Bíó og sjónvarp

Dagur Kári margfalt fórnarlamb öskunnar

Paul Dano komst á frumsýninguna sem Dagur segir að hafi gengið vel. Getty Images/Nordic Photos
Paul Dano komst á frumsýninguna sem Dagur segir að hafi gengið vel. Getty Images/Nordic Photos

Kvikmyndin The Good Heart var frumsýnd við hátíðlega athöfn í Landmark Sunshine-kvikmyndahúsinu í New York. Askan frá Eyjafjallajökli setti smá strik í reikninginn.

„Ég átti að koma heim á laugardaginn en þá var öllu flugi aflýst. Ég er bara að bíða eftir opnum glugga, vonandi verður það á morgun [í dag]," segir kvikmyndaleikstjórinn Dagur Kári Pétursson. Kvikmynd hans The Good Heart var frumsýnd í síðustu viku í New York að viðstöddum einum af aðalleikurum myndarinnar, Paul Dano. Brian Cox, sem leikur hitt aðalhlutverkið, gat ekki verið viðstaddur sýninguna því hann var fastur í Belgrad vegna eldgossins og öskunnar frá Eyjafjallajökli.

Dagur segir frumsýninguna engu síður hafa gengið mjög vel. Og að eldgosið hafi eilítið hjálpað til við kynningu á myndinni. Þannig var BBC með nokkuð ítarlegt innslag um myndina og í því kemur fram að Ísland hafi upp á meira að bjóða en bara Ísland.

„Ég hef nú nokkrum sinnum komið til New York og fólk hefur varla vitað að Ísland væri til. En undanfarin tvö ár hefur landið verið nánast stanslaust í heimspressunni og maður má varla fara út í sjoppu án þess að lenda í hrókasamræðum um ástandið heima," segir Dagur og bætir því við að fram að þessu hafi flestir haldið að „Iceland" væri bara skautahöll.

En askan frá föðurlandinu setti fleira úr skorðum hjá Degi því The Good Heart var kjörin besta kvikmyndin á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Kraká í Póllandi.

„Ég komst ekki út af tveimur ástæðum; annars vegar var búið að lýsa yfir þjóðarsorg í Póllandi út af sviplegu andláti forsetans og hins vegar var ekkert flogið til Póllands út af eldgosinu," segir Dagur en samkvæmt visir.is eru verðlaunin ekkert slor heldur rúm ein milljón íslenskra króna. „Já, ég hafði heyrt af þessari upphæð en ég trúi þessu ekki fyrr en ég sé þetta með mínum eigin augum."

[email protected]






Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.