Lífið

Finnst mjög gaman að vera fyrir framan myndavélina

Magdalena Sara Leifsdóttir vann Elite-keppnina um helgina en hún er að klára níunda bekk í Álfhólsskóla.
Magdalena Sara Leifsdóttir vann Elite-keppnina um helgina en hún er að klára níunda bekk í Álfhólsskóla. Mynd/Stefán Karlsson
Magdalena Sara Leifsdóttir bar sigur úr býtum í Elite-fyrirsætukeppninni. Fyrirsætustarfið heillar en hún getur ekki farið í unglingavinnuna í sumar vegna frjókornaofnæmis.

„Þetta var alveg æðislegt upplifun og auðvitað mjög gaman að vinna þessa keppni," segir Magdalena Sara Leifsdóttir en hún vann Elite-fyrirsætukeppnina sem fór fram í Hafnarhúsinu um síðustu helgi.

Magdalena er aðeins 14 ára gömul en hefur lengi gengið með fyrirsætudraum í maganum. „Það er ár síðan ég fór á skrá hjá Elite og hef verið að sitja aðeins fyrir. Mér finnst mjög gaman að vera fyrir framan myndavélina," segir Magdalena en hún var mjög upptekin um síðustu helgi þar sem hún gekk mörgum sinnum eftir tískupallinum á Reykjavik Fashion Festival fyrir hina ýmsu fatahönnuði ásamt því að taka þátt í Elite-keppninni sjálfri. Keppnin er haldin í annað sinn og tólf stúlkur tóku þátt að þessu sinni.

Magdalena sýndi meðal annars fyrir E-Label á RFF um helgina og tók sig vel út. Mynd/Daníel
Magdalenu fannst ekkert mál að ganga tískupallinn í hinum ýmsu múnderingum. „Nei, ég var bara að sýna fötin og þau voru líka mjög flott. Maður stillir sig bara inn á það að ganga flott og þá gengur allt vel."

Magdalena er að klára níunda bekk í Álfhólsskóla í Kópavogi en segir að keppnin hafi nú ekki vakið mikla athygli hjá skólafélögunum. Verðlaun hennar voru utanlandsferð á alþjóðlegu Elite-keppnina sem haldin verður 11. nóvember næstkomandi en enn þá á eftir að koma í ljós í hvaða landi keppnin verður haldin. „Utanlandsferðin voru aðalverðlaunin en svo fékk ég líka síma, snyrtivörur, iPod og inneign í Topshop sem var frábært," segir Magdalena.

Hún hefur ekki enn ákveðið hvað hún ætlar að gera í sumar. „Ég get varla farið í unglingavinnuna þar sem ég er með svo mikið frjókornaofnæmi, en ég ætla að reyna að finna mér eitthvað annað." [email protected]

RFF





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.