Skoðun

(G)narrismi

Sighvatur Björgvinsson skrifar
Í síðustu sveitarstjórnarkosningum urðu til í Reykjavík nýr straumur og ný stefna í íslenskum stjórnmálum, sem menn höfðu ekki áður séð. Það varð þegar enginn gat sagt fyrir um hvort frambjóðandi væri að grínast – narrast – með fólk eða tala við það í alvöru. Dæmi: „Ég ætla að gera allt fyrir aumingja!“ Annað dæmi: „Ég ætla að setja ísbjörn í HÚSDÝRA(!)garðinn.“ Þessum nýja straumi var fjarskavel tekið. Í kjölsogi hans komst minn flokkur víst til áhrifa í höfuðborginni – eða svo er sagt.

Í framkvæmdinni eftir kosningar gætti einnig áhrifa þessa nýja straums í stjórnmálalífi þjóðarinnar. A.m.k. um sumt. „Lord Mayor of Reykjavík“ skrýddist lokkaprúðri hárkollu, háhæluðum skóm, dragkjól, skar skegg sitt, farðaði kinnar sínar, augu, varir og neglur, lét setja sig upp á vagn og bað, að sögn fjölmiðla, borgarfulltrúa að ganga eftir vagninum í gæsagangi. Narr – eða alvara? Hver veit?

Þegar nýjar stefnur og straumar ná miklum áhrifum eru þær gjarna kenndar við skapara sína. Sbr. Kalvínismi í trúarbrögðum, Darwinismi í vísindum – nú eða Marxismi í stjórnmálum. Þykir fólki fremur felast heiður en vansæmd að slíku. Að kenna sköpunina við skapara sinn. Það fer þá ekki á milli mála hvað um er rætt. Allir vita hvað Marxismi er, flestir hvað Darwinismi er – og talsvert margir hvað Kalvínismi er. Þarf ekki um það fleiri orðum að fara.

Því þykir mér vel til fundið að kenna hina nýju stefnu og strauma, sem svo miklum hljómgrunni hefur náð meðal okkar Íslendinga, við skapara sinn. Tala um (G)narrisma og að verið sé að (G)narrast með fólk þegar enginn getur vitað hvort verið er að ræða málin í alvöru eða gríni. Eða getur miðborgarstjórinn fundið á því betri, sannari og meira lýsandi nafngift?

Nú bið ég lesendur að misskilja mig ekki. Ég er ekki að (G)narrast með þá. Þvert á móti. Skrifa þetta í fullri alvöru. Nema hvað!




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×