Skoðun

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir: Grínlaust

Það er ekki sjálfgefið að rekstur Reykjavíkurborgar skili afgangi. Öll árin 2002 til 2006, á sama tíma og mikill uppgangur var í þjóðfélaginu, var borgin rekin með halla. Á árinu 2007 snerist þetta við og hefur borgin verið rekin með afgangi síðustu 3 árin. Þetta er mjög góður árangur, ekki síst í ljósi þeirra hremminga sem hafa gengið yfir efnahagskerfi landsmanna síðustu 2 árin.

Rekstrarafgangur á árinu 2009 upp á rúma 3 milljarða er eftirtektarverður árangur fyrir margra hluta sakir. Hvorki skattar né gjaldskrár fyrir grunnþjónustu voru hækkaðar á árinu. Útsvarshlutfall í borginni er lægra en lögbundið hámark segir til um. Gengisþróun var óhagstæðari og verðlag var hærra en áætlun gerði ráð fyrir. Líklegri niðurstaða fyrir árið 2009 hefði sjálfsagt verið sú að eftir hækkun skatta, hækkun gjaldskráa, og eftir hækkun útsvarshlutfalls í hæstu leyfilegu mörk hefði rekstur borgarinnar samt komið út í mínus. Þessu spáði m.a. Samfylkingin. Ekkert af þessu gerðist.

Niðurstöðuna má þakka nýjum vinnubrögðum við fjármálastjórn Reykjavíkurborgar. Gott samráð meiri- og minnihluta var um vinnu við fjárhagsáætlun í borgarstjórn. Þunginn í aðgerðaráætlun okkar var að standa vörð um grunnþjónustuna, störfin og gjaldskrár. Við þetta allt hefur verið staðið. Starfsmenn borgarinnar komu með um 300 tillögur um sparnað sem voru nýttar á árinu. Niðurstaðan er afgangur upp á rúma 3 milljarða.

Staða borgarsjóðs og dótturfyrirtækja er allt annað en auðveld. Skuldir Orkuveitu Reykjavíkur vega þar þyngst en fjárfestingar síðustu ára hafa enn ekki skilað þeim tekjum sem þarf til að staða félagsins sé viðunandi.

Grundvallaratriði í því að viðhalda þáttum eins og lánshæfismati er að rekstur borgarinnar sé í lagi. Hallarekstur ofan á erfiða skuldastöðu er nefnilega óskemmtileg blanda eins og Grikkland og fleiri ríki fá að kenna á um þessar mundir.

Það eru því mjög ánægjulegar fréttir að borgarsjóður sé rekinn með afgangi. Annars konar niðurstaða væri ekkert annað en dauðans alvara. Grín og glens við stjórn borgarinnar væri mikið ábyrgðarleysi. Hallarekstur eins og stundaður var á árum áður væri mikið ábyrgðarleysi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×