Nr. 3 - Peningamálasamstarf 7. ágúst 2009 06:00 Í fyrri greinum hefur verið rætt um tvö þau meginsvið þar sem mest mun reyna á samningamenn Íslands í komandi aðildarviðræðum við ESB, annars vegar að tryggja yfirráðin yfir fiskveiðilögsögunni og hins vegar að ná fram viðunandi samningi í landbúnaði og málefnum hinna dreifðu byggða Íslands. Í þessari þriðju og síðustu grein um helstu samningsmarkmið Íslands er fjallað um peningamálasamstarf. Bráðavandinn sem Ísland stendur nú frammi fyrir stafar ekki síst af veikri stöðu krónunnar sem hefur reynst ævintýralega óstöðugur gjaldmiðill. Kerfisvandinn var heimatilbúinn, við opnuðum fjármálamarkaðinn inn á 500 milljóna manna innri markað ESB en örgjaldmiðillinn okkar var áfram varinn af aðeins þrjú hundruð þúsund Íslendingum. Það er engin tilviljun að með Maastrict-sáttmálanum (1992) voru teknar tvær ákvarðanir samtímis: Annars vegar að fullklára opnun fjármálamarkaða og hins vegar að verja fjármálakerfið með sameiginlegri mynt, evrunni, og sameiginlegum seðlabanka. Flotkrónan gengur augljóslega ekki upp fyrir ríki sem starfar á innri markaði ESB og þar sem í það minnsta fjögur ár munu líða áður en við getum krækt í evruna er afar mikilvægt að ná fram einhvers konar tímabundnum bakstuðningi frá Seðlabanka Evrópu í komandi aðildarsamningum. Evrópusambandið heldur úti tilteknu aðlögunarkerfi, svokölluðu ERM II-kerfi, fyrir þau aðildarríki sem hyggjast taka upp evru í fyllingu tímans. Kerfið felur meðal annars í sér að gjaldmiðill viðkomandi ríkis er tengdur við evru á föstu gengi en fær að sveiflast um plús/mínus fimmtán prósent frá miðgildi. Því er ætlað að laga viðkomandi aðildarríki að skilyrðum og efnahagsumhverfi evrunnar. Þessi leið er samkvæmt skilgreiningu einungis ætluð aðildarríkjum ESB en í ljósi fordæmalaust slæmrar stöðu íslensks efnahagslífs geta íslensk stjórnvöld hugsanlega farið fram á það í aðildarviðræðunum að okkur verði veitt einhvers konar hraðleið inn í undirbúningskerfið. Formlega þarf það ekki endilega að vera ERM II, hugsanlega væri hægt að búa til hliðstætt kerfi fyrir Ísland, - gæti til að mynda einfaldlega heitið ERM III. Markmiðið væri í öllu falli það, að koma krónunni í skjól evrunnar sem allra fyrst og fá fram baktryggingu frá Seðlabanka Evrópu í Frankfurt. Slíkt á sér að vísu engin fordæmi í Evrópusambandinu og því þurfa samningamenn Íslands að vera einstaklega fundvísir á færar leiðir. Ef marka má fyrri stækkunarlotur munu aðildarsamningar Íslands við Evrópusambandið líkast til fara fram í 35 efnisflokkum. Ísland tekur nú þegar þátt í meirihluta þeirra í gegnum Evrópska efnahagssvæðið og Schengen-samstarfið. Í þessum greinaflokki hefur aðeins verið tæpt á þeim þremur sviðum sem mestu skipta fyrir íslenska hagsmuni. Aðildarsamningarnir í heild sinni eru hins vegar mun flóknari og viðameiri og því er eins gott að íslenska samninganefndin hafi víðtæka þekkingu á öllum mögulegum leiðum. Því hefur aldrei verið mikilvægara heldur en nú að leita eftir þekkingu og ráðum sem víðast. Í því sambandi er gott að hafa í huga að 21 ríki hefur samið um aðild að Evrópusambandinu og fyrirrennurum þess frá því það var stofnað af sex ríkjum á meginlandi Vestur-Evrópu með Parísarsáttmálanum árið 1952. Í þessum ríkjum er starfandi mikill fjöldi sérfræðinga sem kann að semja við Evrópusambandið. Í þá auðlind verður að sækja. Að minnsta kosti mun ekki duga að senda aðeins heimaalda stjórnmálamenn í þennan mikilvæga leiðangur. Höfundur er dósent í stjórnmálafræði og forstöðumaður Evrópufræðasetur Háskólans á Bifröst. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Skuggaspil valdsins Anna Kristín Jensdóttir Skoðun Skólaforðun: Rangnefni sem þarfnast nýrrar nálgunar Rakel Norðfjörð Vilhjálmsdóttir Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Hvernig gerðist þetta? Tryggvi Hjaltason Skoðun Gleymdu leikskólabörnin Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir Skoðun Hugsjónir ójafnaðarmanns - svar við bréfi Kára Snorri Másson Skoðun Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Viðreisn er Samfylkingin Júlíus Viggó Ólafsson Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun
Í fyrri greinum hefur verið rætt um tvö þau meginsvið þar sem mest mun reyna á samningamenn Íslands í komandi aðildarviðræðum við ESB, annars vegar að tryggja yfirráðin yfir fiskveiðilögsögunni og hins vegar að ná fram viðunandi samningi í landbúnaði og málefnum hinna dreifðu byggða Íslands. Í þessari þriðju og síðustu grein um helstu samningsmarkmið Íslands er fjallað um peningamálasamstarf. Bráðavandinn sem Ísland stendur nú frammi fyrir stafar ekki síst af veikri stöðu krónunnar sem hefur reynst ævintýralega óstöðugur gjaldmiðill. Kerfisvandinn var heimatilbúinn, við opnuðum fjármálamarkaðinn inn á 500 milljóna manna innri markað ESB en örgjaldmiðillinn okkar var áfram varinn af aðeins þrjú hundruð þúsund Íslendingum. Það er engin tilviljun að með Maastrict-sáttmálanum (1992) voru teknar tvær ákvarðanir samtímis: Annars vegar að fullklára opnun fjármálamarkaða og hins vegar að verja fjármálakerfið með sameiginlegri mynt, evrunni, og sameiginlegum seðlabanka. Flotkrónan gengur augljóslega ekki upp fyrir ríki sem starfar á innri markaði ESB og þar sem í það minnsta fjögur ár munu líða áður en við getum krækt í evruna er afar mikilvægt að ná fram einhvers konar tímabundnum bakstuðningi frá Seðlabanka Evrópu í komandi aðildarsamningum. Evrópusambandið heldur úti tilteknu aðlögunarkerfi, svokölluðu ERM II-kerfi, fyrir þau aðildarríki sem hyggjast taka upp evru í fyllingu tímans. Kerfið felur meðal annars í sér að gjaldmiðill viðkomandi ríkis er tengdur við evru á föstu gengi en fær að sveiflast um plús/mínus fimmtán prósent frá miðgildi. Því er ætlað að laga viðkomandi aðildarríki að skilyrðum og efnahagsumhverfi evrunnar. Þessi leið er samkvæmt skilgreiningu einungis ætluð aðildarríkjum ESB en í ljósi fordæmalaust slæmrar stöðu íslensks efnahagslífs geta íslensk stjórnvöld hugsanlega farið fram á það í aðildarviðræðunum að okkur verði veitt einhvers konar hraðleið inn í undirbúningskerfið. Formlega þarf það ekki endilega að vera ERM II, hugsanlega væri hægt að búa til hliðstætt kerfi fyrir Ísland, - gæti til að mynda einfaldlega heitið ERM III. Markmiðið væri í öllu falli það, að koma krónunni í skjól evrunnar sem allra fyrst og fá fram baktryggingu frá Seðlabanka Evrópu í Frankfurt. Slíkt á sér að vísu engin fordæmi í Evrópusambandinu og því þurfa samningamenn Íslands að vera einstaklega fundvísir á færar leiðir. Ef marka má fyrri stækkunarlotur munu aðildarsamningar Íslands við Evrópusambandið líkast til fara fram í 35 efnisflokkum. Ísland tekur nú þegar þátt í meirihluta þeirra í gegnum Evrópska efnahagssvæðið og Schengen-samstarfið. Í þessum greinaflokki hefur aðeins verið tæpt á þeim þremur sviðum sem mestu skipta fyrir íslenska hagsmuni. Aðildarsamningarnir í heild sinni eru hins vegar mun flóknari og viðameiri og því er eins gott að íslenska samninganefndin hafi víðtæka þekkingu á öllum mögulegum leiðum. Því hefur aldrei verið mikilvægara heldur en nú að leita eftir þekkingu og ráðum sem víðast. Í því sambandi er gott að hafa í huga að 21 ríki hefur samið um aðild að Evrópusambandinu og fyrirrennurum þess frá því það var stofnað af sex ríkjum á meginlandi Vestur-Evrópu með Parísarsáttmálanum árið 1952. Í þessum ríkjum er starfandi mikill fjöldi sérfræðinga sem kann að semja við Evrópusambandið. Í þá auðlind verður að sækja. Að minnsta kosti mun ekki duga að senda aðeins heimaalda stjórnmálamenn í þennan mikilvæga leiðangur. Höfundur er dósent í stjórnmálafræði og forstöðumaður Evrópufræðasetur Háskólans á Bifröst.