Skoðun

Leiðbeiningar handa eigendum sólbaðstofa

Pálmi Óskarsson skrifar

Undirrituðum rann til rifja umkomuleysi sólbaðstofueiganda þess er fram kom í kveldfréttum Sjónvarps í miðvikudaginn 29. mars. Tilefni fréttarinnar var nýleg lagasetning sem bannar börnum og unglingum yngri en 18 ára að dekkja hina gráfölu íslensku húð í ljósalömpum. Eigendur sólbaðstofa virðist vanta sárlega úrræði til að komast að aldri viðskiptavina sinna. Ég hef hér sett niður á blað tillögur mínar að leið til þess að framfylgja væntanlegum lögum um lágmarksaldur viðskiptavina slíkra forretninga:

1. Biðjið viðskiptavininn um skilríki ef þér eruð í vafa um að hann sé orðinn 18 ára.

2. Nú hefur viðskiptavinurinn ekki skilríki á sér eða vill ekki sýna þau. Áminnið hann um lögin umræddu og leggið þunga áherslu á að hann fái eigi afgreiðslu nema að sýndum skilríkjum.

3. Með skilríkjum er einkum átt við ökuskírteini og vegabréf.

Ég vona að þessar stuttu leiðbeiningar megi koma eigendum sólbaðstofa að gagni við framfylgd hinna nýju laga. Þeim er hér með veitt leyfi til að hengja þær upp í grennd við afgreiðsluborð fyrirtækja sinna. Óska ég svo rekendum sólbaðhúsa og starfsfólki þeirra velfarnaðar ævinlega.

Með vinarkveðju.






Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×