Tíska og hönnun

Dýrgripir úr ólíkum þræði

Gamli og nýi tíminn mætast hjá Dóru Guðbjörtu Jónsdóttur gullsmiði og Maríu Kristínu Jónsdóttur vöruhönnuði en þær sýna skartgripi í Sparki á Klapparstíg 33.
Gamli og nýi tíminn mætast hjá Dóru Guðbjörtu Jónsdóttur gullsmiði og Maríu Kristínu Jónsdóttur vöruhönnuði en þær sýna skartgripi í Sparki á Klapparstíg 33. Fréttablaðið/GVA
María Kristín Jónsdóttir vöruhönnuður og Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður sýna verk sín í Sparki. Alls 47 ár skilja þær stöllur að í aldri og þær nálgast skartgripagerð á ólíkan hátt. Þó má finna tengingu í verkum þeirra. Dóra smíðar víravirki úr silfurþráðum og María hnýtir hálsmen úr þræði.

„Ég nota ákveðna hnýtingaaðferð í hálsmenin sem heitir makrame og munstrin eru formuð með hnýtingum," útskýrir María Kristín en makrame-hnýtingar úr grófu snæri voru vinsælar á sjöunda og áttunda áratugnum. Dóra Guðbjört segist ekki þekkja til þess að makrame-hnýtingar hafi verið notaðar í skartgripagerð og segja megi að gamli og nýi tíminn mætist hjá þeim stöllum.

„Þetta eru ólík efni og ólíkur aldur og kannski ólík sjónarmið. Handverkið er þó af sama grunni og þræðirnir tengja okkur Maríu saman," segir Dóra en hún sýnir silfurskart, unnið með aldagamalli tækni. „Ég nota mismunandi silfurþræði sem fléttast saman og vinn munina eins og víravirki hefur verið smíðað gegnum aldirnar, höfuðbeygjur og fíngerðari þræðir innan í," útskýrir Dóra. Víravirki tilheyrir íslenska þjóðbúningnum og sótti María einnig í íslenska búninga í hugmyndavinnu sinni.

„Ég fékk að nota teikningar af munstursaumi á pilsfaldi íslenska faldbúningsins frá Hildi Rosenkjær og sökkti mér ofan í þær. Formin á hálsmenunum þróuðust síðan frekar þegar vinnan hófst við hnýtingarnar. Þjóðbúningurinn er því líka tenging milli okkar Dóru þó við vinnum í ólík efni. Hlutirnir okkar beggja eru dýrgripir úr gjörólíku hráefni."

Á tímabili fór þeim fækkandi sem kunnu tæknina við víravirki en Dóra segist finna fyrir auknum áhuga ungs fólks á handverkinu en hún hefur verið með námskeið, meðal annars hjá Heimilisiðnaðarfélaginu og í Tækniskólanum. María Kristín stundar einmitt nám í gullsmíði við Tækniskólann og mun læra víravirki í haust. Sýningin Þræðir stendur til 10. september.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.