Lífið

Í tryllingsgírnum í sjö tíma

Baldur hefur eflaust hrætt marga með frammistöðu sinni sem lífvörður í sjónvarpsþáttunum Pressu. Fréttablaðið/Vilhelm
Baldur hefur eflaust hrætt marga með frammistöðu sinni sem lífvörður í sjónvarpsþáttunum Pressu. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég verð bara hugsi og reyni að vera alvarlegur og þá lít ég svolítið hrikalega út," segir Baldur Borgþórsson, einkaþjálfari hjá World Class.

Frammistaða Baldurs í sjónvarpsþáttaröðinni Pressu hefur vakið töluverða athygli en hann leikur einkalífvörð Gísla Arnar Garðarssonar í þáttunum (þeim sem vilja horfa á einhverja af endursýningum Pressu er bent á að lesa ekki lengra).

Á sunnudagskvöld framdi persóna Baldurs sjálfsmorð í fremur óhugnanlegu atriði inni í sturtuklefa líkamsræktarstöðvar eftir heljarinnar eltingarleik við lögregluna og Láru blaðakonu. Baldur viðurkennir að það hafi verið svolítið maus að taka upp þetta atriði.

„Ég var svolítið búinn á því, maður varð að setja sig í tryllingsgírinn og vera í honum í kannski sjö klukkustundir. Sem er mjög orkufrekt og þetta var því erfiðara en nokkur æfing sem ég hef tekið þátt í."

Baldur hefur ekki áður reynt fyrir sér á leiklistarsviðinu og er eiginlega handviss um að Óskar Jónasson, leikstjóri þáttanna, eigi sökina á því að hann hafi endað fyrir framan tökuvélarnar. „Hann er að æfa hérna í World Class og hefur eflaust heyrt í mér þegar ég er að æfa, það er svolítil fyrirferð í mér þegar ég tek á því," segir Baldur, sem fór þó í prufur og hreppti því hlutverkið eftir hinum hefðbundnu leiðum sjónvarps- og kvikmyndabransans.

Og þegar kom í ljós að hlutverkið væri hans hvatti eiginkonan hann til stíga út fyrir þægindahringinn og prófa eitthvað nýtt.

Baldur segir það hafa verið frábæra upplifun að taka þátt í þessu verkefni „Þetta gekk allt alveg rosalega vel og mér leið eins og ég hefði aldrei gert neitt annað.

Leikarar, tökufólk og bara allir létu manni líða þannig." Baldur viðurkennir hins vegar að hann hafi ekki séð tvo fyrstu þættina þar sem hann kemur töluvert við sögu.

„Við frúin ákváðum bara að hafa þetta þannig, að við myndum ekki horfa á þá. Ég ætla því bara að byrja að horfa á sunnudaginn næsta."

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.