Lífið

Þýsk blaðakona skrifar bók um atferli Íslendinga

Greinir íslenska lifnaðarhætti Þýski blaðamaðurinn Alva Gerhmann er að skrifa bók um hina íslensku leið til að lifa lífinu sem kemur út í Þýskalandi næsta sumar.Fréttablaðið/valli
Greinir íslenska lifnaðarhætti Þýski blaðamaðurinn Alva Gerhmann er að skrifa bók um hina íslensku leið til að lifa lífinu sem kemur út í Þýskalandi næsta sumar.Fréttablaðið/valli

„Ég er búin að komast að því að þið Íslendingar skipuleggjið ykkur ekki mikið fram í tímann. Það er mjög ólíkt því sem ég á að venjast frá mínu heimalandi,“ segir þýski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Alva Gerhmann sem er að skrifa bókina The Icelandic way of living sem kemur út í Þýskalandi næsta sumar.

Í bókinni ætlar Gerhmann að varpa ljósi á hvernig Íslendingar takast á við lífið og vill hún meina að Þjóðverjar geti lært heilmikið af þjóðinni. En af hverju bók um Ísland af öllum löndum?

„Hrunið og eldgosið hefur óneitanlega beint sviðsljósinu að Íslandi upp á síðkastið og tilfinning mín er sú að Þjóðverjum finnist Ísland vera eitt af mest framandi löndum í Evrópu. Samfélagið hér er forvitnilegt og mér finnst Íslendingar lifa eins og þeir vilja lifa. Hella sér út í hluti án þess að hugsa sig of mikið um. Hvatvísir og framandi fyrir Þjóðverja eins og mig.“

Á meðal viðmælanda hennar um íslenskt samfélag eru rithöfundarnir Andri Snær Magnason, Hallgrímur Helgason, borgarstjórinn Jón Gnarr og fjölmiðlakonan Tobba Marinósdóttir. Gerhmann segist ekki ætla að einblína of mikið á hrunið í bókinni þó að vissulega verði einn kafli um það hvernig íslenska þjóðin bregst við krísum.

„Ég var stödd hérna síðasta vor þegar Eyjafjallajökull fór að gjósa og verður því gert skil í þessum krísukafla,“ segir hún.

„Annars er til dæmis fjallað um stefnumótamenningu Íslendinga eða vöntunina á þeirri menningu í einum kafla.“ Gehrman er með mikla reynslu af blaðamennsku og hefur skrifað fyrir stór dagblöð á borð við Financial Times, Die Zeit og spiegel.de.

„Mér fannst ekki nóg að koma hingað og taka bara viðtöl við innfædda. Ég vildi búa og lifa eins og Íslendingur í smá tíma. Kynnast því að vera hvatvís og hugsa þetta reddast,“ segir Gerhmann hlæjandi en hún hefur búið hér með hléum síðan snemma í vor.

Gerhmann yfirgefur landið eftir nokkra daga en ætlar að snúa aftur eftir áramót og leggja lokahönd á bókina.

„Ég er ekki að vinna bókina eins og Íslendingur heldur eins og Þjóðverji. Hægt og rólega.“

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.