Hrópað í hornum Sverrir Jakobsson skrifar 16. nóvember 2010 06:00 Ólafur Páll Jónsson heimspekingur skilgreindi á dögunum íslenska umræðuhefð sem prúttlýðræði en einkenni á því væri „að þar mætir fólk þeim sem það er ósammála sem einstaklingum sem það forðast að hlusta á" (sbr. frétt á vefritinu Smugunni 1. nóvember s.l.) Mér varð hugsað til þessarar skilgreiningar þegar ég las grein eftir Hjörleif Guttormsson í Fréttablaðinu 12. nóvember sem var svar við grein eftir undirritaðan frá 2. nóvember. Í svari sínu endurritar Hjörleifur mín skrif með gildishlöðnu og tilfinningaþrungnu orðalagi og kallar þau tilraun til „að réttlæta uppgjöf forystu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs gagnvart Samfylkingunni við ríkisstjórnarmyndun í maí 2009". Þetta orðalag á sér ekki stoð í neinu sem ég hef sagt. Fyrir mér átti sér aldrei neitt stríð stað og ekki heldur uppgjöf sem ég þurfi að réttlæta. Umorðun Hjörleifs á grein minni felur í sér valdbeitingu á tungumálinu þar sem allur málflutningur eru felldur að eintóna umræðuhefð; pólitískur ágreiningur felur í sér sigur eða tap og málamiðlanir eru kallaðar uppgjöf. Ég hef takmarkaðan áhuga á að reynt sé að þýða mín sjónarmið yfir á tungutak þeirra sem kjósa hróp í hornum fram yfir samræður. Það kemur mér ekki á óvart að Hjörleifi Guttormssyni finnist margt aðfinnsluvert við samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar; ekki síst sú staðreynd að flokksráð vinstrigrænna kaus að ganga til stjórnarsamstarfs á grundvelli málamiðlunar varðandi stefnuna til Evrópusambandsins. Ég virði þá afstöðu hans að það hafi verið rangt að gera málamiðlun varðandi þetta mál og að það brjóti gegn grundvallastefnu flokksins. Ég skil hins vegar ekki þá staðhæfingu hans að samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hafi verið ætlað að „afvegaleiða" flokksmenn vinstrigrænna. Í grein sinni færir hann engin rök fyrir því önnur en að benda á atriði í sáttmálanum sem hann er sjálfur efnislega ósammála. Séu þessir kaflar í samstarfsyfirlýsingunni gallaðir þá voru þeir gallar til staðar í fyrra þegar flokksráð VG samþykkti að ganga til samstarfs á grundvelli hennar. Það felst engin afvegaleiðing í því að önnur stefna hafi verið ákveðin en Hjörleifur hefði sjálfur kosið. Það er ekki hægt að afgreiða ágreining um forgangsmál og aðferðafræði í stjórnmálum sem svik og blekkingar. Einu marktæku rökin sem Hjörleifur nefnir fyrir meintum forsendubresti eru að hann dregur það í efa að þingmenn VG hafi verið óbundnir í afstöðu til tillögu utanríkisráðherra um að leggja fram umsókn að Evrópusambandinu. Hjörleifur gengur svo langt að staðhæfa að forsendum málsins hafi verið „snúið á haus" vegna þess að tillagan var lögð fram sem ríkisstjórnartillaga en ekki sem þingmannamál af hálfu utanríkisráðherra. Þar tel ég þó langt seilst í röksemdafærslu því að eftir sem áður var stjórnarþingmönnum frjálst að kjósa gegn tillögunni og ýmsir þeirra gerðu það. Það styður ekki staðhæfingar um fullkominn viðsnúning. Hjörleifur telur einnig að það breyti forsendum fyrir aðildarumsókn að ríki sem gengu í ESB á árunum 2004 og 2007 fengu í aðdraganda þess sérfræðiráðgjöf og fjárhagsstyrki frá Brussel. Þetta eru vissulega nýmæli frá því að Noregur, Finnland og Svíþjóð sóttu um aðild að Evrópusambandinu á 10. áratugnum, en þetta eru ekki forsendur sem hafa breyst frá því að Alþingi samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu sumarið 2009 eða frá því að flokksráð VG samþykkti að ganga til ríkisstjórnarsamstarfs á þeim grundvelli að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Vera má að einhverjum þyki sú ákvörðun hafa verið röng og að enn aðrir hafi skipt um skoðun á réttmæti hennar. En þá ber að kalla skoðanaskiptin réttu nafni en ekki reyna að skella ábyrgðinni á aðra með órökstuddu tali um forsendubrest. Hjörleifur kýs að kalla það útúrsnúning að ég hafi brugðist við áskorun hans og 99 annarra til forystu VG með því að rifja upp þá niðurstöðu sem grasrót flokksins komst að í fyrra eftir lýðræðislega umræðu. Jafnframt lýsti ég eftir afstöðu hundraðmenninganna til núverandi ríkisstjórnarsamstarfs vegna þess að ein forsenda þess samstarfs var að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Hjörleifur svarar ekki því kalli og greinir ekki frá afstöðu sinni til ríkisstjórnarsamstarfsins. Það væri þó umræðunni mjög til framdráttar að hann og aðrir veittu skýr svör um það. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sverrir Jakobsson Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Flokkur fólksins ræðst gegn hagsmunum eldra fólks og komandi kynslóða Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Andrésdóttir Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun
Ólafur Páll Jónsson heimspekingur skilgreindi á dögunum íslenska umræðuhefð sem prúttlýðræði en einkenni á því væri „að þar mætir fólk þeim sem það er ósammála sem einstaklingum sem það forðast að hlusta á" (sbr. frétt á vefritinu Smugunni 1. nóvember s.l.) Mér varð hugsað til þessarar skilgreiningar þegar ég las grein eftir Hjörleif Guttormsson í Fréttablaðinu 12. nóvember sem var svar við grein eftir undirritaðan frá 2. nóvember. Í svari sínu endurritar Hjörleifur mín skrif með gildishlöðnu og tilfinningaþrungnu orðalagi og kallar þau tilraun til „að réttlæta uppgjöf forystu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs gagnvart Samfylkingunni við ríkisstjórnarmyndun í maí 2009". Þetta orðalag á sér ekki stoð í neinu sem ég hef sagt. Fyrir mér átti sér aldrei neitt stríð stað og ekki heldur uppgjöf sem ég þurfi að réttlæta. Umorðun Hjörleifs á grein minni felur í sér valdbeitingu á tungumálinu þar sem allur málflutningur eru felldur að eintóna umræðuhefð; pólitískur ágreiningur felur í sér sigur eða tap og málamiðlanir eru kallaðar uppgjöf. Ég hef takmarkaðan áhuga á að reynt sé að þýða mín sjónarmið yfir á tungutak þeirra sem kjósa hróp í hornum fram yfir samræður. Það kemur mér ekki á óvart að Hjörleifi Guttormssyni finnist margt aðfinnsluvert við samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar; ekki síst sú staðreynd að flokksráð vinstrigrænna kaus að ganga til stjórnarsamstarfs á grundvelli málamiðlunar varðandi stefnuna til Evrópusambandsins. Ég virði þá afstöðu hans að það hafi verið rangt að gera málamiðlun varðandi þetta mál og að það brjóti gegn grundvallastefnu flokksins. Ég skil hins vegar ekki þá staðhæfingu hans að samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hafi verið ætlað að „afvegaleiða" flokksmenn vinstrigrænna. Í grein sinni færir hann engin rök fyrir því önnur en að benda á atriði í sáttmálanum sem hann er sjálfur efnislega ósammála. Séu þessir kaflar í samstarfsyfirlýsingunni gallaðir þá voru þeir gallar til staðar í fyrra þegar flokksráð VG samþykkti að ganga til samstarfs á grundvelli hennar. Það felst engin afvegaleiðing í því að önnur stefna hafi verið ákveðin en Hjörleifur hefði sjálfur kosið. Það er ekki hægt að afgreiða ágreining um forgangsmál og aðferðafræði í stjórnmálum sem svik og blekkingar. Einu marktæku rökin sem Hjörleifur nefnir fyrir meintum forsendubresti eru að hann dregur það í efa að þingmenn VG hafi verið óbundnir í afstöðu til tillögu utanríkisráðherra um að leggja fram umsókn að Evrópusambandinu. Hjörleifur gengur svo langt að staðhæfa að forsendum málsins hafi verið „snúið á haus" vegna þess að tillagan var lögð fram sem ríkisstjórnartillaga en ekki sem þingmannamál af hálfu utanríkisráðherra. Þar tel ég þó langt seilst í röksemdafærslu því að eftir sem áður var stjórnarþingmönnum frjálst að kjósa gegn tillögunni og ýmsir þeirra gerðu það. Það styður ekki staðhæfingar um fullkominn viðsnúning. Hjörleifur telur einnig að það breyti forsendum fyrir aðildarumsókn að ríki sem gengu í ESB á árunum 2004 og 2007 fengu í aðdraganda þess sérfræðiráðgjöf og fjárhagsstyrki frá Brussel. Þetta eru vissulega nýmæli frá því að Noregur, Finnland og Svíþjóð sóttu um aðild að Evrópusambandinu á 10. áratugnum, en þetta eru ekki forsendur sem hafa breyst frá því að Alþingi samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu sumarið 2009 eða frá því að flokksráð VG samþykkti að ganga til ríkisstjórnarsamstarfs á þeim grundvelli að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Vera má að einhverjum þyki sú ákvörðun hafa verið röng og að enn aðrir hafi skipt um skoðun á réttmæti hennar. En þá ber að kalla skoðanaskiptin réttu nafni en ekki reyna að skella ábyrgðinni á aðra með órökstuddu tali um forsendubrest. Hjörleifur kýs að kalla það útúrsnúning að ég hafi brugðist við áskorun hans og 99 annarra til forystu VG með því að rifja upp þá niðurstöðu sem grasrót flokksins komst að í fyrra eftir lýðræðislega umræðu. Jafnframt lýsti ég eftir afstöðu hundraðmenninganna til núverandi ríkisstjórnarsamstarfs vegna þess að ein forsenda þess samstarfs var að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Hjörleifur svarar ekki því kalli og greinir ekki frá afstöðu sinni til ríkisstjórnarsamstarfsins. Það væri þó umræðunni mjög til framdráttar að hann og aðrir veittu skýr svör um það.