta fyrir einu ári, að rætur kreppunnar liggi í þeirri frjálshyggju sem hafði verið nánast einráð á Vesturlöndum um langt skeið, má segja að ábyrgðin skiptist í þrennt, á henni séu þrjú stig sem varða þrjá mismunandi hópa manna. Þessi stig eru frábrugðin, en þau eiga öll sinn þátt í kreppunni, ef eitthvert þeirra hefði vantað hefði aldrei orðið nein kreppa, neitt hrun. Fyrsta stig ábyrgðarinnar liggur hjá hugmyndasmiðum frjálshyggjunnar, þeim sem settu fram kenningarnar um „væðingarnar", einkavæðingu alls sem nöfnum tjáir að nefna, frelsisvæðingu sem stefndi að því að afnema reglur og eftirlit og þar fram eftir götunum, og boðuðu jafnframt krossferð gegn því sem þeir kölluðu „forræðishyggju", sem sé gegn velferðarkerfinu sem þá var við lýði. Þessir menn létu ekki við það sitja að smíða kenningarnar heldur tóku þeir sér fyrir hendur að reka áróður fyrir þeim með aðstoð alls kyns stofnana og þankatanka, en ef engir aðrir hefðu komið til sögunnar hefðu þeir verið skaðlausir með öllu, líkt og veirur sem eru óvirkar. Þeir hefðu verið eins og hverjir aðrir þeir rugludallar sem stundum er hægt að rekast á í hinum akademísku undirheimum, ef vel er leitað. Þá kom nefnilega til sögunnar annað stig ábyrgðarinnar, en það liggur hjá þeim stjórnmálamönnum sem beittu sér fyrir því að hrinda kenningum hugmyndasmiðanna í framkvæmd. Einir sér hefðu þeir ekki fengið neinu áorkað, hvað svo sem þeir hefðu viljað gera; menn geta reynt að ímynda sér hvað gerst hefði ef þeir hefðu ætlað að einkavinavæða banka og annað upp úr þurru í því andrúmslofti sem ríkti fyrir fáum áratugum og afnema um leið það aðhald sem alls kyns lög og reglur veittu. Til að geta fari út á þá braut þurftu þeir kenningar frjálshyggjunnar og linnulausan áróður kenningasmiðanna. Sú spurning sem stundum hefur verið á dagskrá við slíkar aðstæður, sem sé hvort þeir hafi ekki rangfært og afskræmt kenningarnar um leið, hvort framkvæmdin hafi ekki verið með allt öðrum hætti en kenningasmiðirnir vildu, er hér út í hött: ekki verður annað séð en stjórnmálamennirnir hafi farið í einu og öllu eftir kenningunum. En þeir bera sjálfir ábyrgð á að hafa farið inn á þá braut, enginn þvingaði þá til þess, síst af öllu kenningasmiðirnir sem höfðu ekkert bolmagn til slíks. Þriðja stig ábyrgðarinnar liggur svo hjá þeim bröskurum, hvort sem menn vilja kalla þá ólígarka eða mógúla, sem gengu á lagið í „væðingunum", þegar ekki voru lengur nein „höft", neitt aðhald, létu greipar sópa um allt það sem nú var ofurselt þeirra eigin græðgi, og sólunduðu því að því er virðist í fjármálafyllirí og flottræfilshátt, ef þeir komu því þá ekki undan í einhverja skattaparadísina. Þetta þriðja stig lá í hlutarins eðli: ef menn afnema lög sem banna þjófnað er naumast tiltökumál þótt einhverjir fari að stela. En við það bættist annað: kenningarnar hvöttu þá beinlínis til þess, þær héldu því fram, þvert ofan í alla skynsemi, að með því að skirrast einskis við að mata sinn krók væru þessir menn í rauninni að vinna að almenningsheill. Því er alrangt að halda því fram að „stefnan hafi verið góð en mennirnir hafi brugðist". Og þá vaknar sú spurning hvort ekki hafi verið eitthvert fjórða stig, stig þeirra manna sem trúðu fagurgala frjálshyggjunnar og fóru að taka lán á lán ofan, kannske til þess eins að fjármagna kaup á tryllitækjum með mannhæðarháum hjólum. En hún er af öðru tagi. Reynsla Íslendinga sýnir að frjálshyggjan gat verið nokkurs konar vímugjafi eða ofskynjunarlyf, og ábyrgð manna sem eru á valdi slíks er heimspekilegt vandamál sem ég ætla ekki að ræða hér.