Skoðun

Á hverju ætlið þið þá að lifa? Háskólagráðum?

Eyþór Jóvinsson skrifar
Pawel Bartoszek skrifar pistil í Fréttablaðið 7. október af svo mikilli fáfræði að það er leitun að öðru eins. Pistillinn ber nafnið „Óbyggðastefna“ sem er sannkallað réttnefni, því þar boðar hann mikla óbyggðastefnu.

Hann furðar sig á því af hverju landsmenn vilji alltaf vera að komast frá landsbyggðinni. Hann telur skynsamlegra að nota peninginn í skólamál, frekar en vegaframkvæmdir á landsbyggðinni.

Í pistli sínum segir hann meðal annars orðrétt: „En þegar góðar samgöngur eru orðnar sterkasti kostur staðar er í raun verið að segja: „Staðurinn sjálfur er ekkert spes en það má auðveldlega komast frá honum í annan stað sem er skárri.“ Og þá fara menn að spyrja sig: „Væri þá ekki einfaldara að flytja bara á þann stað?““

Nokkuð dæmigert sjónarhorn frá borgarbúa. Heldur að samgöngur séu aðeins til þess gerðar svo landsbyggðarpakkið geti farið í ferðalög.

Setjum þetta nú aðeins í stærra samhengi, samhengi sem jafnvel Pawel getur áttað sig á. Ég reikna fastlega með að hann sé búsettur í Reykjavík. Þar vill hann vera og hefur ekkert að sækja út fyrir borgina.

En hvernig ætli lífið í Reykjavík væri ef flug og sjósamgöngur út í heim myndu leggjast af? Tja, já og bara ef að samgöngur út á land myndu leggjast af – er Reykjavík sjálfri sér nóg?

Útfutningur myndi leggjast af og þar með stærstu atvinnugreinar Íslands, ferðamenn myndu heyra sögunni til, bensín myndi verða ófáanlegt, og já ekki veit ég til þess að það sé mikið um búfénað eða matvælaræktun í Reykjavík.

Á hverju ætlið þið þá að lifa? Háskólagráðum?

Ef Pawel er ósáttur við að fá hvorki vörur eða þjónustu frá öðrum löndum, já eða landsbyggðinni, þá myndi hann bara flytja á annan stað. – Svo einfalt er það! En ég spyr, hvert ætlar hann að flytja? Hvaða samfélag er ekki háð góðum samgöngum?

Góðar samgöngur eru forsenda þess að samfélög lifi af, hvort sem það er Patreksfjörður, Reykjavík eða New York.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×