Hriflupólitík eða málefnapólitík? Þorsteinn Pálsson skrifar 12. desember 2009 06:00 Í Guðsgjafaþulu segir frá því að Íslandsbersa þótti unun að því að hlusta á öndvegismenn íslenskrar endurreisnar ræða um samskipti við ríkisstjórnina, svipað og menn tala um smalatíkina sína. Á þessari öld hefur pólitískum skylmingum svipað mjög til þeirrar tíðar í stjórnmálasögu síðustu aldar sem öðru fremur var kennd við bæinn Hriflu í Bárðardal. Síðustu vikur hefur persónulegt hnútukast hinnar gömlu Hriflungatíðar færst mjög í aukana. Með vissum hætti má segja að það sé eins og að fara gegn straumnum að leggja gott orð til ríkisstjórnarinnar. Sannleikurinn er þó sá að sumar ákvarðanir hennar bera bæði vott um skynsemi og ábyrgð þó að verulega skorti á í öðrum tilvikum. Það bar til að mynda vott um ábyrgð þegar ríkisstjórnin ákvað að byggja á samstarfsáætluninnni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fyrri ríkisstjórn hafði gert. Eitt mikilvægasta viðfangsefnið sem sú áætlun mælir fyrir um er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Niðurskurðaráformin í fjárlagafrumvarpinu eru í samræmi við markmiðin. Afgreiðsla fjárlaganna mun síðan sýna hversu raunhæf framkvæmdin er. Þar byrja vandamálin. Umræður um útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins benda til þess að verulega skorti á að aðhaldsáformin séu nægjanlega markviss. Í allt of litlum mæli búa þar að baki ákvarðanir um skipulagsbreytingar og nýjar skilgreiningar á þjónustustigi. Hringlandinn varðandi sparnað í fæðingarorlofsútgjöldum leiddi í ljós að einstaka ráðherrar virðast halda að aðhaldsaðgerðirnar séu tímabundnar og ári fyrir kosningar verði unnt að auka útgjöldin á ný eins og ekkert hafi í skorist. Veruleikinn er hins vegar sá að hér er um varanlegt ástand að ræða. Þjónusta ríkisins verður ekki bætt á ný fyrr en hagvöxtur eykst. Ríkisstjórnin þarf því með meira sannfærandi hætti en fram til þessa að sýna fram á að aðhaldsáformin muni standa. Stríð eða friður?Deila má um hlutföllin milli niðurskurðar og nýrrar tekjuöflunar. Það er hins vegar rétt mat hjá ríkisstjórninni að ekki er unnt að komast hjá tekjuöflunaraðgerðum. Aðferðin sem ríkisstjórnin hefur valið til þess að auka tekjurnar er á hinn bóginn bæði vanhugsuð og illa undirbúin.Þegar skattkerfisbreytingin var ákveðin vorið 1987 náðist um hana breið samstaða bæði á Alþingi og meðal samtaka launafólks og atvinnulífs. Það skattkerfi sem þá var hannað þjónaði að því leyti betur norrænum velferðarsjónarmiðum en skattkerfi hinna Norðurlandaríkjanna að það leysti mun stærri hóp lágtekjufólks með öllu frá skattgreiðslum til ríkisins.Auðvelt hefði verið að auka skatttekjur og verja þá lægstlaunuðu með tiltölulega einföldum breytingum á þessu kerfi. Þess í stað á að eyðileggja kerfið og taka hér upp flókið og ógagnsætt skattkerfi. Fyrrverandi ríkisskattstjóri hefur réttilega bent á að undirbúningstími til slíkra grundvallarbreytinga sé ónógur. Hann hefur enn fremur leitt rök að því að flóknara og ógagnsærra kerfi leiði til meiri skattundanskota og kalli þar af leiðandi á meiri skattahækkanir á heiðarlegt fólk í framhaldinu.Er ekki skynsamlegt að hugsa málið betur? Enginn tími mun gefast til almennrar pólitískrar umræðu um þá kerfiskúvendingu sem áformuð er. Annar stjórnarandstöðuflokkanna hefur teflt fram ábyrgum hugmyndum sem leyst geta þann bráða vanda sem ríkissjóður stendur andspænis að því er tekur til tekjuöflunar.Hvers vegna tekur ríkisstjórnin ekki tilboði um samstarf á Alþingi um slíka lausn? Á nýju ári má svo dýpka það samstarf og leiða í ljós hvort ekki er unnt að ná breiðri samstöðu um framtíðarskipan skattkerfisins í landinu í stað þess stríðs sem í uppsiglingu er.Almenningur skilur stöðu þjóðarbúsins á þann veg að aldrei hafi verið meiri þörf á samstöðu en nú. Hvers vegna má ekki lyfta bæði umræðum og vinnulagi upp á hærra plan? Hörð persónuleg og ómálefnaleg átök Hriflustjórnmálanna leiddu á þeirri tíð til lengri kreppu á Íslandi en annars staðar. Er þörf á að endurtaka þau mistök? Hreyfiafl hagvaxtar Kreppunni 1967 var mætt með stóriðju, inngöngu Íslands í EFTA og útfærslu landhelginnar. Með markvissri alhliða sókn af því tagi fékkst viðspyrna sem leiddi til skjótra umskipta. Því miður átti talsverður hluti hagvaxtarins næsta áratug rætur að rekja til þess að við kusum að halda áfram þeirri rányrkju sem útlendingar höfðu áður stundað.Sú óvarfærni kom okkur í koll síðar. Hana má því ekki endurtaka. Sannleikurinn er sá að sjávarútvegurinn verður ekki uppspretta hagvaxtar á komandi árum þó að hann sé á ný orðinn undirstaða í þjóðarbúskapnum. Því fremur er þörf á framtíðarsýn og hreyfiafli til að sækja megi fram, bæta samkeppnishæfni og auka hagvöxt.Við blasa tækifæri í orkunýtingu og möguleikar á að tengjast alþjóðlegri samvinnu sem fært getur atvinnufyrirtækjunum og launafólki samkeppnishæfa mynt og styrkt nýsköpun. Hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstaðan hefur sýnt markvissa og heildstæða forystu á þessu sviði. Er ekki þörf á að leita víðtækari samstöðu þar um? Tilraun í þá veru er líklegri til að lyfta Íslandi en endurlífgun þess anda er spratt úr móum Hriflustjórnmálanna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Skólaforðun: Rangnefni sem þarfnast nýrrar nálgunar Rakel Norðfjörð Vilhjálmsdóttir Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Hvernig gerðist þetta? Tryggvi Hjaltason Skoðun Gleymdu leikskólabörnin Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir Skoðun Hugsjónir ójafnaðarmanns - svar við bréfi Kára Snorri Másson Skoðun Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Viðreisn er Samfylkingin Júlíus Viggó Ólafsson Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Í Guðsgjafaþulu segir frá því að Íslandsbersa þótti unun að því að hlusta á öndvegismenn íslenskrar endurreisnar ræða um samskipti við ríkisstjórnina, svipað og menn tala um smalatíkina sína. Á þessari öld hefur pólitískum skylmingum svipað mjög til þeirrar tíðar í stjórnmálasögu síðustu aldar sem öðru fremur var kennd við bæinn Hriflu í Bárðardal. Síðustu vikur hefur persónulegt hnútukast hinnar gömlu Hriflungatíðar færst mjög í aukana. Með vissum hætti má segja að það sé eins og að fara gegn straumnum að leggja gott orð til ríkisstjórnarinnar. Sannleikurinn er þó sá að sumar ákvarðanir hennar bera bæði vott um skynsemi og ábyrgð þó að verulega skorti á í öðrum tilvikum. Það bar til að mynda vott um ábyrgð þegar ríkisstjórnin ákvað að byggja á samstarfsáætluninnni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fyrri ríkisstjórn hafði gert. Eitt mikilvægasta viðfangsefnið sem sú áætlun mælir fyrir um er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Niðurskurðaráformin í fjárlagafrumvarpinu eru í samræmi við markmiðin. Afgreiðsla fjárlaganna mun síðan sýna hversu raunhæf framkvæmdin er. Þar byrja vandamálin. Umræður um útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins benda til þess að verulega skorti á að aðhaldsáformin séu nægjanlega markviss. Í allt of litlum mæli búa þar að baki ákvarðanir um skipulagsbreytingar og nýjar skilgreiningar á þjónustustigi. Hringlandinn varðandi sparnað í fæðingarorlofsútgjöldum leiddi í ljós að einstaka ráðherrar virðast halda að aðhaldsaðgerðirnar séu tímabundnar og ári fyrir kosningar verði unnt að auka útgjöldin á ný eins og ekkert hafi í skorist. Veruleikinn er hins vegar sá að hér er um varanlegt ástand að ræða. Þjónusta ríkisins verður ekki bætt á ný fyrr en hagvöxtur eykst. Ríkisstjórnin þarf því með meira sannfærandi hætti en fram til þessa að sýna fram á að aðhaldsáformin muni standa. Stríð eða friður?Deila má um hlutföllin milli niðurskurðar og nýrrar tekjuöflunar. Það er hins vegar rétt mat hjá ríkisstjórninni að ekki er unnt að komast hjá tekjuöflunaraðgerðum. Aðferðin sem ríkisstjórnin hefur valið til þess að auka tekjurnar er á hinn bóginn bæði vanhugsuð og illa undirbúin.Þegar skattkerfisbreytingin var ákveðin vorið 1987 náðist um hana breið samstaða bæði á Alþingi og meðal samtaka launafólks og atvinnulífs. Það skattkerfi sem þá var hannað þjónaði að því leyti betur norrænum velferðarsjónarmiðum en skattkerfi hinna Norðurlandaríkjanna að það leysti mun stærri hóp lágtekjufólks með öllu frá skattgreiðslum til ríkisins.Auðvelt hefði verið að auka skatttekjur og verja þá lægstlaunuðu með tiltölulega einföldum breytingum á þessu kerfi. Þess í stað á að eyðileggja kerfið og taka hér upp flókið og ógagnsætt skattkerfi. Fyrrverandi ríkisskattstjóri hefur réttilega bent á að undirbúningstími til slíkra grundvallarbreytinga sé ónógur. Hann hefur enn fremur leitt rök að því að flóknara og ógagnsærra kerfi leiði til meiri skattundanskota og kalli þar af leiðandi á meiri skattahækkanir á heiðarlegt fólk í framhaldinu.Er ekki skynsamlegt að hugsa málið betur? Enginn tími mun gefast til almennrar pólitískrar umræðu um þá kerfiskúvendingu sem áformuð er. Annar stjórnarandstöðuflokkanna hefur teflt fram ábyrgum hugmyndum sem leyst geta þann bráða vanda sem ríkissjóður stendur andspænis að því er tekur til tekjuöflunar.Hvers vegna tekur ríkisstjórnin ekki tilboði um samstarf á Alþingi um slíka lausn? Á nýju ári má svo dýpka það samstarf og leiða í ljós hvort ekki er unnt að ná breiðri samstöðu um framtíðarskipan skattkerfisins í landinu í stað þess stríðs sem í uppsiglingu er.Almenningur skilur stöðu þjóðarbúsins á þann veg að aldrei hafi verið meiri þörf á samstöðu en nú. Hvers vegna má ekki lyfta bæði umræðum og vinnulagi upp á hærra plan? Hörð persónuleg og ómálefnaleg átök Hriflustjórnmálanna leiddu á þeirri tíð til lengri kreppu á Íslandi en annars staðar. Er þörf á að endurtaka þau mistök? Hreyfiafl hagvaxtar Kreppunni 1967 var mætt með stóriðju, inngöngu Íslands í EFTA og útfærslu landhelginnar. Með markvissri alhliða sókn af því tagi fékkst viðspyrna sem leiddi til skjótra umskipta. Því miður átti talsverður hluti hagvaxtarins næsta áratug rætur að rekja til þess að við kusum að halda áfram þeirri rányrkju sem útlendingar höfðu áður stundað.Sú óvarfærni kom okkur í koll síðar. Hana má því ekki endurtaka. Sannleikurinn er sá að sjávarútvegurinn verður ekki uppspretta hagvaxtar á komandi árum þó að hann sé á ný orðinn undirstaða í þjóðarbúskapnum. Því fremur er þörf á framtíðarsýn og hreyfiafli til að sækja megi fram, bæta samkeppnishæfni og auka hagvöxt.Við blasa tækifæri í orkunýtingu og möguleikar á að tengjast alþjóðlegri samvinnu sem fært getur atvinnufyrirtækjunum og launafólki samkeppnishæfa mynt og styrkt nýsköpun. Hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstaðan hefur sýnt markvissa og heildstæða forystu á þessu sviði. Er ekki þörf á að leita víðtækari samstöðu þar um? Tilraun í þá veru er líklegri til að lyfta Íslandi en endurlífgun þess anda er spratt úr móum Hriflustjórnmálanna.