Lífið

Skírði hljóðfærið sitt í höfuðið á geimstöðinni Mír

mugison og mirstrument Mugison á tónleikum með nýja hljóðfærið sitt, Mirstrument.mynd/ingvar sverrisson
mugison og mirstrument Mugison á tónleikum með nýja hljóðfærið sitt, Mirstrument.mynd/ingvar sverrisson

„Þetta er eins og ég hefði átt sjö bíla í garðinum hjá mér og ákveðið að búa til flugvél," segir Örn Elías Guðmundsson, Mugison, um nýja hljóðfærið sitt, Mirstrument, sem hann frumsýndi á Airwaves-hátíðinni um síðustu helgi.

Hljóðfærið getur töfrað fram alls konar hljóð og hefur verið í þróun síðasta eitt og hálfa árið. Popparinn hefur prófað það víða til að koma auga á bilanir en núna er það loksins tilbúið.

Græjan var búin til heima hjá Mugison með hjálp vinar hans, Páls Einarssonar.

„Ég tók fullt af drasli sem ég átti hérna heima og við tókum það í sundur og svo röðuðum við þessu saman og létum þetta virka," útskýrir hann.

Nafnið Mirstrument varð til í Póllandi fyrir skömmu þegar hann prófaði þar græjuna á tónleikum. „Þá sagði einn eldhress gaur:

„This is like the Mir-space station". Þá fæddist þetta."

Nýja hljóðfærið gerir Mugison kleift að fara einn á tónleikaferð án hljómsveitar, enda getur verið kostnaðarsamt að ferðast með heila hljómsveit út um allar trissur. Tækið verður tengt við tölvu, sem er falin fyrir áhorfendum.

„Þetta verður meira eins og gítar eða annað hljóðfæri á sviðinu. Ég fíla ágætlega elektróníska tónlist en það er leiðinlegt að horfa á hana," segir kappinn. Ljósasýning fylgir einnig með Mirstrumentinu til að gera það skemmtilegra fyrir augað.

„Við bjuggum til vasaljósa „sjóv" þannig að þetta er eiginlega einn pakki, móðurstöðin, hljóðfærið og ljósið." Hljóðfærið hefur þegar vakið töluverða athygli og verður það til að mynda til sýnis á iðnaðarsýningu hér á landi í mars á næsta ári.

Mugison er með tvær plötur í vinnslu sem væntanlegar eru snemma á næsta ári. Önnur verður elektrónísk en hin í órafmögnuðum gír og öll sungin á íslensku. Mirstrument kemur við sögu á þeim báðum en þó mest á þeirri fyrrnefndu.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.