Tónlist

Fersk hljómsveit eftir átta ára hvíld

Löng töf á enda Náttfari gefur út fyrstu plötu sína á morgun, ellefu árum eftir að sveitin var stofnuð. Frá vinstri eru Nói, Ólafur, Andri og Haraldur.
Löng töf á enda Náttfari gefur út fyrstu plötu sína á morgun, ellefu árum eftir að sveitin var stofnuð. Frá vinstri eru Nói, Ólafur, Andri og Haraldur.
Fyrsta plata hljómsveitarinnar Náttfara kemur út á morgun, en sveitin var endurvakin í fyrra eftir átta ára pásu. Trommari Náttfara segir að frelsun hafi verið fólgin í því að taka upp gömlu lögin á ný.

„Það var búið að vera í deiglunni í nokkur ár að klára þetta. Þegar menn fóru svo að spila saman aftur fékk maður áhugann á þessu aftur. Þó að lögin séu í sumum tilvikum 8-9 ára gömul finnst mér þau nokkuð fersk,“ segir Nói Steinn Einarsson, trommari Náttfara. Fyrsta plata hljómsveitarinnar, Töf, kemur út á morgun og liðsmenn sveitarinnar fagna útgáfunni með teiti á Dillon í kvöld.

Náttfari leit dagsins ljós árið 2000 og sveitin var áberandi í tónleikahaldi næstu misserin á eftir. Hún lagðist svo í dvala árið 2003. „Það var engin gífurleg dramatík í þessu, menn sneru sér bara að öðru. Við Andri fórum í Leaves og Halli fór í nám,“ segir Nói. Náttfari tók aftur upp þráðinn í fyrra við tónleikahald og upptökur en afrakstur þeirra lítur nú dagsins ljós. Auk Nóa skipa sveitina Andri Ásgrímsson, Haraldur Þorsteinsson og Ólafur Josephson.

Nói segir að það hafi verið góð tilfinning að ljúka loks upptökum á gömlu lögunum.

„Við þrír upprunalegu meðlimirnir erum búnir að vera góðir vinir í mörg ár og þetta hefur legið svolítið á okkur. Nú erum við búnir að hreinsa þetta út af borðinu og það er ákveðin frelsun að hafa gert það. Það er góð stemning í bandinu og við getum farið að vinna í nýju efni.“

Náttfari var hluti af mikilli síðrokksbylgju sem gekk yfir í byrjun aldarinnar. Nói er spurður að því hvort það sé ekki svolítil tímaskekkja að spila og gefa út síðrokk í dag.

„Ég veit það ekki, kannski erum við bara alveg út úr kú,“ segir hann og hlær. „Ég held að áhrif frá síðrokki séu enn til staðar þó að þessi bylgja sé ekki eins stór og hún var. Sigur Rós er í grunninn síðrokksband og ef maður lítur á sumar af þessum ungu sveitum í dag, Míri, Sudden Weather Change, Nolo og fleiri, þá lifir þetta enn að einhverju leyti í þeim.“

Nói og félagar halda útgáfuhóf á Dillon á Laugavegi í kvöld þar sem platan verður til sölu. Hófið hefst klukkan 19 og stendur til 22. „Platan verður á fóninum og svo ætlum við að spila nokkur lög,“ segir Nói að endingu. Fram undan eru síðan tónleikar á Faktorý 3. nóvember ásamt Feldberg, auk þess sem sveitin hefur bókað sig á Bakkus og Gauk á Stöng í nóvember. Þá er ráðgert að halda útgáfutónleika þegar líður að jólum.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.