Tíska og hönnun

Þyngra yfirbragð á árinu

Tveir klassískir leðurstólar, hinn svokallaði "Butterfly chair" frá árinu 1938 og ljósbrúni stóllinn er hönnun Finn Juhl frá árinu 1949. Leður, mottur og þyngri litir koma sterk inn á árinu.
Tveir klassískir leðurstólar, hinn svokallaði "Butterfly chair" frá árinu 1938 og ljósbrúni stóllinn er hönnun Finn Juhl frá árinu 1949. Leður, mottur og þyngri litir koma sterk inn á árinu.
Þung leðurhúsgögn, leðursófar og -stólar, brúnir, svartir og sinnepsgulir litatónar, stærri persneskar mottur, flónel og þyngri gardínur virðist vera það sem er í tískukortum heimilanna á næsta ári.

Þótt skammt sé liðið af nýju ári, ekki nema tveir dagar, hafa húsbúnaðar- og hönnunartímarit sem og vefsíður strax tekið til við að spá í spilin og leggja línurnar fyrir árið 2011. Margt forvitnilegt er í kortunum, í litum, efnum og heildarsvip heimilisins.

Hið svokallaða "Bo bedre" yfirbragð, skandinavískur loftkenndur léttleiki, hefur verið allsráðandi síðustu árin. Hvít húsgögn og innréttingar, gjarnan ljóslakkaðar í bland við eitt og eitt tekkhúsgagn eða þyngra antíkhúsgagn, ásamt léttari efnum og mynstrum, hafa sett fremur einsleitan svip á húsbúnaðarblöð, þótt eilítið hafi verið flippað með skæra liti í stöku munum.

Nú er því tímabili ef til vill að ljúka og svo virðist sem húsgögnin séu að þyngjast, litir og efni dragast niður í leður, flauel og jafnvel persneskar mottur.

Auk hvíts hafa mýkri litir, ljósblár, bleikur ásamt mjög skærum litum, rauðum, gulum og fleiri, spilað sína rullu. Litatónarnir sem eiga að verma sæti þessara eru hlýir tónar í sinnepsgulu, dumb- og rústrauðu, ljóssúkkulaðibrúnu en kaldir tónar verða aðallega svartur og blár. Einhverjir spá því að "lególitir" muni sjást allir saman á stórum svæðum; blár, grænn, gulur og rauður í skærum tónum.

Leður, sem hefur að vísu verið gjaldgengt, verður áberandi en nú eru litirnir aðrir. Minna svart og alls ekki hvítt. Brúnn er helst málið og þá einkum ljósbrúnn og ekki er verra ef einhver dettur niður á sinnepsgulan leðursófa. Motturnar verða stærri, eiga að þekja stærra svæði stofunnar til að mynda og persneskar mottur hljóta nú uppreisn æru. Eiginleg má segja að líkt og algengt er í kreppu eigi efniviðurinn að vera massífur. Allt sem er létt, rómantískt, loftkennt, fíngert og viðkvæmt dettur út og húsgögnin eiga að bera aldri og gæðum vitni. Mynstur koma gjarnan inn á mottum, en þá eru formin klassísk og litirnir jarðbundnir.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.