Skoðun

Páskabréf til Björns Bj.

Össur Skarphéðinsson skrifar
Björn Bjarnason skrifar í Fréttablaðinu í gær að Ísland geti víst haft áhrif á mótun löggjafar í EES-samstarfinu. Þar séu vannýtt tækifæri og EES-samstarfið lifi góðu lífi. Því miður hefur örlað á að forysta hans eigin flokks tali stundum eins og hún sé jafnvel reiðubúin að setja í uppnám veigamikla hluta af EES-samningnum. Það gleður mig því að Björn er ekki kominn á slóðir sömu öfga hvað Evrópu varðar. Hann man enn þá kosti Evrópusamvinnunnar. Það er hins vegar ekki nóg að muna. Menn verða líka að hugsa rökrétt.

Í nýlegri norskri skýrslu um stöðu EES-samstarfsins tala frændur okkar Norðmenn jákvætt um Evrópusamvinnuna. EES-samningurinn sé traustur þverbiti undir efnahagslífið. Þeir hamra hins vegar á hinum stóra galla sem felst í fullveldisafsalinu sem honum fylgir. Sama sagði Carl Bildt. Staðan er því miður ekki betri hjá okkur. Á síðasta ári tókum við upp 486 lagagerðir inn í EES-samninginn – án þess að Ísland hefði teljandi áhrif á mótun þeirra.

Er hægt að auka áhrifin í EES-samstarfinu með virkari þátttöku eins og Björn hvetur til? Norðmönnum hefur ekki tekist það með miklu meiri fjármunum og mannafla en við. Það breytir ekki heldur þeirri staðreynd að í EES sitjum við ekki við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar heldur hírumst á ganginum, þaðan sem meira að segja Norðmönnum gengur illa að pukra skilaboðum inn í sal. Hjá Birni kemur hins vegar fram mikilvægt sjónarmið sem margir af skoðanabræðrum hans þverskallast við að viðurkenna: Ísland getur haft áhrif í alþjóðasamstarfi. Geti Ísland haft áhrif í EES-samstarfinu utan af gangi eins og Björn fullyrðir, þá hljóta þau að verða meiri ættum við sæti við borðið. Niðurstaðan er einföld: Aðild að ESB mun treysta fullveldi Íslands.

Að lokum. Björn notar grein sína til að saka flokksbróður sinn Carl Bildt bæði um rógburð og klæki – og það rétt fyrir sjálfa páskana. Það skyldi þó ekki vera að þetta pínlega persónuníð gagnvart öllum sem ekki eru á „hinni einu sönnu skoðun“ sé að fæla fólk frá Sjálfstæðisflokknum þessa dagana?




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×