Tónlist

Vetrarsólin er nútímalegri

Önnur plata Snorra Helgasonar heitir Winter Sun og er fáanleg á síðunni Gogoyoko.
Önnur plata Snorra Helgasonar heitir Winter Sun og er fáanleg á síðunni Gogoyoko.
Önnur sólóplata Snorra Helgasonar, Winter Sun, er að koma út. Hann segist hafa vaxið mikið sem tónlistarmaður síðan hann flutti til London. Önnur plata Snorra Helgasonar, fyrrum liðsmanns Sprengjuhallarinnar, nefnist Winter Sun og er fáanleg í rafrænni forsölu á tónlistarveitunni Gogoyoko. Formlegur útgáfudagur er 4. ágúst og er það Kimi Records sem gefur út.

Innan við tvö ár eru liðin síðan fyrsta sólóplata Snorra, I"m Gonna Put My Name on Your Door, leit dagsins ljós. „Fyrri platan var meira hefðbundin þjóðlagatónlist. Ég var mikið að pæla í „retro"-hljómi og hún hefði getað komið út 1972. Þessi er aðeins nútímalegri," segir Snorri um Winter Sun.

Platan var tekin upp af Sindra Má Sigfússyni úr Seabear og Sin Fang, hljóðblönduð af Snorra, Sindra og Bigga Sundlaugarverði og hljómjöfnuð af Alan Douches. Hann hefur áður unnið fyrir Fleetwood Mac, Animal Collective og Sufjan Stevens.

„Við tókum sex daga törn í byrjun janúar meðan ég var á landinu, ég og Sindri Már. Við ákváðum snemma í ferlinu að nota ekki hefðbundnar trommur, heldur klapp og stapp og tölvudót. Það gerði það að verkum að við gátum nærri fullklárað lögin bara tveir," segir Snorri. Hann er mjög ánægður með samstarfið við Sindra Má og gerðu þeir félagar ýmsar tilraunir. „Hann sendi mig heim með trommutakt og bað mig um að semja lög fyrir hann. Það komu út tvö lög þannig."

Snorri hefur verið búsettur í London síðustu tvö ár og líður vel þar. „Ég er búinn að spila eins og brjálæðingur og hef reynt að hitta sniðugt fólk. Það gengur alveg ágætlega." Hann fór í tónleikaferð um Kanada síðasta haust og tónleikaferð um Evrópu með Hjaltalín í vor, auk þess að spila í London.

Aðspurður segist hann hafa vaxið sem tónlistarmaður við dvölina erlendis. „Ég hætti að vinna við allt annað en að vera tónlistarmaður. Það stökk hefur haft mikil áhrif, að þurfa að verða betri til að geta látið þetta ganga. Ég er mjög sáttur við nýju plötuna og finnst hún spennandi. Ég held líka að ég sé orðinn betri „live"."Snorri fagnar Winter Sun með tónleikum á Innipúkanum í kvöld og með útgáfutónleikum á Faktorý Bar 4. ágúst þar sem platan verður spiluð í heild sinni.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.