Vor og hús Davíð Þór Jónsson skrifar 28. maí 2011 07:00 Það fer óneitanlega pínulítið í taugarnar á mér þegar Íslendingar dæsa og stynja af aðdáun á útlensku náttúrufari. „Sjáðu hvað vorar snemma!“ „Sjáðu kirsuberjatrén í blóma!“ „Finndu hvað það er orðið heitt strax í maí!“ Mér finnst það satt best að segja ekkert merkileg uppgötvun að það sé hlýrra í veðri sunnar á hnettinum. Reyndar vil ég ganga lengra og segja að íslenskt vor sé mun undursamlegra fyrirbæri. Það er miklu stórfenglegri vitnisburður um sigur lífsins á dauðanum, sigur hins mjúka á hinu harða, þegar brothætt, íslensk grasnál byrjar að stingast upp úr miskunnarlausum freranum heldur en þegar hnausþykkur frumskógargróður dafnar í loftslagi þar sem varla er hægt að reka kústskaft í jörðu án þess að það laufgist. Lítill og aumur geldingahnappur vinnur miklu meira afrek með því að skjóta rótum í hrjóstruga, íslenska urð heldur en suðræn og litfögur lilja vinnur með því að blómstra við þau skilyrði sem jurtagróðri eru einmitt hve hagfelldust. Það sama gildir um hús. Reykjavík er vissulega ósköp fátækleg og ómerkileg sé hún borin saman við miðaldabyggingar evrópskra menningarborga. En mér finnst það eiginlega líka segja sig sjálft að valdhafar hafi getað bruðlað og sóað miklu meira í íburðarmikil glæsihýsi þar sem milljónir manna í gjöfulu og frjósömu landi voru arðrændar og kúgaðar öldum saman heldur en hér á mörkum hins byggilega heims þar sem nokkur þúsund sálir hímdu við hungurmörk kynslóð fram af kynslóð og eina nýtilega byggingarefnið var jörðin undir fótunum á þeim. Við ættum ekki að dást að konungshöllunum og dómkirkjunum sem reistar voru úr blóði og svita sveltandi alþýðu undir rassgatið á fólki sem aldrei þurfti sjálft að dýfa hendi í kalt vatn fyrir munaðinn og hóglífið sem það naut. Ég efast um að það hafi verið ömurlegra hlutskipti að veslast upp úr hungri og vosbúð í íslenskum afdal heldur en í skítugri, erlendri stórborg á tröppum gullbryddaðra glæsihalla, ég tala nú ekki um meintra guðshúsa. Í Reykjavík er ekki mannslíf á bak við hvern múrstein, ekki tár og þjáning nafnlauss forföður á bak við hverja ufsagrýlu eða lágmynd á húsgafli. Reykjavík geymir fáar byggingar reistar á valdníðslunni sem kúguð alþýðan sætti öld fram af öld. Glæsihýsin sem kóngurinn byggði úr blóði og svita, tárum og þjáningu forfeðra okkar eru allar í Kaupmannahöfn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Davíð Þór Jónsson Mest lesið Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun Flokkur fólksins ræðst gegn hagsmunum eldra fólks og komandi kynslóða Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun
Það fer óneitanlega pínulítið í taugarnar á mér þegar Íslendingar dæsa og stynja af aðdáun á útlensku náttúrufari. „Sjáðu hvað vorar snemma!“ „Sjáðu kirsuberjatrén í blóma!“ „Finndu hvað það er orðið heitt strax í maí!“ Mér finnst það satt best að segja ekkert merkileg uppgötvun að það sé hlýrra í veðri sunnar á hnettinum. Reyndar vil ég ganga lengra og segja að íslenskt vor sé mun undursamlegra fyrirbæri. Það er miklu stórfenglegri vitnisburður um sigur lífsins á dauðanum, sigur hins mjúka á hinu harða, þegar brothætt, íslensk grasnál byrjar að stingast upp úr miskunnarlausum freranum heldur en þegar hnausþykkur frumskógargróður dafnar í loftslagi þar sem varla er hægt að reka kústskaft í jörðu án þess að það laufgist. Lítill og aumur geldingahnappur vinnur miklu meira afrek með því að skjóta rótum í hrjóstruga, íslenska urð heldur en suðræn og litfögur lilja vinnur með því að blómstra við þau skilyrði sem jurtagróðri eru einmitt hve hagfelldust. Það sama gildir um hús. Reykjavík er vissulega ósköp fátækleg og ómerkileg sé hún borin saman við miðaldabyggingar evrópskra menningarborga. En mér finnst það eiginlega líka segja sig sjálft að valdhafar hafi getað bruðlað og sóað miklu meira í íburðarmikil glæsihýsi þar sem milljónir manna í gjöfulu og frjósömu landi voru arðrændar og kúgaðar öldum saman heldur en hér á mörkum hins byggilega heims þar sem nokkur þúsund sálir hímdu við hungurmörk kynslóð fram af kynslóð og eina nýtilega byggingarefnið var jörðin undir fótunum á þeim. Við ættum ekki að dást að konungshöllunum og dómkirkjunum sem reistar voru úr blóði og svita sveltandi alþýðu undir rassgatið á fólki sem aldrei þurfti sjálft að dýfa hendi í kalt vatn fyrir munaðinn og hóglífið sem það naut. Ég efast um að það hafi verið ömurlegra hlutskipti að veslast upp úr hungri og vosbúð í íslenskum afdal heldur en í skítugri, erlendri stórborg á tröppum gullbryddaðra glæsihalla, ég tala nú ekki um meintra guðshúsa. Í Reykjavík er ekki mannslíf á bak við hvern múrstein, ekki tár og þjáning nafnlauss forföður á bak við hverja ufsagrýlu eða lágmynd á húsgafli. Reykjavík geymir fáar byggingar reistar á valdníðslunni sem kúguð alþýðan sætti öld fram af öld. Glæsihýsin sem kóngurinn byggði úr blóði og svita, tárum og þjáningu forfeðra okkar eru allar í Kaupmannahöfn.