Kerfið verður að virka Guðmundur Andri Thorsson skrifar 5. maí 2014 00:00 Við eigum að kjósa flokka eftir lífsviðhorfum en ekki lífsviðurværi. Við eigum ekki að láta það ráða för hvort viðkomandi stjórnmálaafl sé líklegt til að skaffa okkur persónulega einhver gæði. Í kosningum veljum við samfélagið, hvernig það á að vera, ekki bara fyrir okkur sjálf, heldur líka allt hitt fólkið sem við þekkjum ekki. Þegar við kjósum erum við að stjórna samfélaginu. Þingræðið er merkilegt og göfugt fyrirkomulag – en það verður að virka, annars fer illa. Úr nógu er að velja. Flokkarnir eru ekki fjórir og hafa aldrei verið. Þeir eru ekki allir eins, ekki einu sinni þessir fjórir gömlu. Og þótt misjafn sauður sé í mörgu fé þá eru stjórnmálamennirnir okkar ekki siðlaust pakk heldur fólk sem býður fram krafta sína og þjónustu; við erum ekki þegnar þeirra, þau eru þjónar okkar. Þetta verður að virka þannig.Flokkakerfið Þetta er alvöru úrval, ekki bara eins og ostarnir hjá Guðna og þeim þar sem tíu ostar í mismunandi pakkningum smakkast allir eins og skyr sem hefur gleymst inni í kústaskáp. Þau okkar ættu að styðja Sjálfstæðisflokkinn sem telja að fólk eigi að fá að auðgast og njóta auðæfanna burtséð frá öðrum sjónarmiðum, enda sé auðsæld hinna fáu til hagsbóta fyrir hina mörgu, en hins vegar eigi ríkið ekki að standa í rekstri skóla eða spítala utan lágmarksþjónustu, enda eigi verðmætasköpunin í samfélaginu að sjá til þess að allir geti keypt þá þjónustu sem hverjum og einum hentar; þau sem eru ósammála ættu að kjósa eitthvað annað; þau okkar sem aðhyllast alþýðlegan pragmatisma, óljóst kredduleysi, þjóðlegt kæruleysi og glaðværð og séríslenskar hagfræðikenningar kjósa Framsóknarflokkinn; þau sem aðhyllast frelsi, jafnrétti og félagsanda og vilja hafa hemil á tilhneigingum kapítalismans til einokunar, eyðingar og afsiðunar styðja Samfylkinguna en hitt félagshyggjufólkið sem hefur sérstakan áhuga á umhverfismálum en andúð á hernaðarhyggju kýs VG; þau sem afneita gömlum dilkadrætti í hægri og vinstri en líta á stjórnmál sem leið til að tala saman eins og viti borið fullorðið fólk og leysa mál af skynsemi styðja BF en þau sem vilja opna samfélagið, afleggja boð og bönn og láta almenning fá sem flestar upplýsingar – og frítt dánlód – á sem aðgengilegastan hátt á þessum miklu nettímum kjósa Pírata. Dögun styðja þau sem vilja halda í heiðri gildin úr Búsáhaldabyltingunni, innleiða nýja stjórnarskrá og afleggja verðtrygginguna. Og svo framvegis. Nóg úrval. Við kjósum þá fulltrúa þessara almennu viðhorfa okkar sem við treystum til að starfa í anda þeirra af trúmennsku og heilindum og setja sig inn í flókin mál fyrir okkar hönd og leysa þau eins og við hefðum gert. Þetta kerfi verður að virka. Það er mikilvægt. Og til þess að okkur finnist það virka þurfa stjórnmálamenn að taka afleiðingum gjörða sinna. Þeir þurfa að standa við orð sín og það verður að refsa þeim ef þeir gera það ekki. Kjósendur sem vilja að aðildarviðræður verði kláraðar við ESB en kusu Sjálfstæðisflokkinn síðast eiga ekki bara að yppa öxlum yfir svikunum heldur ber þeim nánast skylda til þess að beina atkvæði sínu annað næst. Annars virkar kerfið ekki. Og það verður að virka. Og svo er það hitt: þegar fólk verður ráðherrar má það helst ekki skrökva að okkur.Í máli Jóns Hreggviðssonar… Hanna Birna Kristjánsdóttir kom á sínum tíma inn í íslensk stjórnmál með annan tón en þá óbilgirni og útúrsnúningaáráttu sem einkennt hefur ýmsa forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Hún er rökföst og eldklár, getur bunað út úr sér staðreyndum og röksemdum af glóandi mælsku og ekki margir sem standast henni snúning í kappræðu þegar sá gállinn er á henni, en hún hefur samt alltaf sagt að hún vilji hlusta á aðra – eiga í „samræðum“ sem er ákaflega hatað orð meðal þeirra sem ekki vilja neitt ræða heldur bara ráða – hún virtist vilja vinna með öðrum að góðum málefnum í stað þess að fara fram með ofsa sem valdlosti getur skapað hjá vænsta fólki. Það er góður eiginleiki. En dómgreindarbrestur ætlar nú að verða henni að falli, misbeiting valds, löngun til að klekkja á útlenskum smælingja sem flestir væru búnir að gleyma hefði ekki komið til þessa máls. Óneitanlega hefur ýmislegt snúist í höndunum á þessari ríkisstjórn. Ráðherrum hennar og baksætisbílstjórum tókst loks um síðir það sem Samfylkingunni tókst aldrei, að vekja áhuga þjóðarinnar á aðildarviðræðum að ESB og koma málinu „á dagskrá“ og nú er svo komið fyrir Hönnu Birnu að vandséð er hvernig hún á að komast hjá því að segja af sér. Skammsýni og heift réðu því hvernig starfsmenn hennar tóku á máli Nígeríumannsins Tony Amos, sem sótt hafði hér um hæli en ekki fengið þrátt fyrir að eiga von á barni með konu sem einnig hefur sótt hér um hæli. Þegar til stóð að slá skjaldborg um Tony og mótmæla brottrekstri hans birtust upplýsingar í fjölmiðlum sem virtust sýna að hann væri réttrækur. Um var að ræða minnisblað sem tekið hafði verið saman í ráðuneytinu og átti að sjálfsögðu að vera trúnaðarmál, og fór svo að ávirðingarnar þar um Tony hafa ýmist verið hraktar eða ekki fundist fótur fyrir þeim. Við munum að í máli Jóns Hreggviðssonar skipti hann sjálfur minnstu máli og hið sama gildir hér um Tony Amos: öll spjót standa á Hönnu Birnu, sem sagði reyndar á þingi í janúar að téð minnisblað væri ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu. Nú er komið á daginn að þar sagði hún ekki satt. Minnisblaðið var gert að beiðni skrifstofu hennar og afhent aðstoðarmönnum hennar daginn áður en það var sent völdum fjölmiðlum með leynd. Á þessu öllu ber hún pólitíska ábyrgð. Þannig virkar kerfið. Og það verður að virka. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur Kári Stefánsson Skoðun Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Hver er munurinn á Viðreisn og Samfylkingu? Soffía Svanhvít Árnadóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun
Við eigum að kjósa flokka eftir lífsviðhorfum en ekki lífsviðurværi. Við eigum ekki að láta það ráða för hvort viðkomandi stjórnmálaafl sé líklegt til að skaffa okkur persónulega einhver gæði. Í kosningum veljum við samfélagið, hvernig það á að vera, ekki bara fyrir okkur sjálf, heldur líka allt hitt fólkið sem við þekkjum ekki. Þegar við kjósum erum við að stjórna samfélaginu. Þingræðið er merkilegt og göfugt fyrirkomulag – en það verður að virka, annars fer illa. Úr nógu er að velja. Flokkarnir eru ekki fjórir og hafa aldrei verið. Þeir eru ekki allir eins, ekki einu sinni þessir fjórir gömlu. Og þótt misjafn sauður sé í mörgu fé þá eru stjórnmálamennirnir okkar ekki siðlaust pakk heldur fólk sem býður fram krafta sína og þjónustu; við erum ekki þegnar þeirra, þau eru þjónar okkar. Þetta verður að virka þannig.Flokkakerfið Þetta er alvöru úrval, ekki bara eins og ostarnir hjá Guðna og þeim þar sem tíu ostar í mismunandi pakkningum smakkast allir eins og skyr sem hefur gleymst inni í kústaskáp. Þau okkar ættu að styðja Sjálfstæðisflokkinn sem telja að fólk eigi að fá að auðgast og njóta auðæfanna burtséð frá öðrum sjónarmiðum, enda sé auðsæld hinna fáu til hagsbóta fyrir hina mörgu, en hins vegar eigi ríkið ekki að standa í rekstri skóla eða spítala utan lágmarksþjónustu, enda eigi verðmætasköpunin í samfélaginu að sjá til þess að allir geti keypt þá þjónustu sem hverjum og einum hentar; þau sem eru ósammála ættu að kjósa eitthvað annað; þau okkar sem aðhyllast alþýðlegan pragmatisma, óljóst kredduleysi, þjóðlegt kæruleysi og glaðværð og séríslenskar hagfræðikenningar kjósa Framsóknarflokkinn; þau sem aðhyllast frelsi, jafnrétti og félagsanda og vilja hafa hemil á tilhneigingum kapítalismans til einokunar, eyðingar og afsiðunar styðja Samfylkinguna en hitt félagshyggjufólkið sem hefur sérstakan áhuga á umhverfismálum en andúð á hernaðarhyggju kýs VG; þau sem afneita gömlum dilkadrætti í hægri og vinstri en líta á stjórnmál sem leið til að tala saman eins og viti borið fullorðið fólk og leysa mál af skynsemi styðja BF en þau sem vilja opna samfélagið, afleggja boð og bönn og láta almenning fá sem flestar upplýsingar – og frítt dánlód – á sem aðgengilegastan hátt á þessum miklu nettímum kjósa Pírata. Dögun styðja þau sem vilja halda í heiðri gildin úr Búsáhaldabyltingunni, innleiða nýja stjórnarskrá og afleggja verðtrygginguna. Og svo framvegis. Nóg úrval. Við kjósum þá fulltrúa þessara almennu viðhorfa okkar sem við treystum til að starfa í anda þeirra af trúmennsku og heilindum og setja sig inn í flókin mál fyrir okkar hönd og leysa þau eins og við hefðum gert. Þetta kerfi verður að virka. Það er mikilvægt. Og til þess að okkur finnist það virka þurfa stjórnmálamenn að taka afleiðingum gjörða sinna. Þeir þurfa að standa við orð sín og það verður að refsa þeim ef þeir gera það ekki. Kjósendur sem vilja að aðildarviðræður verði kláraðar við ESB en kusu Sjálfstæðisflokkinn síðast eiga ekki bara að yppa öxlum yfir svikunum heldur ber þeim nánast skylda til þess að beina atkvæði sínu annað næst. Annars virkar kerfið ekki. Og það verður að virka. Og svo er það hitt: þegar fólk verður ráðherrar má það helst ekki skrökva að okkur.Í máli Jóns Hreggviðssonar… Hanna Birna Kristjánsdóttir kom á sínum tíma inn í íslensk stjórnmál með annan tón en þá óbilgirni og útúrsnúningaáráttu sem einkennt hefur ýmsa forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Hún er rökföst og eldklár, getur bunað út úr sér staðreyndum og röksemdum af glóandi mælsku og ekki margir sem standast henni snúning í kappræðu þegar sá gállinn er á henni, en hún hefur samt alltaf sagt að hún vilji hlusta á aðra – eiga í „samræðum“ sem er ákaflega hatað orð meðal þeirra sem ekki vilja neitt ræða heldur bara ráða – hún virtist vilja vinna með öðrum að góðum málefnum í stað þess að fara fram með ofsa sem valdlosti getur skapað hjá vænsta fólki. Það er góður eiginleiki. En dómgreindarbrestur ætlar nú að verða henni að falli, misbeiting valds, löngun til að klekkja á útlenskum smælingja sem flestir væru búnir að gleyma hefði ekki komið til þessa máls. Óneitanlega hefur ýmislegt snúist í höndunum á þessari ríkisstjórn. Ráðherrum hennar og baksætisbílstjórum tókst loks um síðir það sem Samfylkingunni tókst aldrei, að vekja áhuga þjóðarinnar á aðildarviðræðum að ESB og koma málinu „á dagskrá“ og nú er svo komið fyrir Hönnu Birnu að vandséð er hvernig hún á að komast hjá því að segja af sér. Skammsýni og heift réðu því hvernig starfsmenn hennar tóku á máli Nígeríumannsins Tony Amos, sem sótt hafði hér um hæli en ekki fengið þrátt fyrir að eiga von á barni með konu sem einnig hefur sótt hér um hæli. Þegar til stóð að slá skjaldborg um Tony og mótmæla brottrekstri hans birtust upplýsingar í fjölmiðlum sem virtust sýna að hann væri réttrækur. Um var að ræða minnisblað sem tekið hafði verið saman í ráðuneytinu og átti að sjálfsögðu að vera trúnaðarmál, og fór svo að ávirðingarnar þar um Tony hafa ýmist verið hraktar eða ekki fundist fótur fyrir þeim. Við munum að í máli Jóns Hreggviðssonar skipti hann sjálfur minnstu máli og hið sama gildir hér um Tony Amos: öll spjót standa á Hönnu Birnu, sem sagði reyndar á þingi í janúar að téð minnisblað væri ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu. Nú er komið á daginn að þar sagði hún ekki satt. Minnisblaðið var gert að beiðni skrifstofu hennar og afhent aðstoðarmönnum hennar daginn áður en það var sent völdum fjölmiðlum með leynd. Á þessu öllu ber hún pólitíska ábyrgð. Þannig virkar kerfið. Og það verður að virka.