Viðskipti innlent

Ríkið tók of háar skuldir banka yfir

[email protected] skrifar
Lilja hefði viljað sjá í mesta lagi einn ríkisbanka og sparisjóðakerfi til hliðar.
Lilja hefði viljað sjá í mesta lagi einn ríkisbanka og sparisjóðakerfi til hliðar. samsett mynd/kristinn

Formaður viðskiptanefndar segir fullyrðingu AGS um of marga banka sýna að ríkið hafi tekið of háar skuldir yfir með bönkunum. Eignasafnið hafi verið á allt of háu verði. Hagfræðiprófessor segir að bönkunum muni fækka.

Ríkið var í lélegri samningsstöðu gagnvart kröfuhöfum og tók eignasafn bankanna yfir á allt of háu verði. Þetta segir Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar. Hún segir fullyrðingu Marks Flanagan hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) um of marga banka á Íslandi sýna þetta.

Inn í þetta hafi spilað að samninganefnd ríkisins virðist ekki hafa verið með lögfræðiálit um lögmæti gengislánanna, en það hefði styrkt samninga við kröfuhafana. Endurreisn bankakerfisins hafi dregist úr hófi fram og of margir bankar séu starfandi.

„Ef ríkið hefði verið í góðri samningsstöðu hefði það getað valið úr hvaða eignasöfn það keypti og sett í einn banka. Ég hefði viljað sjá hér í mesta lagi einn ríkisbanka og svo sparisjóðakerfi. Einkamarkaðurinn ræður svo hvort hann kemur til viðbótar,“ segir Lilja, sem telur að ríkið eigi í allt of mörgum bönkum.

Neyðarlögin eru hluti vandans í hennar huga. Vegna þeirra hafi aldrei verið skilið á milli gömlu og nýju bankanna og þeir fyrrnefndu ekki keyrðir í þrot. Samningsstaðan hafi verið svo léleg vegna neyðarlaganna.

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir bankana of marga miðað við smæð hagkerfisins og segir að þeim muni fækka á næstu árum.

„Við erum með stærra bankakerfi en við þurfum miðað við stærð hagkerfisins. Það er ljóst að við munum ekki fara út fyrir landsteinana næstu tíu, tuttugu, þrjátíu árin. Það er því líklegt að kerfið muni dragast saman í framtíðinni.“

Þórólfur segir rætt um að leyfa tveimur af stóru bönkunum þremur að sameinast, vegna samkeppnissjónarmiða. Ljóst er að mun harðari kröfur verða gerðar til samsetningar eiginfjár og til innra eftirlits bankanna í kjölfarið á hruninu. Það þýði að erfiðara verði að reka litlar einingar en stórar.

„Þá er líklegt að þeir stóru taki þá smærri yfir, eða þeir smærri taki sig saman. Menn eru þó brenndir af því sem gerðist fyrir hrun og þetta gerist því kannski ekki einn, tveir og þrír, heldur yfir mörg ár. Þá eru eignasöfn bankanna þannig að erfitt er að átta sig á verðmæti þeirra.“

lilja mósesdóttir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×