Lífið

Þrettán ára stelpa slær í gegn með hræðilegu lagi

Fyrir nokkrum dögum vissu fáir hver Rebecca Black var, en í dag á hún eitt vinsælasta myndbandið á Youtube við lagið Friday. Lagið er hræðilega slæmt, hræðilega sungið og virðist ætla að þéna hræðilega mikið af peningum fyrir Black.

Rebecca Black er 13 ára söngkona frá Anaheim í Kaliforníu. Hún birti myndband sitt við lagið Friday á Youtube 10. febrúar síðastliðinn. Lagið er hrikalega slæmt, sem virðist vera ástæðan fyrir því að það fór að ganga á milli manna, meðal annars á Facebook.

Síðasta föstudag var búið að horfa á það 40.000 sinnum, en fimm dögum síðar hafði verið horft á það um 10 milljónum sinnum. Þegar þetta er skrifað nálgast myndbandið 13 milljónir áhorfa. Vinsældirnar eru með ólíkindum.

Rebecca Black ætlar að hagnast á þessum nýtilkomnu vinsældum og á miðvikudag gaf hún lagið út á netinu. Fjölmargir eru tilbúnir að borga fyrir að hlusta á Black, en í gær sat lagið í 67. sæti á iTunes-vinsældalistanum, fyrir ofan listamenn á borð við Katy Perry, Rihönnu og Justin Bieber.

Enn er óvíst hversu mörg eintök af laginu hafa selst. Til upplýsingar þá var lagið California Gurls með Katy Perry mest selda lagið á iTunes í fyrra og seldist í um 4,4 milljónum eintaka. Black rukkar 99 sent fyrir niðurhalið og ekki nema lítill hluti af þeim sem hafa horft á myndbandið við lagið á Youtube þurfa að borga fyrir lagið til að gera hana að milljónamæringi.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.