Skoðun

(G)narrast með fólk

Sighvatur Björgvinsson skrifar
Heyrst hefur, að útgjöld upp á minnst fjörutíu þúsund milljónir króna í fyrsta áfanga nýrrar sjúkrahúsbyggingar og stöðugur samdráttur útgjalda til reksturs og viðhalds heilbrigðisþjónustunnar séu tvö óskyld mál. Óskyld, vegna þess að útgjöldin vegna byggingarinnar séu fengin annars staðar frá en útgjöldin vegna rekstrar og viðhalds.

Fjármunirnir til þess að kosta steinsteypuna komi sem lántaka frá lífeyrissjóðum en fjármunirnir til rekstrar og viðhalds úr ríkissjóði.

Hvort tveggja endar hins vegar á sama stað. Hjá skattgreiðendum. Lán þarf að greiða. Hvort tveggja – byggingakostnaðurinn og rekstrarútgjöldin - endar í vasanum á skattgreiðendum. Reikningunum fyrir hvort tveggja er framvísað þar. Til einnar og sömu þjóðarinnar, sem ekki telst eiga fyrir þeim útgjöldum sem nauðsynleg eru fyrir rekstur steinsteypunnar sem nú þegar er til staðar í kerfinu. Svarið við því vandamáli á að vera að tvöfalda magn þeirrar steypu! Það er sagt vera allsendis óskylt mál. Meira að segja er því haldið fram, að sparaðar verði þrjú þúsund milljónir króna á ári í rekstri við það að húsrýmið verði tvöfaldað að stærð!

Nú skulum við yfirfæra þessar röksemdir á almenning. Setjum sem svo að fjölskylda búi í 100 fermetra íbúð nú eftir hrun og hafi ekki efni á að standa undir rekstrarkostnaði við húsnæðið og frumþarfir fjölskyldunnar. Þurfi sem sé að skera niður útgjöld til daglegra þarfa. Myndu ráðherrar gefa þeirri fjölskyldu það ráð að taka lán og reisa sér stórt einbýlishús því þeir fjármunir kæmu annars staðar frá en dagleg rekstrarútgjöld fjölskyldunnar? Í ofanálag væru svo allar líkur til þess að með því að flytja í nýja húsið myndi fjölskyldan geta sparað sér rekstrarútgjöld í svo miklum mæli að eftir svo sem eins og 15 ár næmi sparnaðurinn andvirði byggingakostnaðar hússins sem fjölskyldan ætti þá skuldlaust?

Er þetta virkilega ráðgjöf ríkisstjórnar – eða er bara verið að (G)narrast í fólki?




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×