Norður og niður Einar Már Jónsson skrifar 13. janúar 2010 06:00 Í sínum stjórnmálafræðum hafa Frakkar hugtak sem ekki er laust við að hljómi líkt og mótsögn, og þó reynist það oft notadrjúgt til að varpa ljósi inn í myrkrið þar sem þjóðmálaskúmarnir eru á flögri. Þetta hugtak er á frönsku „politique du pire", og þýðir það eitthvað í áttina við „pólitík á versta kanti" eða „stjórnmálastefna norður og niður", en ég held þó að íslenskan hafi í rauninni ekkert nothæft orð yfir það. En í stuttu máli táknar þetta hugtak þá stefnu í stjórnmálum að róa að því öllum árum að allt fari á versta veg, stuðla ekki að því að leysa þau vandamál sem kunna að vera fyrir hendi, heldur reyna þvert á móti að koma í veg fyrir að nokkur lausn finnist, hindra menn í að ráða bót á ástandinu, magna sem mest upp vandamálin og gera þau óleysanleg. Stefnu af þessu tagi eiga stjórnmálamenn til að taka upp þegar þeir húka valdalausir í stjórnarandstöðu, eða kannske þegar staða þeirra er á einhvern annan hátt tæp, og með því að fylgja henni sem fastast hyggjast þeir höndla það sem þeim er kærast, Völdin. Í sögu 20. aldar þekkja Frakkar nokkuð skýrt dæmi um stefnu af þessu tagi. Þegar de Gaulle sagði af sér í fússi rétt eftir heimsstyrjöldina síðari eftir stutta setu í embætti forsætisráðherra, bjóst hann við því í fyrstu umferð að landar hans myndu grátbæna hann um að koma aftur, en þegar það gerðist ekki, og þeir létu afsögn hans sér í léttu rúmi liggja, fór hann að velta fyrir sér leiðum til að komast aftur til valda. „Og þær fann hinn demóníski hugur hans", eins og einhver sagði síðar, hann sá sem sé að nýlenduvandamálið myndi verða sá stökkpallur sem hann gæti notað til að hoppa upp í valdastólinn. Fljótlega eftir að heimsstyrjöldinni var lokið fór nefnilega að draga til mikilla tíðinda í þeim nýlendum sem Frakkar áttu í fjarlægum heimsálfum, nýlenduþjóðirnar tóku að rísa upp og krefjast sjálfstæðis, víða urðu óeirðir og blóðsúthellingar, svo kom til styrjaldar í franska Indókína sem var Frökkum bæði erfið og kostnaðarsöm og eftir það hófst enn verri styrjöld í Alsír. Nú mátti ljóst vera, að þetta vandamál þyrfti að leysa á skjótan og róttækan hátt, það var ekki hægt að hunsa með öllu kröfur nýlenduþjóðanna, og styrjaldirnar voru of þungur baggi og kannske óvinnanlegar. En við ramman reip var að draga, fjöldi Frakka vildi enn lemja hausnum við steininn og halda í nýlenduveldið óbreytt, og á það lag gekk nú de Gaulle. Hann lét fylgismenn sína berjast með kjafti og klóm gegn öllu því sem gæti stuðlað að einhverri lausn á vandanum. Grundvallarstefna hans var sú að væna valdhafa landsins um linkind, undanlátssemi ef ekki helber svik í nýlendumálunum, vegna eymdar og dugleysis eða jafnvel þjónkun við einhverja annarlega hagsmuni væru þeir að glutra nýlenduveldinu úr hendi sér og gera Frakkland að engu, að smáríki sem ekki skipti lengur neinu máli í veröldinni. Hann gat þá stutt sig við þá algengu hugaróra herforingja að sigurinn í stríðinu sé alveg á næsta leiti, það þurfi aðeins nokkra hermenn til viðbótar og meiri og betri vopn, og þá sé björninn unninn. Og hann gat einnig stutt sig við þá Frakka sem voru reiðubúnir til að trúa herforingjunum og taka undir gagnrýni hans á valdhöfunum: hvað svo sem þeir gerðu var það aldrei nóg. Að lokum var ástandið komið í óleysanlegan hnút, agalausir herforingjar gerðu uppreisn í Algeirsborg, og lafhræddir stjórnmálamenn afhentu de Gaulle völdin á silfurfati. Hann var búinn að ná markmiði sínu. En þá var hann kominn í þá lítt öfundsverðu stöðu að þurfa að gera það sem hann hafði ásakað aðra um að geta ekki gert, og það var honum að sjálfsögðu ofviða. Hann varð að beygja sig fyrir veruleikanum, gefa Alsírbúum sjálfstæði, svo og öllum þeim nýlendum sem þá voru eftir. Það kostaði mikil átök, því ýmsir þeir sem áður höfðu trúað á de Gaulle snerust nú gegn honum, stundum með bombum og byssuhólkum, en í Alsír brást flótti í menn af frönskum uppruna og fór allur þorri þeirra til Frakklands. Og því geta menn spurt sig hvort ekki hefði mátt leysa þetta vandamál á auðveldari hátt, og með minni skaða, með því að meta ástandið af skynsemi, sýna sveigjanleika í stað þess að forherðast og umfram allt með því að segja almenningi sannleikann. En þá hefði de Gaulle ekki komist til valda. Fleiri dæmi mætti nefna, og kannske veltir einhver því fyrir sér hvort þessi útbreidda stjórnarstefna norður og niður sé ekki kennd í einhverjum stjórnmálaskólum. En þess þarf ekki, hún er sennilega í pólitísku genunum. Líka á Íslandi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Skuggaspil valdsins Anna Kristín Jensdóttir Skoðun Skólaforðun: Rangnefni sem þarfnast nýrrar nálgunar Rakel Norðfjörð Vilhjálmsdóttir Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Hvernig gerðist þetta? Tryggvi Hjaltason Skoðun Gleymdu leikskólabörnin Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir Skoðun Hugsjónir ójafnaðarmanns - svar við bréfi Kára Snorri Másson Skoðun Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Viðreisn er Samfylkingin Júlíus Viggó Ólafsson Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun
Í sínum stjórnmálafræðum hafa Frakkar hugtak sem ekki er laust við að hljómi líkt og mótsögn, og þó reynist það oft notadrjúgt til að varpa ljósi inn í myrkrið þar sem þjóðmálaskúmarnir eru á flögri. Þetta hugtak er á frönsku „politique du pire", og þýðir það eitthvað í áttina við „pólitík á versta kanti" eða „stjórnmálastefna norður og niður", en ég held þó að íslenskan hafi í rauninni ekkert nothæft orð yfir það. En í stuttu máli táknar þetta hugtak þá stefnu í stjórnmálum að róa að því öllum árum að allt fari á versta veg, stuðla ekki að því að leysa þau vandamál sem kunna að vera fyrir hendi, heldur reyna þvert á móti að koma í veg fyrir að nokkur lausn finnist, hindra menn í að ráða bót á ástandinu, magna sem mest upp vandamálin og gera þau óleysanleg. Stefnu af þessu tagi eiga stjórnmálamenn til að taka upp þegar þeir húka valdalausir í stjórnarandstöðu, eða kannske þegar staða þeirra er á einhvern annan hátt tæp, og með því að fylgja henni sem fastast hyggjast þeir höndla það sem þeim er kærast, Völdin. Í sögu 20. aldar þekkja Frakkar nokkuð skýrt dæmi um stefnu af þessu tagi. Þegar de Gaulle sagði af sér í fússi rétt eftir heimsstyrjöldina síðari eftir stutta setu í embætti forsætisráðherra, bjóst hann við því í fyrstu umferð að landar hans myndu grátbæna hann um að koma aftur, en þegar það gerðist ekki, og þeir létu afsögn hans sér í léttu rúmi liggja, fór hann að velta fyrir sér leiðum til að komast aftur til valda. „Og þær fann hinn demóníski hugur hans", eins og einhver sagði síðar, hann sá sem sé að nýlenduvandamálið myndi verða sá stökkpallur sem hann gæti notað til að hoppa upp í valdastólinn. Fljótlega eftir að heimsstyrjöldinni var lokið fór nefnilega að draga til mikilla tíðinda í þeim nýlendum sem Frakkar áttu í fjarlægum heimsálfum, nýlenduþjóðirnar tóku að rísa upp og krefjast sjálfstæðis, víða urðu óeirðir og blóðsúthellingar, svo kom til styrjaldar í franska Indókína sem var Frökkum bæði erfið og kostnaðarsöm og eftir það hófst enn verri styrjöld í Alsír. Nú mátti ljóst vera, að þetta vandamál þyrfti að leysa á skjótan og róttækan hátt, það var ekki hægt að hunsa með öllu kröfur nýlenduþjóðanna, og styrjaldirnar voru of þungur baggi og kannske óvinnanlegar. En við ramman reip var að draga, fjöldi Frakka vildi enn lemja hausnum við steininn og halda í nýlenduveldið óbreytt, og á það lag gekk nú de Gaulle. Hann lét fylgismenn sína berjast með kjafti og klóm gegn öllu því sem gæti stuðlað að einhverri lausn á vandanum. Grundvallarstefna hans var sú að væna valdhafa landsins um linkind, undanlátssemi ef ekki helber svik í nýlendumálunum, vegna eymdar og dugleysis eða jafnvel þjónkun við einhverja annarlega hagsmuni væru þeir að glutra nýlenduveldinu úr hendi sér og gera Frakkland að engu, að smáríki sem ekki skipti lengur neinu máli í veröldinni. Hann gat þá stutt sig við þá algengu hugaróra herforingja að sigurinn í stríðinu sé alveg á næsta leiti, það þurfi aðeins nokkra hermenn til viðbótar og meiri og betri vopn, og þá sé björninn unninn. Og hann gat einnig stutt sig við þá Frakka sem voru reiðubúnir til að trúa herforingjunum og taka undir gagnrýni hans á valdhöfunum: hvað svo sem þeir gerðu var það aldrei nóg. Að lokum var ástandið komið í óleysanlegan hnút, agalausir herforingjar gerðu uppreisn í Algeirsborg, og lafhræddir stjórnmálamenn afhentu de Gaulle völdin á silfurfati. Hann var búinn að ná markmiði sínu. En þá var hann kominn í þá lítt öfundsverðu stöðu að þurfa að gera það sem hann hafði ásakað aðra um að geta ekki gert, og það var honum að sjálfsögðu ofviða. Hann varð að beygja sig fyrir veruleikanum, gefa Alsírbúum sjálfstæði, svo og öllum þeim nýlendum sem þá voru eftir. Það kostaði mikil átök, því ýmsir þeir sem áður höfðu trúað á de Gaulle snerust nú gegn honum, stundum með bombum og byssuhólkum, en í Alsír brást flótti í menn af frönskum uppruna og fór allur þorri þeirra til Frakklands. Og því geta menn spurt sig hvort ekki hefði mátt leysa þetta vandamál á auðveldari hátt, og með minni skaða, með því að meta ástandið af skynsemi, sýna sveigjanleika í stað þess að forherðast og umfram allt með því að segja almenningi sannleikann. En þá hefði de Gaulle ekki komist til valda. Fleiri dæmi mætti nefna, og kannske veltir einhver því fyrir sér hvort þessi útbreidda stjórnarstefna norður og niður sé ekki kennd í einhverjum stjórnmálaskólum. En þess þarf ekki, hún er sennilega í pólitísku genunum. Líka á Íslandi.