Hin tæra snilld Steinunn Stefánsdóttir skrifar 8. júní 2009 06:00 Tær snilld voru þau orð sem fyrrverandi bankastjóri Landsbankans notaði um Icesave-innlánsreikningana sem þá voru farnir að afla milljóna og milljarða í innlán til Landsbankans. En Adam var ekki lengi í Paradís og einungis liðu fáeinir mánuðir þar til þessi tæra snilld hafði kallað hryðjuverkalög yfir starfsemi þessa sama banka í Bretlandi. Nú blasir við að svo kann að fara að hin tæra snilld hafi verið fólgin í að taka við sparifé einstaklinga og sjóðum fyrirtækja og félagasamtaka og láta svo íslenskan almenning, og einnig breskan og hollenskan, ekki má gleyma því, um að greiða hann aftur til baka til eigenda sinna. Þegar hér er komið sögu er ekki annað hægt en að anda léttar yfir því að nú liggur fyrir samkomulag milli Íslendinga annars vegar og Breta og Hollendinga hins vegar um endurgreiðslu á sparifé þeirra sem létu glepjast af hinni tæru snilld Landsbankamanna. Það er algerlega skiljanlegt að íslenskum almenningi skuli þykja súrt í broti að þurfa að gangast í ábyrgð vegna skulda sem stofnað var til af, að því er virðist, fullkomnu ábyrgðarleysi manna sem í taumleysi sínu gengu svo langt að flytja vildarvini sína í förmum til útlanda og láta þá éta þar gull. Þessar skuldir munu, ef að líkum lætur, ekki bara hafa veruleg áhrif á lífskjör hinna vinnandi kynslóða nú, heldur setja mark sitt á kjör þeirra sem við keflinu taka á næstu áratugum. Þess vegna er almenningur reiður. Það er þó heldur hlálegt að horfa upp á andóf talsmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gegn samkomulaginu um lánið vegna Icesave-skuldanna, rétt eins og þessir flokkar hafi aldrei verið við stjórnvölinn; þegar bankarnir voru einkavæddir, þegar útrás þeirra hófst, þegar útrásin belgdist út, þegar bankarnir hrundu, þegar neyðarlögin voru sett og á fyrstu viðkvæmu dögum og vikum þar á eftir. Samkomulagið um lánið vegna Icesave-skuldanna er áfangi á leið til uppbyggingar. Hitt verður þó að liggja ljóst fyrir að á næstu árum verði allra tiltækra meðala neytt til þess að þeir sem til skuldarinnar stofnuðu greiði hana einnig til baka og með þeim hætti að lágmarka þann hlut sem lendir á herðum íslensks almennings. Í stað þess að krefjast þess að Ísland einangrist vegna deilna við nágrannaþjóðir eigum við að þrýsta á stjórnvöld okkar um að allra leiða verði leitað til þess að þeir sem ábyrgð bera á því að til skuldarinnar var stofnað beri einnig ábyrgð á því að greiða hana til baka í stað þess að varpa henni á íslenskan almenning. Auk þess er krafan skýlaus um að ef í ljós komi að farið hafi verið á svig við lög í Icesave-starfseminni verði þeir sem ábyrgð bera látnir svara til saka. Loks verður íslenskur almenningur að geta treyst því að hér verði byggt upp lagaumhverfi sem kemur í veg fyrir að saga á borð við Icesave-martröðina geti endurtekið sig. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Borgum rétta vexti - Landsbankinn verði banki allra landsmanna Baldur Borgþórsson Skoðun Skuggaspil valdsins Anna Kristín Jensdóttir Skoðun Skólaforðun: Rangnefni sem þarfnast nýrrar nálgunar Rakel Norðfjörð Vilhjálmsdóttir Skoðun Stórsigur fyrir lífeyrisþega Guðmundur Ingi Kristinsson Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Hvernig gerðist þetta? Tryggvi Hjaltason Skoðun Niðurgreiðum raforku til grænmetisræktar Eyjólfur Ármannsson Skoðun Gleymdu leikskólabörnin Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun
Tær snilld voru þau orð sem fyrrverandi bankastjóri Landsbankans notaði um Icesave-innlánsreikningana sem þá voru farnir að afla milljóna og milljarða í innlán til Landsbankans. En Adam var ekki lengi í Paradís og einungis liðu fáeinir mánuðir þar til þessi tæra snilld hafði kallað hryðjuverkalög yfir starfsemi þessa sama banka í Bretlandi. Nú blasir við að svo kann að fara að hin tæra snilld hafi verið fólgin í að taka við sparifé einstaklinga og sjóðum fyrirtækja og félagasamtaka og láta svo íslenskan almenning, og einnig breskan og hollenskan, ekki má gleyma því, um að greiða hann aftur til baka til eigenda sinna. Þegar hér er komið sögu er ekki annað hægt en að anda léttar yfir því að nú liggur fyrir samkomulag milli Íslendinga annars vegar og Breta og Hollendinga hins vegar um endurgreiðslu á sparifé þeirra sem létu glepjast af hinni tæru snilld Landsbankamanna. Það er algerlega skiljanlegt að íslenskum almenningi skuli þykja súrt í broti að þurfa að gangast í ábyrgð vegna skulda sem stofnað var til af, að því er virðist, fullkomnu ábyrgðarleysi manna sem í taumleysi sínu gengu svo langt að flytja vildarvini sína í förmum til útlanda og láta þá éta þar gull. Þessar skuldir munu, ef að líkum lætur, ekki bara hafa veruleg áhrif á lífskjör hinna vinnandi kynslóða nú, heldur setja mark sitt á kjör þeirra sem við keflinu taka á næstu áratugum. Þess vegna er almenningur reiður. Það er þó heldur hlálegt að horfa upp á andóf talsmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gegn samkomulaginu um lánið vegna Icesave-skuldanna, rétt eins og þessir flokkar hafi aldrei verið við stjórnvölinn; þegar bankarnir voru einkavæddir, þegar útrás þeirra hófst, þegar útrásin belgdist út, þegar bankarnir hrundu, þegar neyðarlögin voru sett og á fyrstu viðkvæmu dögum og vikum þar á eftir. Samkomulagið um lánið vegna Icesave-skuldanna er áfangi á leið til uppbyggingar. Hitt verður þó að liggja ljóst fyrir að á næstu árum verði allra tiltækra meðala neytt til þess að þeir sem til skuldarinnar stofnuðu greiði hana einnig til baka og með þeim hætti að lágmarka þann hlut sem lendir á herðum íslensks almennings. Í stað þess að krefjast þess að Ísland einangrist vegna deilna við nágrannaþjóðir eigum við að þrýsta á stjórnvöld okkar um að allra leiða verði leitað til þess að þeir sem ábyrgð bera á því að til skuldarinnar var stofnað beri einnig ábyrgð á því að greiða hana til baka í stað þess að varpa henni á íslenskan almenning. Auk þess er krafan skýlaus um að ef í ljós komi að farið hafi verið á svig við lög í Icesave-starfseminni verði þeir sem ábyrgð bera látnir svara til saka. Loks verður íslenskur almenningur að geta treyst því að hér verði byggt upp lagaumhverfi sem kemur í veg fyrir að saga á borð við Icesave-martröðina geti endurtekið sig.