Skoðun

Juba

Sigríður Víðis Jónsdóttir skrifar
Nóttin var dimm og ég bylti mér í tjaldinu, dýnulaus á grjótharðri mold. Tunglið vakti yfir mér þar sem ég lá innan girðingarinnar í miðstöð Sameinuðu þjóðanna í Juba í Suður-Súdan. Hafði fengið að tjalda þar á ferðalagi um svæðið sem blaðamaður eftir að friðarsamningarnir voru undirritaðir.

Níu árum síðar: Mér berast stöðuskýrslur frá Suður-Súdan. Fólk streymir að miðstöðinni og tjöld spretta upp. Nú vinn ég hjá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og þar á bæ hringja allar viðvörunarbjöllur. Fleiri en 400.000 börn hafa flúið eftir að stríðsátök brutust út.

Örvæntingarfull börn og fjölskyldur leita öryggis innan veggja miðstöðvar Sameinuðu þjóðanna. Nema að núna er ekki eitt tjald í garðinum heldur hafast meira en 20.000 manns þar við. Ég skil ekki hvernig fólkið kemst fyrir.

Fyrst fer ég að grenja. Síðan fæ ég sent kort að utan sem sýnir viðbrögð UNICEF. Við sjáum um hreint vatn fyrir flóttafólkið, bæði í þessari miðstöð og öðrum úti um landið. Höfum með stuðningi heimsforeldra UNICEF m.a. komið upp hreinlætisaðstöðu og veitt lífsnauðsynlegar bólusetningar gegn farsóttum. Og nú er verið að færa girðingarnar til og stækka svæðið. Það er gott að vita að verið sé að hjálpa.

Flóttamannabúðir í Grindavík

Mánuði síðar: UNICEF á Íslandi stendur fyrir átaki til að vekja athygli á ömurlegum aðstæðum flóttabarna víða um heim – barna eins og þeirra sem nú hafast við í tjöldum í Suður-Súdan. Hugmyndin er að spegla aðstæður þeirra hingað heim og gefa fólki færi á að styðja baráttu UNICEF fyrir börn á flótta.

Íslenska auglýsingastofan og True North hafa gefið UNICEF auglýsingu sem sýnir börn hér á landi á flótta. Til að skapa réttar aðstæður settu sjálfboðaliðar flóttamannabúðir upp við Grindavík. Börnin gátu farið heim að sofa eftir tökurnar. Sem betur fer. Þurftu ekki að liggja berskjölduð í þunnum tjöldum í næturmyrkrinu, háð utanaðkomandi aðstoð.

Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða börn hér á landi, í Suður-Súdan, Sýrlandi eða annars staðar. Börn á flótta þurfa öryggi og skjól, rétt eins og öll önnur börn. Sameiginlegt verkefni okkar er að gæta þeirra – og það er sannarlega hægt að hjálpa.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×