Lífið

Frægasti guðfræðinemi landsins loks útskrifaður

20 ára bið lokið Davíð Þór Jónsson gekk inn í Háskóla Íslands og hugðist læra íslensku. Hann rakst hins vegar á bækling um guðfræðinámið og tuttugu árum seinna er hann formlega orðinn guðfræðingur eða cand.theol.Fréttablaðið/stefán
20 ára bið lokið Davíð Þór Jónsson gekk inn í Háskóla Íslands og hugðist læra íslensku. Hann rakst hins vegar á bækling um guðfræðinámið og tuttugu árum seinna er hann formlega orðinn guðfræðingur eða cand.theol.Fréttablaðið/stefán
„Það var engin athöfn, ég hef haft góðan tíma til að venjast þessu,“ segir Davíð Þór Jónsson sem varð í gær formlega guðfræðingur eða cand.theol. Davíð, sem hóf nám við guðfræðideildina fyrir tveimur áratugum, bjóst einna helst við að baka skúffuköku og hella upp á kaffi fyrir nánustu fjölskylduna þegar tími til slíks gæfist.

Að gefnu tilefni er hins vegar rétt að taka fram að Davíð hefur ekki verið við nám í guðfræðideildinni allan þennan tíma heldur sinnti hann öðrum störfum en guðfræðibókunum í rúm þrettán ár. Davíð var meðal annars ritstjóri hins erótíska tímarits Bleikt og blátt, stjórnaði útvarps- og sjónvarpsþáttum, var bæði spyrill og dómari í Gettu betur og annar hluti tvíeykisins Radíus-bræður.

Davíð nýtti sumarið til að skrifa meistararitgerðina sem heitir því lítilláta nafni Satan og híbýli hans í boðskap Jesú frá Nasaret. Cand.theol-titillinn hefur því legið lengi í loftinu. „Þetta var svona „anti-climax því núna er maður bara kominn út á vinnumarkaðinn að leita sér að vinnu.“ Davíð hefur fullan hug á því að fara í prestskapinn en er ekkert ýkja bjartsýnn á að það losni brauð á næstu tveimur til þremur árum. „En ef það losnar eitthvað sem ég hef áhuga á að þjóna þá auðvitað sækir maður um.“

Tilviljun ein réð því að Davíð hóf nám við guðfræðideild Háskóla Íslands og hann ætlaði sér upphaflega aldrei að verða prestur.

„Ég byrjaði í náminu af því ég vildi hætta sjómennsku og vera hjá fjölskyldunni. Ég ætlaði upphaflega að fara í íslensku en rakst á einhvern bækling og þar var námið í guðfræðinni á fremstu síðunum og mér fannst fögin líta út fyrir ákaflega skemmtileg. Ég fékk hins vegar enga köllun heldur kynntist prestunum í náminu og varð smátt og smátt heillaður af starfinu. Það leggur heldur enginn á sig meistaragráðu í fagi sem hann hefur engan áhuga á að starfa við.“

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.