Draugagangur Fanney Birna Jónsdóttir skrifar 25. júlí 2014 07:00 Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að innanríkisráðherra, sem er jafnframt ráðherra neytendamála, svari ekki fyrir neytendamál þegar kemur að innflutningi á landbúnaðarvörum. Þess í stað gegnir landbúnaðarherra hlutverki neytendaráðherra í þeim málaflokki. Formaður Neytendasamtakanna segir þetta dæmi um íslenska stjórnsýslu í hnotskurn; landbúnaðarráðherra líti á það sem sitt helsta hlutverk að vernda landbúnað en hafi ekki hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Fréttablaðið hefur undanfarið fjallað ítrekað um agnúa á landbúnaðarkerfinu. Eftirspurn sem ekki er mætt með innlendri framleiðslu, háa tolla á innfluttum vörum sem bitna á verði til neytenda, vanbúnað á merkingum á innfluttum landbúnaðarvörum og fleira. Allir sem lagt hafa orð í belg um neytendavernd í þessum málaflokki hafa sömu sögu að segja; kerfið sem við búum við er úr sér gengið og verulega hallar á neytendur. Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er hvergi minnst á neytendur, hvorki þegar kemur að landbúnaði né almennt og er engu líkara en að þeirra hagsmunir hafi þótt of lítilfjörlegir til að komast í yfirlýsinguna, sem var þó heilar tólf blaðsíður að lengd. Þar er þó að sjálfsögðu að finna langan kafla um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum, til að mynda að bæta kjör bænda meðfram vaxandi alþjóðlegri eftirspurn eftir matvælum. Hagsmunir íslensks landbúnaðar eru vissulega miklir og vel hægt að færa fyrir því sannfærandi rök að þá skuli verja og vernda tryggilega. En á sama tíma eru hagsmunir neytenda í málaflokknum gríðarlegir og þar með íslenskra heimila sem er mikið í mun að verð á matarkörfunni sé sem hagstæðast. Þarna mætast tvö hlutverk sem eðli málsins samkvæmt fara ekki saman. Einn og sami ráðherrann getur ekki sinnt báðum hlutverkum á sannfærandi hátt þar sem viðkomandi er þá beggja vegna borðsins að gæta hagsmuna tveggja andstæðra sjónarmiða. Slíkt getur aldrei annað en stuðlað að vantrausti, jafnvel þótt viðkomandi geri sitt besta. Fyrir 30 árum hefði þetta líklega þótt sjálfsagt en í dag eiga menn að vita betur. Svona ákvörðun um verkaskiptingu getur eiginlega bara verið tilkomin af ótrúlegum barnaskap, nostalgíu eftir gamla spillta bitlingakerfinu eða, sem er mun líklegra, vanvirðingu gagnvart öðrum málaflokknum. Því miður virðist vanvirðingin beinast að hagsmunum neytenda. Það er ljóst að íslenskir neytendur eiga ekki von á góðu á meðan þetta hugarfar er ríkjandi innan ríkisstjórnarinnar. Núverandi kerfi gengur út á að vernda framleiðendur með öllum tiltækum ráðum. Eini tilgangur neytenda í þessu kerfi er að kaupa vörur þessara aðila, sama hversu dýrar, óhollar, óhagkvæmar og illa merktar þær eru. Til að tryggja þetta kemur ríkið í veg fyrir samkeppni, úrval og lágt vöruverð með háum tollum á landbúnaðarvörum. Þetta heitir að snúa lögmálinu um framboð og eftirspurn á hvolf. Neytendur stjórna ekki markaðnum með neyslu sinni heldur fá eingöngu að versla óhagkvæma ríkisvarða framleiðslu. Það ber ekki vott um frjálslyndi í neinni merkingu þess orðs heldur miklu frekar draugagang úreltrar hugmyndafræði og sjónarmiða. Þá drauga ætti fyrir löngu að vera búið að særa í burtu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fanney Birna Jónsdóttir Mest lesið Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Það er allt í lagi að vera þú sjálfur Kári Stefánsson Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Hver er munurinn á Viðreisn og Samfylkingu? Soffía Svanhvít Árnadóttir Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun
Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að innanríkisráðherra, sem er jafnframt ráðherra neytendamála, svari ekki fyrir neytendamál þegar kemur að innflutningi á landbúnaðarvörum. Þess í stað gegnir landbúnaðarherra hlutverki neytendaráðherra í þeim málaflokki. Formaður Neytendasamtakanna segir þetta dæmi um íslenska stjórnsýslu í hnotskurn; landbúnaðarráðherra líti á það sem sitt helsta hlutverk að vernda landbúnað en hafi ekki hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Fréttablaðið hefur undanfarið fjallað ítrekað um agnúa á landbúnaðarkerfinu. Eftirspurn sem ekki er mætt með innlendri framleiðslu, háa tolla á innfluttum vörum sem bitna á verði til neytenda, vanbúnað á merkingum á innfluttum landbúnaðarvörum og fleira. Allir sem lagt hafa orð í belg um neytendavernd í þessum málaflokki hafa sömu sögu að segja; kerfið sem við búum við er úr sér gengið og verulega hallar á neytendur. Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er hvergi minnst á neytendur, hvorki þegar kemur að landbúnaði né almennt og er engu líkara en að þeirra hagsmunir hafi þótt of lítilfjörlegir til að komast í yfirlýsinguna, sem var þó heilar tólf blaðsíður að lengd. Þar er þó að sjálfsögðu að finna langan kafla um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum, til að mynda að bæta kjör bænda meðfram vaxandi alþjóðlegri eftirspurn eftir matvælum. Hagsmunir íslensks landbúnaðar eru vissulega miklir og vel hægt að færa fyrir því sannfærandi rök að þá skuli verja og vernda tryggilega. En á sama tíma eru hagsmunir neytenda í málaflokknum gríðarlegir og þar með íslenskra heimila sem er mikið í mun að verð á matarkörfunni sé sem hagstæðast. Þarna mætast tvö hlutverk sem eðli málsins samkvæmt fara ekki saman. Einn og sami ráðherrann getur ekki sinnt báðum hlutverkum á sannfærandi hátt þar sem viðkomandi er þá beggja vegna borðsins að gæta hagsmuna tveggja andstæðra sjónarmiða. Slíkt getur aldrei annað en stuðlað að vantrausti, jafnvel þótt viðkomandi geri sitt besta. Fyrir 30 árum hefði þetta líklega þótt sjálfsagt en í dag eiga menn að vita betur. Svona ákvörðun um verkaskiptingu getur eiginlega bara verið tilkomin af ótrúlegum barnaskap, nostalgíu eftir gamla spillta bitlingakerfinu eða, sem er mun líklegra, vanvirðingu gagnvart öðrum málaflokknum. Því miður virðist vanvirðingin beinast að hagsmunum neytenda. Það er ljóst að íslenskir neytendur eiga ekki von á góðu á meðan þetta hugarfar er ríkjandi innan ríkisstjórnarinnar. Núverandi kerfi gengur út á að vernda framleiðendur með öllum tiltækum ráðum. Eini tilgangur neytenda í þessu kerfi er að kaupa vörur þessara aðila, sama hversu dýrar, óhollar, óhagkvæmar og illa merktar þær eru. Til að tryggja þetta kemur ríkið í veg fyrir samkeppni, úrval og lágt vöruverð með háum tollum á landbúnaðarvörum. Þetta heitir að snúa lögmálinu um framboð og eftirspurn á hvolf. Neytendur stjórna ekki markaðnum með neyslu sinni heldur fá eingöngu að versla óhagkvæma ríkisvarða framleiðslu. Það ber ekki vott um frjálslyndi í neinni merkingu þess orðs heldur miklu frekar draugagang úreltrar hugmyndafræði og sjónarmiða. Þá drauga ætti fyrir löngu að vera búið að særa í burtu.