Tónlist

Gojira syngur um frelsið

Franska þungarokkssveitin Gojira gefur út sína fimmtu hljóðversplötu eftir helgi. „Þroskaðri en fyrri verk," segir forsprakkinn Joe Duplantier.

Frönsku þungarokkararnir í Gojira gefa eftir helgi út sína fimmtu hljóðversplötu, L"Enfant Sauvage. Hún er jafnframt sú fyrsta sem kemur út hjá bandarísku útgáfunni Roadrunner Records, undirfyrirtæki Warner Music Group.

Gojira var stofnuð árið 1996 í Bayonne í Frakklandi og hét reyndar Godzilla fyrstu fimm árin. Hljómsveitin er skipuð bræðrunum Joe og Mario Duplantier, Christian Andreu og Jean-Michel Labade. Eftir að hafa spilað saman í nokkur ár og meðal annars hitað upp fyrir Cannibal Corpse urðu þeir að breyta nafninu af ótta við lögsókn en Gojira er einfaldlega Godzilla eins og Japanar myndu skrifa það.

Eftir að hafa gefið út tvær plötur sem fengu fínar viðtökur í heimalandinu vildu Duplantier og félagar stækka aðdáendahópinn. Þeir sömdu við frönsku útgáfuna Listenable Records og gáfu út plötuna From Mars to Sirius. Umslaginu þótti svipa mjög til lógós hvalaverndunarsamtakanna Sea Shepherd, sem meðlimir sveitarinnar styðja. Tónleikaferð um Evrópu fylgdi í kjölfarið og meðal annars spilaði Gojira á Airwaves-hátíðinni 2006 á Nasa. Áheyrendurnir voru ekki margir en Frakkarnir létu það ekki á sig fá og skiluðu sínu með miklum sóma. Sumir erlendir miðlar sögðu tónleikana einn af hápunktum hátíðarinnar.

Síðan þá hefur vegur Gojira vaxið jafnt og þétt úti um allan heim. Hún nær til breiðs hóps þungarokkara enda er hún ófeimin við að blanda saman dauðarokki, framsæknu þungarokki og thrash-metal. Textarnir hafa oft og tíðum fjallað um náttúruvernd, sem er óvenjulegt í þungarokkinu.

Platan The Way of All Flesh leit dagsins ljós fyrir fjórum árum og fékk góðar viðtökur og núna er L"Enfant Sauvage á leiðinni. „Frelsi fylgir ábyrgð og þess vegna spyr ég: „Hvað er frelsi? Hvaða þýðingu hefur það fyrir mig?" L"Enfant Sauvage fjallar um þetta," segir söngvarinn og gítarleikarinn Joe Duplantier. „Hún er þroskaðri en fyrri verk okkar. Það er minni vitleysa í gangi en á sama tíma er krafturinn og einfaldleikinn meiri."

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.