Lífið

Íslandsvinur látinn

Haukur Viðar úr Morðingjunum segir fráfall Peters Steele áfall fyrir drungarokksheiminn. Steele var af íslenskum ættum.
Haukur Viðar úr Morðingjunum segir fráfall Peters Steele áfall fyrir drungarokksheiminn. Steele var af íslenskum ættum.

Söngvarinn Peter Steele lést á miðvikudag. Hann var af íslenskum ættum. Haukur Viðar Alfreðsson, rokkspekingur og meðlimur Morðingjanna, hefur lengi fylgst með Steele.

„Þetta eru alveg ömurlegar fréttir," segir Haukur Viðar Alfreðsson, söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Morðingjanna.

Peter Steele úr hljómsveitinni Type-O-Negative lést á miðvikudag. Dánarorsök er talin vera hjartabilun, en hann var 48 ára gamall. Steele átti rússneskan föður, en móðir hans var af íslenskum ættum. Steele kom oft til Íslands og lét hafa eftir sér í viðtali að hann dreymdi um að setjast að á landinu og byggja sér hús í skógi.

Haukur Viðar er ekki mikill aðdáandi Type-O-Negative, þó að hann hafi ávallt haft gaman af Steele. „Þetta er gaur sem ég hafði meira gaman af sem týpu heldur en tónlistinni hans," segir Haukur. „Mér þótti vænt um hann, en Type-O-Negative er ekkert rosalega öflugt band. Ég hef samt alltaf gefið þeim séns í gegnum tíðina."

Spurður hvort fráfall Steeles sé mikið áfall fyrir þungarokksheiminn svarar Haukur að bragði:

„Ég held að þetta sé miklu meira áfall fyrir drungarokksheiminn."

Haukur á eiginhandaráritun Steeles sem félagi hans fékk á Íslandi, hvar annars staðar? „Kunningi minn rakst á hann í Kringlunni - fyrir utan Hard Rock að ég held. Þetta hefur verið í kringum 2000," segir Haukur.

„Hann gaf mér hana í afmælisgjöf. Ég verð að finna hana. Ég veit ekki alveg hvar hún er."

[email protected]








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.