Tónlist

Brjálaðir í nýju myndbandi

Rokkararnir í Endless Dark tóku upp nýtt myndband í Bolton við lagið Cold, Hard December.
Rokkararnir í Endless Dark tóku upp nýtt myndband í Bolton við lagið Cold, Hard December.

Rokksveitin Endless Dark er nýkomin heim eftir frækilega för til London þar sem hún lenti í öðru sæti í alþjóðlegu hljómsveitakeppninni Global Battle Of The Bands. Eftir keppnina tók sveitin upp sitt fyrsta myndband í bænum Bolton við lagið Cold, Hard December.

„Það var „kúl" að gera það í Englandi," segir Atli Sigursveinsson, gítarleikari Endless Dark, um fyrsta myndband sveitarinnar sem tekið var upp í Englandi eftir að sveitin hafnaði í öðru sæti í Global Battle of the Bands. Myndbandsgerðin gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig: „Við áttum að lifa okkur svo inn í þetta og vera svo brjálaðir í myndbandinu að hinn gítarleikarinn skallaði gítarinn og fékk skurð í andlitið," segir Atli.

Útgáfufélag sem er að íhuga að semja við Endless Dark um útgáfu smáskífu eða EP-plötu stóð á bak við gerð myndbandsins. Leikstjórn var í höndum aðila sem kalla sig Sitcom Soldiers og hafa verið duglegir við að taka upp myndbönd fyrir breskar rokksveitir. Einnig tóku þeir upp myndband íslensku sveitarinnar Ourlives við lagið Sandra. Fyrrverandi gítarleikari Ourlives, Egill Kári Helgason, er einmitt umboðsmaður Endless Dark.

Atli er að vonum ánægður með annað sætið í hljómsveitakeppninni og segir að þessi góði árangur hafi ekki komið sér mjög á óvart. „Mér fannst ekkert rosalega góð bönd þarna en maður er samt alltaf jafnspenntur og óviss. Þetta var drullugaman en það er skrítið að spila þegar það eru yfir tuttugu bönd á sama kvöldi. Það var mjög gaman að kynnast þessu liði."

Vel var tekið á móti þeim í tónleikasalnum, eins og reyndar öllum sveitunum. „Það var klappað vel fyrir öllum böndum en manni heyrðist að fólk væri að fíla okkur. Helmingurinn af salnum var reyndar frá Nepal. Þegar Nepal kom á sviðið varð allt brjálað," segir Atli. Það var engu að síður kínversk sveit sem bar sigur úr býtum, eins og áður hefur komið fram í Fréttablaðinu.

Endless Dark spilar svokallað post-harðkjarnarokk, eða screamo. Sveitin er skipuð sex strákum á aldrinum 18 til 22 ára frá Ólafsvík og Grundarfirði og verður forvitnilegt að fylgjast með framgöngu þeirra á næstu árum. Atli er alla vega sannfærður um að framtíðin sé björt, þó svo að enn ríki óvissa um samningamálin. „Við vitum ekkert enn en það eru góðir hlutir að fara að gerast."

[email protected]










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.