Ríkið fer „all in“ Magnús Halldórsson skrifar 24. apríl 2012 09:52 Eitt af því sem olli miklum breytingum í íslenskum húsnæðislánamarkaði, sem að lokum kallaði fjárhagslegar hörmungar yfir tugþúsundir heimila, var of mikil skuldsetning við kaup eða byggingu fasteigna. Þannig hófu bankarnir árið 2004 að veita 100 prósent verðtryggð húsnæðislán til fjölskyldna, þrátt fyrir afar slæma verðbólgusögu íslenska hagkerfisins. Til þess að gera langa sögu stutta þá leiddu þessar lánveitingar marga í skuldafen sem erfitt er að komast upp úr. Lærdómurinn sem ríkið, og bankarnir raunar líka, hafa dregið af þessu er að forðast of mikla skuldsetningu og setja reglur þar um við lánveitingar. Þannig getur Íbúðalánasjóður ekki lánað einstaklingum meira en 80 prósent lán og bankarnir hafa sömuleiðis hert á sínum reglum hvað þetta varðar, en Landsbankinn veitir þó 85 prósent lán vegna kaupa á fyrstu íbúð. Með öðrum orðum, þá hefur áherslan verið sú að gera lánveitingar öruggari, gera kröfu um að lánveitandinn eigi eitthvað fé fyrir til þess að takmarka áhættu bæði lántaka og lánveitenda. I. Íslenska ríkið er núna með í undirbúningi að taka 100 prósent verðtryggt húsnæðislán upp á 50 til 60 milljarða króna og nota fjármunina (Lífeyrissjóðirnir líklega, surprise, surprise) í að byggja nýjan spítala. Engir peningar eru til í ríkiskassanum og því verður ríkið að taka verðtryggt lán fyrir þessari næst dýrustu framkvæmd Íslandssögunnar að öllu leyti. Umræða um þessa byggingu hefur verið þó nokkur, en þó ekki meiri en ætla mætti varðandi fjármögnun verkefnisins, ekki síst í ljósi fjárhagsstöðu ríkisins. Næst stærsti útgjaldaliður ríkisins er fjármagnskostnaður en samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 var áætlaður fjármagnskostnaður 78,4 milljarðar á þessu ári, meira en sem nemur heildarútgjöldum allra undirliða mennta- og menningarmálaráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins samanlagt. Heildarútgjöld ríkisins voru áætluð 539,1 milljarður (sjá nánar hér).II. Eftir hrunið hefur fjárhagur landspítalans verið þrengdur mikið, sökum þeirrar skuldastöðu sem að framan greinir. Stjórnendur spítalans hafa unnið þrekvirki, án þess að kvarta mikið, við að halda uppi góðri heilbrigðisþjónustu við þröngan kost. Björn Zoega, forstjóri Landspítalans, og hans fólk á hrós skilið fyrir hvernig haldið hefur verið á spöðunum, og mun sagan dæma þetta sem afrek, að því er ég held.III. Ég á erfitt með sjá hvernig ríkið hefur efni á því að taka þetta 100 prósent verðtryggða húsnæðislán í ljósi erfiðrar skuldastöðu ríkissjóðs. Það merkilega er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki mikið greint þetta í opinberum skýrslum og hvaða áhrif þetta getur haft á ríkissjóð í ljósi þessa viðbótarfjármagnskostnaðar. Samt hefur sjóðurinn haft skoðun á mun vegaminni þáttum. Vonandi eru starfsmenn AGS hér á landi, sem hafa pólitísk tengsl við stjórnvöld, einkum Samfylkinguna, ekki að láta þau trufla kalt mat á því hvort þetta er skynsamlegt fyrir ríkissjóð í ljósi stöðu hans. AGS hefur þó lagt það til að ríkið skeri meira niður í rekstri, um hálft prósent af landsframleiðslu, eða sem nemur rúmum 8 milljörðum, til þess að ráða betur við skuldastöðuna og fjármagnskostnaðinn.IV. Þá er líka mikilvægt að viðhorf lækna og heildbrigðisstarfsstétta vegi ekki þyngst þegar kemur að lokaákvörðunum um þessi mál. Því miður er líklegt að þau séu litið af því hvað það verður gott að fá glæsilegustu starfsaðstæður Evrópu. Það sama á við um verkfræðistofur, arkitekta, verktaka og aðra sérhagsmunahópa, s.s. er varðar skipulagsþátt málsins.V. Það er heldur ekki traustvekjandi að ríkið skuli ætla að fara grísku leiðina þegar kemur að þessum spítala, það er að binda fjárhagslegar skuldbindingar er tengjast þessari framkvæmd í opinberu hlutafélagi (NLSH), utan efnahagsreiknings ríkisins, þrátt fyrir að skuldbindingarnar séu óumflýjanlega ríkisins. Guðbjartur Hannesson velferðarráðhetta lét hafa eftir sér í viðtali fyrir nokkru, að þetta kæmi ekki beint við rekstur ríkisins vegna þessa fyrirkomulags, en vonandi voru það bara mismæli.VI. Það er heldur ekki traustvekjandi að þeir sem aðkomu hafa að verkefninu frá ýmsum hliðum hafa áður gerst sekir um ævintýralega fjárhagslega óstjórn í opinberum fjármálum, borgarfulltrúar sem rústuðu fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur og síðan Gunnar Svavarsson, sem er stjórnarformaður NLSH. Hann var bæjarfulltrúi meirihlutans í Hafnarfirði þegar teknar voru alrangar ákvarðanir um ótrúlegar milljarða lántökur í erlendri mynt, þó lögbundið sé að sveitarfélög geti aðeins haft tekjur í krónum. Fyrir þessum ákvörðunum eru engar gildar afsakanir sýnist mér, allra síst að Hafnarfjörður hafi orðið 100 ára 2008, þegar hluti lána var tekinn. Þá skiptir heldur ekki máli þó bæjarfulltrúar annars staðar hafi gert slíkt hið sama. Að auki kemur það nokkuð á óvart í ljósi augljósra tengsla Gunnars við Samfylkinguna, sem fyrrum þingmaður og trúnaðarmaður til margra ára, að hann hafi fengið þetta ábyrgðarmikla starf. Vonandi var þetta ekki spillt pólitísk ráðning. Í mínum vina- og kunningjahópi er fólk sem hægt er að tengja við alla flokka, held ég að sé óhætt að segja, en um leið og talið berst að pólitískum ráðningum, þar sem fagleg sjónarmið eingöngu ættu að ráða för, þá fórnar fólk höndum og fellir niður allar flokkslínur. Þær eru það óþolandi og algjörlega óverjandi, sérstaklega núna þegar traustið á stjórnmálamönnum er í sögulegu lágmarki og yfir tólf þúsund manns eru án vinnu. Þetta er ekki illa meint gagnvart Gunnari, sem er vafalítið hæfur maður að mörgu leyti eins og mjög margir aðrir, heldur er þetta eitthvað sem mér finnst að ræða þurfi um.VII. Stóra spurningin þegar að þessu kemur, í ljósi þess að byggingin verður fjármögnuð 100 prósent með verðtryggðu lánsfé, er hversu mikil verðbólgan verður á tímanum sem lánsféð verður greitt til baka. Hversu mikil má verðbólgan vera, svo að hagræðingin af því að byggja spítalann og færa starfsemina í hann, étist ekki upp með háum fjármagnskostnaði? Nákvæmlega hver eru verðbólguþolmörkin? Ég geri ráð fyrir að allir þingmenn, borgarfulltrúar og aðrir sem að lokaákvörðunum koma hafi fengið nákvæmar upplýsingar um þetta í hendur, þó ég finni þær ekki í opinberum gögnum um spítalann. Mat sérfræðinga, ekki síst í Noregi, sýnir að þessi mál eru flókin og erfið. Hagræðingin af byggingunni virðist vera fyrir hendi, en talið er að hún vegi yfir tvo milljarða á ári, miðað við óbreytt ástand, ekki síst vegna þess að viðhald landspítalans er í molum. Það sem vantar eru nákvæmar sviðsmyndir af því hver fjármagnskostnaðurinn gæti verið miðað við verðbólgu, en ekki aðeins fasta samningsbundna vexti. Mér finnst að eigi að teikna upp hver sé endurgreiðslutíminn á byggingunni með hagræðinguna í huga, út frá gefinni verðbólgu. Verðbólgusagan íslenska er ekki sérstaklega hagstæð, og áætlanir um kostnað standast oft ekki heldur. Kostnaður reynist meiri en reiknað var með, samanber skandalinn við húsbyggingu höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur, annað risahýsi í Reykjavík, þar sem milljörðum af skattfé var eytt umfram það sem áætlað var. Með öðrum orðum; Hversu mikið má kostnaðurinn fara fram úr áætlun þannig að hagræðingin étist ekki upp og hversu mikil má verðbólgan vera svo það sama gerist ekki?VIII. Það skal tekið fram að ég hef ekkert á móti þessari byggingu að grunni til, og mér sýnist, af lestri gagna um hana, að þetta sé skynsamleg framkvæmd til framtíðar litið, í það minnsta skynsamleg útfærsla á henni. Það á hins vegar við um margar þjóðhagslega arðbærar framkvæmdir, t.d. styttingu vega og samgöngubætur, ekki síst í ljósi þess að olíuverð er af erlendum sérfræðingum sagt vera í þrepahækkunarferli, aðallega vegna fjölgunar mannkyns og að það gengur hratt á olíubirgðir. Þannig eru nú skrifaðar greinar í fagtímarit um efnahagsmál að tímapunkturinn fyrir samgöngubætur sé góður núna, og að samkeppnishæfni þjóða sem hafi góðar samgöngur gæti aukist nokkuð hratt á kostnað þeirra þjóða sem hafa lakari samgöngukerfi í framtíðinni.IX. Allt stendur og fellur með því að það séu til peningar fyrir framkvæmdum, og vaxtakostnaði sé haldið í skefjum. Hann er alltof mikill núna, og raunar með ólíkindum að það sé ekki meiri umræða um hann þegar kemur að rekstri ríkisins. Frekari skuldsetning er á kostnað komandi kynslóða og felur í sér skerðingu á opinberri þjónustu fyrir hana, og fífldjarfar ákvarðanir um 100 prósent verðtryggt húsnæðislán upp á tugi milljarða, virðast ekki rýmast innan þessarar stöðu, eins og þetta horfir við mér.X. Ef að ríkissjóður væri skuldlaus er staðan allt önnur og betri, og þá koma hagræðingaráhrifin, sem ágætlega er fjallað um í skýrslum um nýjan spítala, sannarlega fram og það fljótt og vel. Þá er kostnaðurinn viðráðanlegri og gæti orðið margfalt minni heldur en 100 prósent skuldsett bygging með verðtryggðu láni yrði þegar öll kurl væru komin til grafar. Af þessum ástæðum er þessi bygging risastórt efnahagslegt mál, ekki síður en heilbrigðismál. Um leið og hún felur í sér breytingu á heilbrigðisþjónustu á landsvísu, þegar hún verður risin, mun hún líka verða mikil fjárhagsleg byrði fyrir komandi kynslóðir vegna þess að hún verður byggð að öllu leyti með lánsfé. Pólitískt hefur mér sýnst vera nokkuð breið samastaða um þessa byggingu, jafnvel þó Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagst alfarið gegn byggingunni í landsfundarályktun á síðasta landsfundi. Hún hefur ekki farið hátt, en hljómar svona: „Landsfundur telur mikilvægt að bæta aðstöðu Landspítalans. Í ljósi efnahagsástandsins telur landsfundur þó fyrirliggjandi hugmyndir um nýbyggingu ótímabærar. Höfuðáherslu ber að leggja á grunnrekstur heilbrigðisstofnana um allt land." Í ljósi sögunnar verður aldrei of varlega farið í fjármálum hins opinbera og það ætti að vera tilefni fyrir fjölmiðla til þess að efast í hvert skipti sem ríkið fer „all in" í skuldsetningu, og efna til umræðu um allar hliðar mála. Þessum pistli er ætlað að gera það. Efinn á ekki síst við um þetta, þar sem stjórnvöld hafa hert ólina þegar kemur að lánum til húsnæðiskaupa og bygginga og sent út skýr skilaboð með lögum og reglum um að fólk megi ekki skuldsetja sig um of. Það sama hlýtur að gilda um sameiginlegan sjóð fólksins, ríkissjóð, sérstaklega þegar fjármagnskostnaður er næst stærsti útgjaldaliðurinn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Halldórsson Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Viðreisn er Samfylkingin Júlíus Viggó Ólafsson Skoðun Hugsjónir ójafnaðarmanns - svar við bréfi Kára Snorri Másson Skoðun Er skynsemi Sigmundar Davíðs o.fl. skynsamleg? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sjálfskaparvíti Samfylkingar og Viðreisnar Birta Karen Tryggvadóttir Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun Þarf Ábyrg framtíð 14,1% til að komast í kappræður Heimildarinnar? Jóhannes Loftsson Skoðun Er heilbrigði besta lausnin? Lukka Pálsdóttir Skoðun
Eitt af því sem olli miklum breytingum í íslenskum húsnæðislánamarkaði, sem að lokum kallaði fjárhagslegar hörmungar yfir tugþúsundir heimila, var of mikil skuldsetning við kaup eða byggingu fasteigna. Þannig hófu bankarnir árið 2004 að veita 100 prósent verðtryggð húsnæðislán til fjölskyldna, þrátt fyrir afar slæma verðbólgusögu íslenska hagkerfisins. Til þess að gera langa sögu stutta þá leiddu þessar lánveitingar marga í skuldafen sem erfitt er að komast upp úr. Lærdómurinn sem ríkið, og bankarnir raunar líka, hafa dregið af þessu er að forðast of mikla skuldsetningu og setja reglur þar um við lánveitingar. Þannig getur Íbúðalánasjóður ekki lánað einstaklingum meira en 80 prósent lán og bankarnir hafa sömuleiðis hert á sínum reglum hvað þetta varðar, en Landsbankinn veitir þó 85 prósent lán vegna kaupa á fyrstu íbúð. Með öðrum orðum, þá hefur áherslan verið sú að gera lánveitingar öruggari, gera kröfu um að lánveitandinn eigi eitthvað fé fyrir til þess að takmarka áhættu bæði lántaka og lánveitenda. I. Íslenska ríkið er núna með í undirbúningi að taka 100 prósent verðtryggt húsnæðislán upp á 50 til 60 milljarða króna og nota fjármunina (Lífeyrissjóðirnir líklega, surprise, surprise) í að byggja nýjan spítala. Engir peningar eru til í ríkiskassanum og því verður ríkið að taka verðtryggt lán fyrir þessari næst dýrustu framkvæmd Íslandssögunnar að öllu leyti. Umræða um þessa byggingu hefur verið þó nokkur, en þó ekki meiri en ætla mætti varðandi fjármögnun verkefnisins, ekki síst í ljósi fjárhagsstöðu ríkisins. Næst stærsti útgjaldaliður ríkisins er fjármagnskostnaður en samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 var áætlaður fjármagnskostnaður 78,4 milljarðar á þessu ári, meira en sem nemur heildarútgjöldum allra undirliða mennta- og menningarmálaráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins samanlagt. Heildarútgjöld ríkisins voru áætluð 539,1 milljarður (sjá nánar hér).II. Eftir hrunið hefur fjárhagur landspítalans verið þrengdur mikið, sökum þeirrar skuldastöðu sem að framan greinir. Stjórnendur spítalans hafa unnið þrekvirki, án þess að kvarta mikið, við að halda uppi góðri heilbrigðisþjónustu við þröngan kost. Björn Zoega, forstjóri Landspítalans, og hans fólk á hrós skilið fyrir hvernig haldið hefur verið á spöðunum, og mun sagan dæma þetta sem afrek, að því er ég held.III. Ég á erfitt með sjá hvernig ríkið hefur efni á því að taka þetta 100 prósent verðtryggða húsnæðislán í ljósi erfiðrar skuldastöðu ríkissjóðs. Það merkilega er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki mikið greint þetta í opinberum skýrslum og hvaða áhrif þetta getur haft á ríkissjóð í ljósi þessa viðbótarfjármagnskostnaðar. Samt hefur sjóðurinn haft skoðun á mun vegaminni þáttum. Vonandi eru starfsmenn AGS hér á landi, sem hafa pólitísk tengsl við stjórnvöld, einkum Samfylkinguna, ekki að láta þau trufla kalt mat á því hvort þetta er skynsamlegt fyrir ríkissjóð í ljósi stöðu hans. AGS hefur þó lagt það til að ríkið skeri meira niður í rekstri, um hálft prósent af landsframleiðslu, eða sem nemur rúmum 8 milljörðum, til þess að ráða betur við skuldastöðuna og fjármagnskostnaðinn.IV. Þá er líka mikilvægt að viðhorf lækna og heildbrigðisstarfsstétta vegi ekki þyngst þegar kemur að lokaákvörðunum um þessi mál. Því miður er líklegt að þau séu litið af því hvað það verður gott að fá glæsilegustu starfsaðstæður Evrópu. Það sama á við um verkfræðistofur, arkitekta, verktaka og aðra sérhagsmunahópa, s.s. er varðar skipulagsþátt málsins.V. Það er heldur ekki traustvekjandi að ríkið skuli ætla að fara grísku leiðina þegar kemur að þessum spítala, það er að binda fjárhagslegar skuldbindingar er tengjast þessari framkvæmd í opinberu hlutafélagi (NLSH), utan efnahagsreiknings ríkisins, þrátt fyrir að skuldbindingarnar séu óumflýjanlega ríkisins. Guðbjartur Hannesson velferðarráðhetta lét hafa eftir sér í viðtali fyrir nokkru, að þetta kæmi ekki beint við rekstur ríkisins vegna þessa fyrirkomulags, en vonandi voru það bara mismæli.VI. Það er heldur ekki traustvekjandi að þeir sem aðkomu hafa að verkefninu frá ýmsum hliðum hafa áður gerst sekir um ævintýralega fjárhagslega óstjórn í opinberum fjármálum, borgarfulltrúar sem rústuðu fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur og síðan Gunnar Svavarsson, sem er stjórnarformaður NLSH. Hann var bæjarfulltrúi meirihlutans í Hafnarfirði þegar teknar voru alrangar ákvarðanir um ótrúlegar milljarða lántökur í erlendri mynt, þó lögbundið sé að sveitarfélög geti aðeins haft tekjur í krónum. Fyrir þessum ákvörðunum eru engar gildar afsakanir sýnist mér, allra síst að Hafnarfjörður hafi orðið 100 ára 2008, þegar hluti lána var tekinn. Þá skiptir heldur ekki máli þó bæjarfulltrúar annars staðar hafi gert slíkt hið sama. Að auki kemur það nokkuð á óvart í ljósi augljósra tengsla Gunnars við Samfylkinguna, sem fyrrum þingmaður og trúnaðarmaður til margra ára, að hann hafi fengið þetta ábyrgðarmikla starf. Vonandi var þetta ekki spillt pólitísk ráðning. Í mínum vina- og kunningjahópi er fólk sem hægt er að tengja við alla flokka, held ég að sé óhætt að segja, en um leið og talið berst að pólitískum ráðningum, þar sem fagleg sjónarmið eingöngu ættu að ráða för, þá fórnar fólk höndum og fellir niður allar flokkslínur. Þær eru það óþolandi og algjörlega óverjandi, sérstaklega núna þegar traustið á stjórnmálamönnum er í sögulegu lágmarki og yfir tólf þúsund manns eru án vinnu. Þetta er ekki illa meint gagnvart Gunnari, sem er vafalítið hæfur maður að mörgu leyti eins og mjög margir aðrir, heldur er þetta eitthvað sem mér finnst að ræða þurfi um.VII. Stóra spurningin þegar að þessu kemur, í ljósi þess að byggingin verður fjármögnuð 100 prósent með verðtryggðu lánsfé, er hversu mikil verðbólgan verður á tímanum sem lánsféð verður greitt til baka. Hversu mikil má verðbólgan vera, svo að hagræðingin af því að byggja spítalann og færa starfsemina í hann, étist ekki upp með háum fjármagnskostnaði? Nákvæmlega hver eru verðbólguþolmörkin? Ég geri ráð fyrir að allir þingmenn, borgarfulltrúar og aðrir sem að lokaákvörðunum koma hafi fengið nákvæmar upplýsingar um þetta í hendur, þó ég finni þær ekki í opinberum gögnum um spítalann. Mat sérfræðinga, ekki síst í Noregi, sýnir að þessi mál eru flókin og erfið. Hagræðingin af byggingunni virðist vera fyrir hendi, en talið er að hún vegi yfir tvo milljarða á ári, miðað við óbreytt ástand, ekki síst vegna þess að viðhald landspítalans er í molum. Það sem vantar eru nákvæmar sviðsmyndir af því hver fjármagnskostnaðurinn gæti verið miðað við verðbólgu, en ekki aðeins fasta samningsbundna vexti. Mér finnst að eigi að teikna upp hver sé endurgreiðslutíminn á byggingunni með hagræðinguna í huga, út frá gefinni verðbólgu. Verðbólgusagan íslenska er ekki sérstaklega hagstæð, og áætlanir um kostnað standast oft ekki heldur. Kostnaður reynist meiri en reiknað var með, samanber skandalinn við húsbyggingu höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur, annað risahýsi í Reykjavík, þar sem milljörðum af skattfé var eytt umfram það sem áætlað var. Með öðrum orðum; Hversu mikið má kostnaðurinn fara fram úr áætlun þannig að hagræðingin étist ekki upp og hversu mikil má verðbólgan vera svo það sama gerist ekki?VIII. Það skal tekið fram að ég hef ekkert á móti þessari byggingu að grunni til, og mér sýnist, af lestri gagna um hana, að þetta sé skynsamleg framkvæmd til framtíðar litið, í það minnsta skynsamleg útfærsla á henni. Það á hins vegar við um margar þjóðhagslega arðbærar framkvæmdir, t.d. styttingu vega og samgöngubætur, ekki síst í ljósi þess að olíuverð er af erlendum sérfræðingum sagt vera í þrepahækkunarferli, aðallega vegna fjölgunar mannkyns og að það gengur hratt á olíubirgðir. Þannig eru nú skrifaðar greinar í fagtímarit um efnahagsmál að tímapunkturinn fyrir samgöngubætur sé góður núna, og að samkeppnishæfni þjóða sem hafi góðar samgöngur gæti aukist nokkuð hratt á kostnað þeirra þjóða sem hafa lakari samgöngukerfi í framtíðinni.IX. Allt stendur og fellur með því að það séu til peningar fyrir framkvæmdum, og vaxtakostnaði sé haldið í skefjum. Hann er alltof mikill núna, og raunar með ólíkindum að það sé ekki meiri umræða um hann þegar kemur að rekstri ríkisins. Frekari skuldsetning er á kostnað komandi kynslóða og felur í sér skerðingu á opinberri þjónustu fyrir hana, og fífldjarfar ákvarðanir um 100 prósent verðtryggt húsnæðislán upp á tugi milljarða, virðast ekki rýmast innan þessarar stöðu, eins og þetta horfir við mér.X. Ef að ríkissjóður væri skuldlaus er staðan allt önnur og betri, og þá koma hagræðingaráhrifin, sem ágætlega er fjallað um í skýrslum um nýjan spítala, sannarlega fram og það fljótt og vel. Þá er kostnaðurinn viðráðanlegri og gæti orðið margfalt minni heldur en 100 prósent skuldsett bygging með verðtryggðu láni yrði þegar öll kurl væru komin til grafar. Af þessum ástæðum er þessi bygging risastórt efnahagslegt mál, ekki síður en heilbrigðismál. Um leið og hún felur í sér breytingu á heilbrigðisþjónustu á landsvísu, þegar hún verður risin, mun hún líka verða mikil fjárhagsleg byrði fyrir komandi kynslóðir vegna þess að hún verður byggð að öllu leyti með lánsfé. Pólitískt hefur mér sýnst vera nokkuð breið samastaða um þessa byggingu, jafnvel þó Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagst alfarið gegn byggingunni í landsfundarályktun á síðasta landsfundi. Hún hefur ekki farið hátt, en hljómar svona: „Landsfundur telur mikilvægt að bæta aðstöðu Landspítalans. Í ljósi efnahagsástandsins telur landsfundur þó fyrirliggjandi hugmyndir um nýbyggingu ótímabærar. Höfuðáherslu ber að leggja á grunnrekstur heilbrigðisstofnana um allt land." Í ljósi sögunnar verður aldrei of varlega farið í fjármálum hins opinbera og það ætti að vera tilefni fyrir fjölmiðla til þess að efast í hvert skipti sem ríkið fer „all in" í skuldsetningu, og efna til umræðu um allar hliðar mála. Þessum pistli er ætlað að gera það. Efinn á ekki síst við um þetta, þar sem stjórnvöld hafa hert ólina þegar kemur að lánum til húsnæðiskaupa og bygginga og sent út skýr skilaboð með lögum og reglum um að fólk megi ekki skuldsetja sig um of. Það sama hlýtur að gilda um sameiginlegan sjóð fólksins, ríkissjóð, sérstaklega þegar fjármagnskostnaður er næst stærsti útgjaldaliðurinn.
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun