Lífið

Varnartröll úr FH í lampagerð

Hannar eigin lampa Sverrir og Ingvar Björn með lampana nýstárlegu sem bjóða fólki upp á þann valkost að hanna sinn eigin með mynd. Sverrir segir þá þegar hafa selt fimmtán slíka lampa.Fréttablaðið/Pjetur
Hannar eigin lampa Sverrir og Ingvar Björn með lampana nýstárlegu sem bjóða fólki upp á þann valkost að hanna sinn eigin með mynd. Sverrir segir þá þegar hafa selt fimmtán slíka lampa.Fréttablaðið/Pjetur
Sverrir Garðarsson sleit liðþófa og hefur verið frá keppni í fótbolta í sumar. Meðan hann jafnar sig á meiðslunum framleiðir hann lampa með félaga sínum.

Sverrir Garðarsson, varnartröll úr FH, hefur verið frá knattspyrnuvellinum í allt sumar vegna meiðsla og hefur fyrir vikið beint kröftum sínum í aðra átt. Hann er nú farinn að framleiða nýstárlega lampa með félaga sínum, Ingvari Birni Þorsteinssyni, nema í vöruhönnun við Listaháskólann og hönnuði lampans. Sverrir segir þetta einungis fyrstu línuna hjá þeim félögum, þeir ætli sér meira í náinni framtíð. Lampinn var til sýnis á einni stærstu hönnunarsýningu í heimi í Stokkhólmi í fyrra og fékk góðar viðtökur.

Sverrir sleit liðþófa í upphafi sumarsins og í uppskurði kom í ljós að hann var með brjóskskemmdir í hnénu. Hann er nú í stífri endurhæfingu, sem hann segir að gangi mjög vel. „Ég er ekkert búinn að leggja skóna á hilluna þótt margir spyrji mig þeirrar spurningar. Ég vakna á hverjum degi og geri hnéæfingar.“

Þeir félagar eru þegar komnir með hönnunarvernd fyrir lampann í Evrópu og Ísland en ætla sér að fara hægt í sakirnar, sígandi lukka sé best. „Hins vegar hafa allir sem hafa fengið lampa verið mjög ánægðir og við höfum átt fundi með fyrirtækjum sem hefur litist mjög vel á hann,“ útskýrir Sverrir, en þeir hafa nú þegar selt fimmtán lampa.

„Maður er alltaf að læra í þessum bransa og við stefnum núna á að gera góða vefsíðu og vinna með rétta fólkinu.“ Þeir sem hafa áhuga að kynna sér lampana enn frekar geta farið á vefsíðuna switchlight.is en hluti af sölu lampanna rennur til styrktar Krabbameinsfélaginu.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.