Gullna reglan á við um helgina Óli Kristján Ármannsson skrifar 1. ágúst 2014 07:15 Að vanda leggja nú tugþúsundir Íslendinga land undir fót um verslunarmannahelgina, jafnvel þótt veðurspáin sé ekkert til að hrópa húrra fyrir, í það minnsta ekki sunnanlands. Hjá flestum, nema reyndar hluta verslunarmanna, er fram undan þriggja daga helgi þar sem fjöldi fólks notar tækifærið til að sækja skipulagðar útihátíðir og önnur mannamót, eða sækja heim vini og ættingja hér og hvar um landið. Þegar margir eru á ferðinni í einu, eða samankomnir á sama stað, getur verið hætt við núningi af einhverju tagi. Vert er þá líka að hafa í huga að þótt hóflega drukkið vín geti glatt mannsins hjarta, þá getur sami vímugjafi losað um hömlur á þann máta að hann er eins og bensín á eld í deilum. Illu heilli hafa fréttir síðustu ára og áratuga um verslunarmannahelgar að stórum hluta snúist um umferðaróhöpp og ofbeldisverk. Það liggur í hlutarins eðli að þegar allur fjöldinn fer af stað þá eru svörtu sauðirnir líka á ferðinni. Á útihátíðum er markaður fyrir ólögleg vímuefni og tækifæri til óskunda fyrir illvirkja. Allur fjöldinn ætlar hins vegar að hafa það gott og skemmta sér. Til þess að svo megi verða gæti fólk þurft að hjálpast að. Sama hverju fólk kýs að trúa eða trúa ekki þá kann leiðarinnar að farsælum fararlokum að vera að leita í siðaboðskap Krists, gullnu reglunni um að gera náunganum það sem maður vill að hann gerir manni sjálfur. Sumir hafa viljað snúa reglunni á haus og segjast þá ekki gera öðrum það sem þeir vildu ekki að gert væri við sig. Slíkt viðhorf getur falið í sér skeytingarleysi um hag náungans. Í nýlegri umfjöllun Rannsóknarnefndar samgönguslysa um bílveltu, þar sem tólf ára drengur lét lífið, í mars í fyrra er átalið skeytingarleysi vegfarenda á slysstað. Fjöldi bíla ók hjá þrátt fyrir að farþegi í bílnum sem valt hafi í vegkantinum leitað hjálpar. Margoft hefur verið greint frá viðlíka dæmum. Nýverið var ráðist á ungan mann í strætóskýli sem var í mestu vandræðum með að fá hjálp. Vert er að spyrja sjálfan sig, hvernig vil ég að aðrir bregðist við lendi ég sjálfur, eða einhver af mínum nánustu, í slysi? Ætli maður að vænta þess að fá aðstoð frá öðrum, þá verður maður líka að vera reiðubúinn að hjálpa til þar sem aðrir eru í vandræðum. Þetta á að sjálfsögðu við víðar en í umferðinni. Ósjálfbjarga fólk, hvort sem er vegna drykkju eða af öðrum völdum, á ekki að láta afskiptalaust heldur hjálpa í skjól þar sem því er sinnt. Þótt misjafn sauður sé í mörgu fé þá getur verið öryggi í fjöldanum, ef fólk er samhent í því að láta sig varða hag náungans. Þannig má minnka til muna leikvöll þeirra sem misjafnt hafa í huga. Vonandi eiga sem flestir ánægjulega verslunarmannahelgi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óli Kr. Ármannsson Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur Kári Stefánsson Skoðun Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Hver er munurinn á Viðreisn og Samfylkingu? Soffía Svanhvít Árnadóttir Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Annarra manna peningar eru peningar okkar allra Davíð Þór Jónsson Skoðun Ég á ‘etta, ég má ‘etta Jón Ármann Steinsson Skoðun
Að vanda leggja nú tugþúsundir Íslendinga land undir fót um verslunarmannahelgina, jafnvel þótt veðurspáin sé ekkert til að hrópa húrra fyrir, í það minnsta ekki sunnanlands. Hjá flestum, nema reyndar hluta verslunarmanna, er fram undan þriggja daga helgi þar sem fjöldi fólks notar tækifærið til að sækja skipulagðar útihátíðir og önnur mannamót, eða sækja heim vini og ættingja hér og hvar um landið. Þegar margir eru á ferðinni í einu, eða samankomnir á sama stað, getur verið hætt við núningi af einhverju tagi. Vert er þá líka að hafa í huga að þótt hóflega drukkið vín geti glatt mannsins hjarta, þá getur sami vímugjafi losað um hömlur á þann máta að hann er eins og bensín á eld í deilum. Illu heilli hafa fréttir síðustu ára og áratuga um verslunarmannahelgar að stórum hluta snúist um umferðaróhöpp og ofbeldisverk. Það liggur í hlutarins eðli að þegar allur fjöldinn fer af stað þá eru svörtu sauðirnir líka á ferðinni. Á útihátíðum er markaður fyrir ólögleg vímuefni og tækifæri til óskunda fyrir illvirkja. Allur fjöldinn ætlar hins vegar að hafa það gott og skemmta sér. Til þess að svo megi verða gæti fólk þurft að hjálpast að. Sama hverju fólk kýs að trúa eða trúa ekki þá kann leiðarinnar að farsælum fararlokum að vera að leita í siðaboðskap Krists, gullnu reglunni um að gera náunganum það sem maður vill að hann gerir manni sjálfur. Sumir hafa viljað snúa reglunni á haus og segjast þá ekki gera öðrum það sem þeir vildu ekki að gert væri við sig. Slíkt viðhorf getur falið í sér skeytingarleysi um hag náungans. Í nýlegri umfjöllun Rannsóknarnefndar samgönguslysa um bílveltu, þar sem tólf ára drengur lét lífið, í mars í fyrra er átalið skeytingarleysi vegfarenda á slysstað. Fjöldi bíla ók hjá þrátt fyrir að farþegi í bílnum sem valt hafi í vegkantinum leitað hjálpar. Margoft hefur verið greint frá viðlíka dæmum. Nýverið var ráðist á ungan mann í strætóskýli sem var í mestu vandræðum með að fá hjálp. Vert er að spyrja sjálfan sig, hvernig vil ég að aðrir bregðist við lendi ég sjálfur, eða einhver af mínum nánustu, í slysi? Ætli maður að vænta þess að fá aðstoð frá öðrum, þá verður maður líka að vera reiðubúinn að hjálpa til þar sem aðrir eru í vandræðum. Þetta á að sjálfsögðu við víðar en í umferðinni. Ósjálfbjarga fólk, hvort sem er vegna drykkju eða af öðrum völdum, á ekki að láta afskiptalaust heldur hjálpa í skjól þar sem því er sinnt. Þótt misjafn sauður sé í mörgu fé þá getur verið öryggi í fjöldanum, ef fólk er samhent í því að láta sig varða hag náungans. Þannig má minnka til muna leikvöll þeirra sem misjafnt hafa í huga. Vonandi eiga sem flestir ánægjulega verslunarmannahelgi.