Íslendingar voru pappírsvíkingar Guðmundur Andri Thorsson skrifar 26. maí 2014 07:00 „Aðal ungrar þjóðar / orðin voru forðum…“ Þannig hefst Margrétarlof Þórarins Eldjárns sem hann flutti Danadrottningu á dögunum í tilefni af nýjum þýðingum á Íslendingasögunum sem eru að koma út í Danmörku.Sofandi Noregskonungur Síðast flutti íslenskt skáld norrænum þjóðhöfðingja drápu á sjötta áratug síðustu aldar í Íslandsheimsókn Ólafs Noregskonungs sem hlýddi kvæði Davíðs Stefánssonar, og herma áreiðanlegar samtímaheimildir að konungur hafi sofið með hljóðum þrátt fyrir volduga rödd og annálaða orðkynngi skáldsins. Því var aldeilis ekki að heilsa hjá Þórarni og Margréti eins og sést á upptöku frá athöfninni sem hægt er að sjá á netinu. Öðru nær: hið besta var kvæðið flutt. Drottning hlýðir með lifandi athygli enda búin að sjá danska þýðingu og veit hvað er á seyði. Þetta er falleg athöfn, virðuleg en líka innileg, hlýleg og brosmild: enginn tekur sig of hátíðlega, hvorki skáld né þjóðhöfðingi, en bæði þekkja og virða sameiginlega sögu þjóðanna. Svona eigum við að nálgast Dani af reisn – en aldrei framar með því að kaupa undan þeim fræg hótel og stórmagasín út á krít eða fara í mannjöfnuð um viðskiptamál eins og henti á alkjánalegasta niðurlægingarskeiði útrásarinnar. Þórarinn minnir okkur öll á mikilsverð sannindi nú á þessum tímum þegar enn virðist ekki ætla að takast að finna meðalhófið milli hins hömlulausa sjálfshaturs og blygðunarlausrar sjálfsupphafningar, þegar ekki er hægt að kynna verðug áform um aukin framlög til rannsókna og mennta án þess að því þurfi að fylgja heitstrengingar um að skara fram úr öllum öðrum. Þórarinn minnir okkur á þetta: Íslendingar kunna að hafa orðið maklega að spotti um víða veröld vegna fjármálaumsvifa sinna en samt ferst þeim sumt vel úr hendi: ekki síst að búa til list. Eru þeir þá bestir í heimi í því? Það eru þeir ekki, en það má alveg halda á lofti því sem vel er gert og gott í íslenskri menningu.Þegnar Óðins Og í framhaldi af þessu er rétt að árétta enn einu sinni að hugmyndin um útrásarvíkingana, sem komnir væru í beinan karllegg frá þeim víkingum sem stóðu í stórræðum við að henda börn á spjótsoddum, bíta fólk á barkann, æla skyri á mann og annan, ræna, myrða, nauðga, brenna, rústa og kúga – sú sjálfsmynd var byggð á vissu þekkingarleysi á sögunni. Í fyrsta lagi var það undarleg hugmynd að eftirsóknarvert væri að samsama sig slíkum rumpulýð og nota hana síðan til að réttlæta strandhögg í sparifé annarra þjóða eins og Icesavereikningarnir voru til vitnis um, og í öðru lagi var rangt að slíkur ránskapur væri sérstaklega arfur Íslendinga og þeim í blóð borinn, umfram til dæmis það að temja sér nægjusemi við lítil efni. Íslendingar voru aldrei víkingar í þessum skilningi. Það sem hins vegar var dálítið sérstakt í íslenskri miðaldamenningu og var ríkjandi í fari furðu margra manna af ólíku standi og misjöfnun stéttum frá elstu tíð og gegnum aldirnar og allt fram á síðustu ár var útbreidd árátta að stunda skriftir af einhverju tagi. Það lýsti sér í endalausum kvæðum þar sem skáldið ætlaði aldrei að geta hætt, þáttum af minnisverðu og merku fólki, ættartölum þar sem menn röktu sig til þeirra frænda Adams og Óðins; algengt var að skrifa upp sálma, gamlar sögur og jafnvel semja nýjar sögur í anda riddarasagna, sem lýsa innvirðulegum ævintýrum hugprúðra riddara og hispursmeyja. Stundum er talað um að á Íslendinga hafi löngum herjað tveir þjóðarsjúkdómar: alkóhólismi og grafómanía, skrifæði, sú árátta að mega helst ekki óskrifandi vera. Skiljanlegt er að margt fólk vilji gjarnan sækja sjálfsmynd sína í eitthvað annað – og ekkert því til fyrirstöðu – en þó að maður leggi ekki stund á bókmenntir er allt í lagi að hafa í huga að Íslendingar eiga þennan ríka arf, og þá er ekki einungis um að ræða Íslendingasögurnar eða Passíusálmana eða önnur slík eftirlætisverk, heldur hafa hér verið ritaðar ágætar alþýðubókmenntir fram á síðustu ár. Þessi arfur þarf ekki að birtast í bókagerð á okkar stafrænu tímum; hann getur allt eins birst okkur sem fremur útbreidd gáfa til að skynja umhverfi sitt í líkingu listar, í frásögn, metafóru, hreyfingu, söng – eða rýminu sem „listamaðurinn vinnur með“. Íslendingar voru aldrei víkingar í þeim skilningi að þeir hafi unnvörpum staðið í sjóránum eða kaupskap. Þeir voru ekki þannig fólk. Þeir voru ekki valdamiklir á evrópska vísu. En þeir töldu að vísu sjófarendum sem hingað komu trú um að þeir gætu selt þeim byr, að því er heimildir herma frá 15. öld. Þeir réðu yfir vindum með orðkynngi sinni – að eigin sögn. Vald sitt sóttu þeir í orðin, sem þeir tvinnuðu saman af æ meiri hugkvæmni og bundu í sífellt flóknari bragarhætti, sem þeir notuðu til að sveipa list sína kynngi hins ókennilega. Kóngarnir sátu gapandi og hlustuðu á íslensku skáldin kyrja og spinna þeim frægð með þulum sínum. Á sínu stórveldisskeiði réðu Íslendingar yfir sjálfri Sögu, þeir voru dyraverðir Orðstírsins; þegnar Óðins og stjórnuðu eftirmælum konunga. Þeir voru pappírsvíkingar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur Kári Stefánsson Skoðun Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Hver er munurinn á Viðreisn og Samfylkingu? Soffía Svanhvít Árnadóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun
„Aðal ungrar þjóðar / orðin voru forðum…“ Þannig hefst Margrétarlof Þórarins Eldjárns sem hann flutti Danadrottningu á dögunum í tilefni af nýjum þýðingum á Íslendingasögunum sem eru að koma út í Danmörku.Sofandi Noregskonungur Síðast flutti íslenskt skáld norrænum þjóðhöfðingja drápu á sjötta áratug síðustu aldar í Íslandsheimsókn Ólafs Noregskonungs sem hlýddi kvæði Davíðs Stefánssonar, og herma áreiðanlegar samtímaheimildir að konungur hafi sofið með hljóðum þrátt fyrir volduga rödd og annálaða orðkynngi skáldsins. Því var aldeilis ekki að heilsa hjá Þórarni og Margréti eins og sést á upptöku frá athöfninni sem hægt er að sjá á netinu. Öðru nær: hið besta var kvæðið flutt. Drottning hlýðir með lifandi athygli enda búin að sjá danska þýðingu og veit hvað er á seyði. Þetta er falleg athöfn, virðuleg en líka innileg, hlýleg og brosmild: enginn tekur sig of hátíðlega, hvorki skáld né þjóðhöfðingi, en bæði þekkja og virða sameiginlega sögu þjóðanna. Svona eigum við að nálgast Dani af reisn – en aldrei framar með því að kaupa undan þeim fræg hótel og stórmagasín út á krít eða fara í mannjöfnuð um viðskiptamál eins og henti á alkjánalegasta niðurlægingarskeiði útrásarinnar. Þórarinn minnir okkur öll á mikilsverð sannindi nú á þessum tímum þegar enn virðist ekki ætla að takast að finna meðalhófið milli hins hömlulausa sjálfshaturs og blygðunarlausrar sjálfsupphafningar, þegar ekki er hægt að kynna verðug áform um aukin framlög til rannsókna og mennta án þess að því þurfi að fylgja heitstrengingar um að skara fram úr öllum öðrum. Þórarinn minnir okkur á þetta: Íslendingar kunna að hafa orðið maklega að spotti um víða veröld vegna fjármálaumsvifa sinna en samt ferst þeim sumt vel úr hendi: ekki síst að búa til list. Eru þeir þá bestir í heimi í því? Það eru þeir ekki, en það má alveg halda á lofti því sem vel er gert og gott í íslenskri menningu.Þegnar Óðins Og í framhaldi af þessu er rétt að árétta enn einu sinni að hugmyndin um útrásarvíkingana, sem komnir væru í beinan karllegg frá þeim víkingum sem stóðu í stórræðum við að henda börn á spjótsoddum, bíta fólk á barkann, æla skyri á mann og annan, ræna, myrða, nauðga, brenna, rústa og kúga – sú sjálfsmynd var byggð á vissu þekkingarleysi á sögunni. Í fyrsta lagi var það undarleg hugmynd að eftirsóknarvert væri að samsama sig slíkum rumpulýð og nota hana síðan til að réttlæta strandhögg í sparifé annarra þjóða eins og Icesavereikningarnir voru til vitnis um, og í öðru lagi var rangt að slíkur ránskapur væri sérstaklega arfur Íslendinga og þeim í blóð borinn, umfram til dæmis það að temja sér nægjusemi við lítil efni. Íslendingar voru aldrei víkingar í þessum skilningi. Það sem hins vegar var dálítið sérstakt í íslenskri miðaldamenningu og var ríkjandi í fari furðu margra manna af ólíku standi og misjöfnun stéttum frá elstu tíð og gegnum aldirnar og allt fram á síðustu ár var útbreidd árátta að stunda skriftir af einhverju tagi. Það lýsti sér í endalausum kvæðum þar sem skáldið ætlaði aldrei að geta hætt, þáttum af minnisverðu og merku fólki, ættartölum þar sem menn röktu sig til þeirra frænda Adams og Óðins; algengt var að skrifa upp sálma, gamlar sögur og jafnvel semja nýjar sögur í anda riddarasagna, sem lýsa innvirðulegum ævintýrum hugprúðra riddara og hispursmeyja. Stundum er talað um að á Íslendinga hafi löngum herjað tveir þjóðarsjúkdómar: alkóhólismi og grafómanía, skrifæði, sú árátta að mega helst ekki óskrifandi vera. Skiljanlegt er að margt fólk vilji gjarnan sækja sjálfsmynd sína í eitthvað annað – og ekkert því til fyrirstöðu – en þó að maður leggi ekki stund á bókmenntir er allt í lagi að hafa í huga að Íslendingar eiga þennan ríka arf, og þá er ekki einungis um að ræða Íslendingasögurnar eða Passíusálmana eða önnur slík eftirlætisverk, heldur hafa hér verið ritaðar ágætar alþýðubókmenntir fram á síðustu ár. Þessi arfur þarf ekki að birtast í bókagerð á okkar stafrænu tímum; hann getur allt eins birst okkur sem fremur útbreidd gáfa til að skynja umhverfi sitt í líkingu listar, í frásögn, metafóru, hreyfingu, söng – eða rýminu sem „listamaðurinn vinnur með“. Íslendingar voru aldrei víkingar í þeim skilningi að þeir hafi unnvörpum staðið í sjóránum eða kaupskap. Þeir voru ekki þannig fólk. Þeir voru ekki valdamiklir á evrópska vísu. En þeir töldu að vísu sjófarendum sem hingað komu trú um að þeir gætu selt þeim byr, að því er heimildir herma frá 15. öld. Þeir réðu yfir vindum með orðkynngi sinni – að eigin sögn. Vald sitt sóttu þeir í orðin, sem þeir tvinnuðu saman af æ meiri hugkvæmni og bundu í sífellt flóknari bragarhætti, sem þeir notuðu til að sveipa list sína kynngi hins ókennilega. Kóngarnir sátu gapandi og hlustuðu á íslensku skáldin kyrja og spinna þeim frægð með þulum sínum. Á sínu stórveldisskeiði réðu Íslendingar yfir sjálfri Sögu, þeir voru dyraverðir Orðstírsins; þegnar Óðins og stjórnuðu eftirmælum konunga. Þeir voru pappírsvíkingar.