Tónlist

Engin tónlist í Kastljósi vegna samnings Rúv og FÍH

Sigmar Guðmundsson segir það leiðinlegt að engin tónlistaratriði séu lengur í Kastljósi. Róbert Þórhallsson segir koma til greina að endurskoða samninginn við Rúv.
Sigmar Guðmundsson segir það leiðinlegt að engin tónlistaratriði séu lengur í Kastljósi. Róbert Þórhallsson segir koma til greina að endurskoða samninginn við Rúv. fréttablaðið/vilhelm
"Þetta er eitthvað sem okkur finnst öllum leiðinlegt, að tónlistin sé komin út úr Kastljósi. Þetta er gert út af sparnaði og ég held að þetta sé ákvörðun sem enginn er sáttur við að taka," segir Sigmar Guðmundsson, ritstjóri þáttarins. Samningur sem Ríkissjónvarpið gerði við Félag íslenskra hljómlistarmanna, FÍH, fyrir fjórum árum hefur sökum niðurskurðar hjá Rúv orðið til þess að tónlistarmenn eru hættir að spila í Kastljósinu. Ástæðan er sú að þátturinn getur ekki lengur borgað tónlistarmönnum fyrir að koma þar fram.

Þrátt fyrir að tónlistarmönnunum sjálfum sé flestum sama þótt þeir fái ekkert greitt, svo lengi sem þeir fái kynninguna, getur Kastljósið ekki orðið við ósk þeirra vegna samningsins við FÍH. Hann kveður á um að hver tónlistarmaður fái um 22 þúsund krónur fyrir hverja framkomu. Ef um fimm manna hljómsveit er að ræða nemur samanlögð greiðsla því 110 þúsund krónum. "Þetta er skrítin staða að vera með óánægða tónlistarmenn sem vilja spila. Við viljum fá þá en það er ekki hægt. Það eru allir að tapa á þessu ástandi," segir Sigmar.

Endurskoðun kemur til greinaFréttablaðið hefur heyrt af óánægju á meðal tónlistarmanna vegna málsins því þeir hafa ekki lengur tækifæri til að koma tónlist sinni á framfæri í Kastljósi. Aðspurður segist Sigmar kannast við þessa óánægju. "Í staðinn hefur verið lagt upp með að finna tónlistinni stað í öðrum þáttum Sjónvarpsins," segir hann og á þar líkast til við þætti á borð við Hljómskálann, Dans, dans, dans og Djöflaeyjuna.

Róbert Þórhallsson, stjórnarmaður í FÍH, segir að samningurinn við Rúv hafi verið gerður til að stuðla að því að tónlistarmenn fái greidd lágmarkslaun fyrir vinnuna sína.

"Ef einn aðili gefur út plötu og ræður fólk til að spila með sér og kynna efnið, kannski fjögurra manna hljómsveit, hefur okkur í FÍH alltaf þótt óréttlátt að þessir fjórir menn hafi engan beinan hagnað af auglýsingu fyrir plötuna."

Aðspurður segir Róbert vel koma til greina að endurskoða samninginn í ljósi ástands mála hjá Rúv. "Vissulega væri ekki ógáfulegt að setjast aftur að samningaborðinu. En við höfum ekki staðið þarna niður frá og meinað fólki að spila. En að sjálfsögðu setjast menn að samningaborðinu ef þetta er farið að hamla því að menn geti auglýst tónlistina sína." [email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.