Skoðun

„Hart í bak“

Sighvatur Björgvinsson skrifar
Ein af aðalpersónunum í leikritinu Hart í bak eftir Jökul Jakobsson er „Strandkapteinninn“. Kapteinn þessi er sagður hafa kallað: „Hart í bak!“ til rórmannsins um leið og kapteinninn renndi skipi sínu á fullum dampi upp á sker. Leikrit Jökuls fjallar ekki um strandið heldur um framvindu mála eftir strand.

Við Íslendingar höfum sl. fjögur ár verið allt í senn – leikarar, áhorfendur og sviðsmenn í sams konar leikriti – eftir strandið. Í sjálfu strandinu snerist málið um þjóðarskútuna og strandkapteininn, Sjálfstæðisflokkinn, sem sigldi þjóðarskútunni í stórastrand eftir samfellda átján ára skipstjórn. Að vísu mun sá „strandkapteinn” aldrei á allri þeirri vegferð hafa kallað: „Hart í bak“ (þ.e. krappt til vinstri), heldur í sífellu tuldrað sömu fyrirmælin: „Hart í stjór!“ (m.ö.o.: Krappt til hægri). Önnur stefna var einfaldlega ekki til á hans siglingakorti. Það var svona „einstefnukort“. „Krappt í stjór!“ kallaði sá strandkapteinn líka þegar þjóðarskútan fór á fullu stími upp á skerið. Af hlaust stærra tjón en sagan kann frá að greina á meira en ellefu alda siglingu þjóðarskútunnar – en mannbjörg varð. Áhöfnin hélt lífi – líka strandkapteinninn. Svona naumlega.

Leikritið okkar hefur nú í fjögur ár fjallað um eftirleikinn. Öfugt við strandkapteininn hans Jökuls er strandkapteinninn okkar stöðugt að heimta að sér verði trúað fyrir skipsstjórninni aftur. „Þau geta þetta aldrei. Bara ég!“ hrópaði strandkapteinninn í okkar leikriti þegar þjóðin sótti aðra stjórnendur til þess að losa þjóðarskútuna af skerinu. „Þau rata þetta aldrei. Bara ég!“ hrópaði hann þegar aðrir fóru að sigla þjóðarskútunni út úr skerjagarðinum. „Ég hefði gert þetta svo miklu fljótar og betur!“ var kallað þegar komið var á auðari sjó. „Nú get ég – og ég einn“ er svo viðkvæðið núna. „Nú rata ég. Hart í stjór! Krappt til hægri!“

Mikið er langlundargeð okkar Íslendinga. Svo má nú segja! Svo mikið að strandkapteinar geta jafnvel fengið að reyna sig aftur. Bara fjórum árum eftir strandið. Fullreynt ekki fyrr en þríreynt er! „Hart í stjór, góðir hálsar!“




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×