Skoðun

Ouagadougou

Sigríður Víðis Jónsdóttir skrifar
Næringarspítalar eru skrýtnir staðir. Lífshættulega vannærð börn liggja um allt og halda ekki höfði.

Sum börnin enduðu hér eftir að hafa drukkið óhreint vatn heima sem olli endurteknum magakveisum og niðurgangi. Hjá öðrum var ekki nóg til að borða á heimilinu. Sum komu í kjölfar þess að hafa fengið malaríu eða aðra sjúkdóma.

Á einum slíkum spítala horfir áhyggjufull amma fast á mig. Ég brosi skakkt á móti, stödd í Búrkína Fasó sem ég hafði grínast með að kalla Fjarskanistan þar sem fæstir vissu hvar það væri. Höfuðborgin héti í ofanálag Ouagadougou, sem ég hafði gert fimm tilraunir til að læra að stafsetja.

En hér er ég nú, stödd á sjúkrahúsi sem heimsforeldrar UNICEF styðja og fyrir framan mig er hlýleg kona að sligast af áhyggjum. Ömmubarnið hennar, lítil stúlka, er skelfilega vannært. Ljóst er að hún á ekki mikið eftir. Sem betur fer eru börnin í kring öll að braggast. Um kvöldið á ég erfitt með að sofna. Hvað verður um þá litlu? Og hvernig á ég að miðla því til fólks heima að það sem gerist hér komi því við? Að þökk sé mánaðarlegu framlagi almennings megi gera hluti sem annars hefði ekki verið hægt að gera, til dæmis hjálpa börnunum á sjúkrahúsinu?

Ouagadougou heimsins eru mörg: Staðir sem vekja upp framandleika og virðast í órafjarlægð en eru oft miklu nær en við höldum. Staðir þar sem bæði glatt og leitt fólk býr; fólk sem þarf að borða og sofa og verður áhyggjufullt þegar börn þess veikjast. Á endanum er þetta ekki flókið: Öll erum við eins inni við beinið og hvert upp á annað komið. Sum okkar eru aflögufær, önnur ekki. Það hlýtur að teljast skynsamlegt að þau sem geta deilt með sér komi öðrum til aðstoðar.

Á hverjum degi eru kraftaverk unnin víða um heim. Baráttan gegn barnadauða hefur sem dæmi skilað ótrúlegum árangri og barnadauði minnkað um þriðjung á sl. 10 árum. Viti menn, litla stúlkan sem var í lífshættu á spítalanum braggaðist á endanum og fékk að fara heim til sín. Meðferð hennar kostaði 12.500 krónur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×