Skoðun

Huang Gnarr

Sighvatur Björgvinsson skrifar
Þegar íslensku útrásarvíkingana þraut örendið bar nokkuð nýrra við. „Sjá roðann í austri/hann brýtur sér braut“, sungum við ungir jafnaðarmenn í fyrndinni. Sá roði úr austri brýtur sér nú braut alla leiðina þaðan og upp á Grímsstaðahálendið. Og – eins og íslensku útrásarvíkingarnir – heillar þúsundirnar upp úr skónum með fögrum framtíðarfyrirheitum. Dreymnir Íslendingar, sem neyddust til að hætta að láta sig dreyma um Ísland sem miðdepilinn í fjármálaumsvifum heimsins, sjá nú fyrir sér heilsuhótel og golfvöll uppi á öræfum landsins, ásamt með flugvelli fyrir farþegaþotur (sumir halda orrustuþotur), hundrað villur við hótelið fyrir austræna auðmenn (sumir halda leiðtoga kínverskra kommúnista), risaumskipunarhöfn rétt við hlaðið á Gunnarsstöðum (sumir halda herskipahöfn), olíuhreinsunarstöð á hafnarbakkanum og risahótel í Reykjavík (fyrir ennþá fleiri kínverska kommúnista). „And you ain’t seen nothing yet“, eins og komist var svo vel að orði þegar íslensku útrásarvíkingarnir voru um það bil að leggja undir sig heiminn. „You ain"t seen nothing yet.“ Hvílíkur sæluhrollur fer um landann þegar þessi orð og atvik rifjast upp. Sjálfur voldugi kínverski drekinn sér mikilleik landans og landsins og hyggst hefja land og landsmenn upp í þann háa sess sem vér vitum oss ber en þar sem öfundsjúkir og illa þenkjandi útlendingar (ekki þó Kínverjar) stöðvuðu oss í miðri vegferð. Já, roðinn úr austri hann brýtur oss braut.

Kínverjar eru sagðir vera vitmenn miklir, Konfúsíus og Lao Tse voru miklir vitringar. Ekki fer hins vegar eins mikið orð af Kínverjum fyrir glens eins og gáfur. Kínverjanum Huang Nubo hefur til dæmis ekki hugkvæmst eins og Jóni Gnarr að bjóða landsmönnum upp á hvítabjörn í húsdýragarðinn þó svo Kínverjinn segist eins og Jón vilja gera allt fyrir aumingja. Þess vegna er Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík en ekki Huang Nubo. Jón Gnarr hefur nefnilega miklu meiri húmor en Huang Nubo – þó hann sé að vísu ekki jafn stórtækur. Gnarr hefur nefnilega þennan fína húmor – ekki þennan stórkarlalega. Ekki svona svakalega stórkarlalegan. Er svo miklu betri en Huang í að gnarrast í fólki. Enda Íslendingur! Nema hvað?!?




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×