Skoðun

„Ekki vera faggi!“

Margeir St. Ingólfsson skrifar

Það er oft erfitt að festa hendur á misrétti, því oft leynist það bara í hugsunum fólks. En stundum missir fólk þessar heimskulegu hugsanir út úr sér.

„Ekki sýna veikleika".

„Ótti er fyrir aumingja".

„Vertu harður. Þú þarft enga hjálp".

„Ekki vera faggi".

„Hagaðu þér eins og maður".

„Vertu ekki svona mikil kerling".

Hvers konar skilaboð erum við að senda börnunum okkar þegar konur eru notaðar sem skammaryrði? Kommon!

Auðvitað þurfa svona hugsanir og orðbragð ekki að þýða misrétti. Hins vegar leggur þetta grunninn að því og á slíkum grunni ættum við ekki að byggja. Við þurfum að komast út úr þessum hellisbúahugsunarhætti og endurskilgreina karlmennskuna.

Ég er þegar byrjaður á því að gera tilraunir á sjálfum mér með því að gera ýmislegt sem seint verður talið mjög „karlmannlegt."

Ég borða ekki kjöt. Ég fer í „kerlingarleikfimi" (pilates) í hádeginu og borða hráfæði á Gló með öllum hinum kerlingunum. Ég nota dagkrem á meðan margir af mínum bestu vinum setja á sig naglalakk. Ég streitist ekki á móti því að gráta við jarðarför. Og mér gæti ekki verið meira sama hvað öðrum finnst. Ég skora á aðra karlmenn að prófa eitthvað þessu líkt. Ótrúlegt en satt, þá leynast oft góðar hugmyndir í kerlingarbókum.

En hvað annað er til ráða?

Þurfum við að mismuna jákvætt með sérstökum kynjagleraugum og kynjasamþættingu með sértækum aðgerðum og lögum frá kynjaðri hagstjórn og áfrýjunum til kærunefndar jafnréttismála?

Ég segi nei. Þetta ætti að vera einfalt og sjálfsprottið. Það ættu allir að vilja stuðla að jafnrétti - jöfnum tækifærum. Vinnan hefst í hausnum á sjálfum þér. Toppstykkið notar sig ekki sjálft. Byrjaðu strax í dag.

„Ekki vera baggi" á samfélaginu - berðu virðingu fyrir konum!










Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×