Tónlist

Silkimjúkur sólóferill

Rapparinn hefur gefið út sína níundu plötu og nefnist hún The Dreamer, The Believer. nordicphotos/getty
Rapparinn hefur gefið út sína níundu plötu og nefnist hún The Dreamer, The Believer. nordicphotos/getty
Bandaríski rapparinn og leikarinn Common hefur gefið út sína níundu hljóðversplötu. Endurminningar hans eru einnig nýkomnar út þar sem hann skrifar um sambandið við móður sína.

Níunda hljóðversplata hins silkimjúka bandaríska rappara og leikara Common, The Dreamer, The Believer, er komin út.

Common heitir réttu nafni Lonnie Rashid Lynn Jr. og fæddist í Chicago árið 1972. Pabbi hans var kennari en spilaði áður í ABA-deildinni í körfubolta sem rann síðar meir saman við NBA-deildina. Hann skildi við mömmu Common þegar hann var sex ára og ólst rapparinn því upp hjá mömmu sinni.

Í skóla stofnaði Common tríóið C.D.R. sem síðar meir hitaði upp fyrir rappsveitina NWA og því kom fáum á óvart þegar hann ákvað að leggja tónlistina fyrir sig. Sólóferillinn hófst undir nafninu Common Sense með plötunni Can I Borrow a Dollar? árið 1992.

Smáskífulagið Take It EZ náði vinsældum hjá rappáhugamönnum og vegur hans jókst með útgáfu næstu sólóplötu, Resurrection, sem kom út tveimur árum síðar.

Common Sense þurfti að stytta nafnið sitt í Common eftir að reggíhljómsveit frá Los Angeles með saman nafni kvartaði yfir nafngiftinni. Fyrsta platan hans undir nýja nafninu, One Day It"ll All Make Sense, kom út 1997. Þar voru Lauryn Hill, Erykah Badu og De La Soul gestir og í þetta sinn breytti Common um stefnu og hætti í bófarappinu, enda orðinn ábyrgðarfullur faðir.

Næst gekk Common til liðs við Soulquarian ásamt J. Dilla, D"Angelo og ?uestlove og átti þessi rapphópur stóran þátt í næstu tveimur plötum Common. Önnur þeirra, Like Water for Chocolate, náði gullsölu. Common breytti um stíl fyrir næstu útgáfu, Electric Circus, þar sem elektrónísk tónlist og rokkkom við sögu og lagið Love of My Live með Erykah Badu vann Grammy-verðlaunin.

Eftir að hafa aðstoðað Kanye West á fyrstu plötu hans endurgalt West honum greiðann og aðstoðaði Common við upptökur á Be sem kom út 2005 og fékk fjórar Grammy-tilnefningar. West kom einnig við sögu á Finding Forever frá 2007 sem fór beint í efsta sæti Billboard-listans. Ári síðar kom út Universal Mind Control þar sem The Neptunes sáu um upptökustjórn og teknóið var í fyrirrúmi.

Á nýju plötunni fékk Common aðstoð frá upptökustjóranum No I.D., og þar er meiri áhersla lögð á hip hop af gamla skólanum. The Independent gefur henni fullt hús, eða fimm stjörnur, Paste Magazine 8,1 af 10 og Rolling Stone gefur plötunni þrjár stjörnur af fimm.

Undanfarin ár Common hefur verið að færa sig upp á skaftið í leiklistinni og hefur undanfarin ár leikið í myndum á borð við Smokin" Aces, Wanted, Terminator Salvation og Date Night.

Í september síðastliðnum gaf hann svo út endurminningar sínar, One Day It"ll All Make Sense. Þar leggur hann áherslu á náið samband sitt við móður sína.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.